Þema Lestrarklefans í mars er geðveiki í allri sinni mynd. Við höfum fjallað um allskyns geðveikar bækur og oftar en ekki eru það geðrænir sjúkdómar sögupersónanna eða hegðun þeirra sem staðsetja bækurnar í þennan flokk.  Bókin sem ég hef á borðinu núna fjallar um annarskonar geðveiki. Samfélagslegt andlegt mein sem hrjáir okkur sem þjóð, meðvirkni, frekju og yfirgang.

Eitraða barnið eftir Guðmund Brynjólfsson gerist á Eyrarbakka rétt fyrir þarsíðustu aldamót.  Ég er afar hrifin af þessum höfundi. Hann hefur skemmtilegan stíl, skorinortur og hnyttinn og afskaplega flinkur í tungumálinu okkar. Fyrsta bókin sem ég las eftir Guðmund hét Kattarsamsærið og ég á eflaust eftir að ýta henni að ykkur seinna. Betri barnabók hef eg ekki lesið svo ég muni.

Eitraða barnið er glæpasaga, Elísabet er fimmtán ára vinnustúlka á bænum Móakoti og er send af húsbændum sínum með umslag til sýslumanns.  Í þessari ferð hennar er henni nauðgað, ekki bara einu sinni heldur tvisvar og verður ófrísk án þess að vita hvor sé faðirinn.  Þegar barnið finnst dáið í ánni skammt frá dvalarstað Elísabetar er hún strax sökuð um morðið og færð í varðhald.

Eyjólfur Jónsson er við nám í Kaupmannahöfn en er sendur heim af föður sínum, alþingismanninum, til að taka við sýslumannsembætti á Eyrarbakka eftir lát sýslumanns. Hann giftist Önnu Bjarnadóttur, samkvæmt skipun föður síns og föður Önnu, sem hefur beðið hans í festum og saman takast þau á við það hlutverk sem Eyjólfi er nauðugum falið af föður sínum. Ég ætla ekki að fara dýpra í þennan söguþráð. Þetta er fyrsta bókin af þremur og því skilur hún mann eftir í spurn.

Persónunar lifna við á síðum bókarinnar. Eyjólfur er hálfgerð rola sem gerir það sem honum er sagt og treystir á gæfu og gjörvuleik konu sinnar Önnu Bjarnadóttur

Kár Ketilsson er skíthællinn, fulltrúi sýslumanns, ofbeldisfullur hrotti sem svífst einskis og lesandinn þráir það heitast að hann fái sem maklegust málagjöld.

Guðmundur býr á Eyrarbakka og er trúr staðarháttum í bókinni. Það má með sanni segja að hann sé kunnugur staðháttum! Eins koma fyrir nöfn í bókinni sem eiga sér stað í raunveruleikanum en bókin er þó fyrst og fremst skáldsaga.

Sagan þessi er sagan okkar í dag. Það hefur ekki margt breyst í þjóðfélagsumræðunni frá því um síðustu aldamót.  Sláandi er að lesa um viðbrögð almúgans við kynferðisofbeldinu sem Elísabet verður fyrir í bókinni. Margt þar er líkt nútímanum. Fórnarlömb kynferðisbrota eru enn að glíma fyrir forkastanlega fordóma og kynferðisbrotamenn hafa fengið uppgefnar sakir sökum klíkuskapar og tengsla við menn í æðri stöðum. Kynferðisbrot eru svo þau brot sem sjaldnast er dæmt í þar sem þau þykja erfið að sanna og sönnunarbyrðin alltaf fórnarlambsins. Líklegt væri að níðingur Elísabetar væri ekki verr staddur í nútímanum, ef ekki betur hreinlega.

Hrossakaup um stöður og bitlinga eru dagleg brauð í samtímanum enda ekki langt síðan að menn urðu uppvísir um slíka samninga varðandi sendiherrastöður erlendis.  Og þó okkur þyki vont að sjá þetta svart á hvítu, hvernig menn og konur sölsa undir sig heilu og hálfu embættin í skjóli klíku og blóðtengsla þá ætti þetta ekki að koma okkur svo mikið á óvart, Eyjólfur og faðir hans eru víða og saga þeirra bæði gömul og ný.

En það er bara miklu auðveldara að fylgja bara straumnum, meðvirkni er dauðans alvara og hún er mein sem borar sér allstaðar og Guðmundur skilar því svo vel hvernig freki kallinn getur valtað yfir allt og alla án þess að nokkur fái rönd við reist.  Og það versta er að svo mörgum finnst þetta vera sjálfsagt, að freki kallinn fái það sem hann vilji, þeir frekustu og hæfustu lifa jú af. Er það ekki hálfgerð geðveiki? Að sjá ekki flísina í sínum eigin garði, við hjökkum í sama farinu ár eftir ár, kjósum yfir okkur fólk sem stundar hrossakaup um opinber hálaunuð embætti, hyglar sínum nánustu á okkar kostnað og sér svo ekkert rangt við það sem það gerir.

Á þeim tíma sem saga Guðmundar gerist þá sat fólk uppi með sína háu herra, þeir áttu landið og miðin, húsnæðin og nánast allt líf fólks sem átti alla sína afkomu undir velvild þeirra. Og gátu ekkert gert. Núna höfum við val en veljum samt þetta ríkjandi ástand sem hefur svo lítið breyst síðan um þar síðustu aldamót. Hversu geggjað er það eiginlega?

Bókin Eitraða barnið er bullandi samfélagsádeila. Hún sýnir okkur hvað við erum í raun komin skammt á veg með að uppræta þau samfélagsmein sem grasserað hafa hjá okkur frá því að land byggðist.  Og það er svo ótrúlega sorgleg staðreynd.

 

Lestu þetta næst

Geturðu elskað mig núna?

Geturðu elskað mig núna?

Þegar Hvítfeld, fyrsta skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur, var sett fyrir í bókmenntafræðiáfanga sem...

Ögrandi smásagnasafn

Ögrandi smásagnasafn

Bókmenntir Suður-Ameríku hafa alltaf heillað mig. Smásögur eru töluvert virðingaverðara...