Hlæjandi hýenur í Teddington

Finnst þér eins og þú búir við hliðina á villidýri? Er nágranni þinn uppi alltaf þrammandi eftir gólfinu eins og hann sé fíll? Finnst þér nágrannakonan kannski vera með óvenju langan háls eins og gíraffi, tilvalinn til að auðvelda glápið yfir grindverkið? Finnst þér skrýtið hve oft þú grípur nágrannan í tré, hangandi eins og apa? Ef marka má bók Julian Clary, Bold fjölskylduna, þá eru allar líkur á að nágranni þinn sé villidýr, því villt dýr búa á meðal okkar. Reyndar eru dýrin ekki svo villt lengur, þegar þau hafa valið að búa á meðal okkar. Þau hafa tekið upp siði mannfólksins; klæða sig í föt, tjá sig á mannamáli, stunda vinnu og þéna peninga. Í raun og veru er fátt sem greinir þau frá óskaplega venjulegu miðstéttarfólki. (Nema auðvitað loðið andlit, rófa, undarlegur áhugi á því að grafa holur og nudda rassinum í runna. En mannfólk er svo vitlaust og pólitískt réttþenkjandi að það þorir ekki að segja neitt við þessum undarlegheitum.)

Bold fjölskyldan eftir Clary með myndskreytingum eftir David Roberts segir frá Bold hjónunum. Þau hétu reyndar ekki Bold áður, heldur tóku þau upp nafnið eftir að þau duttu niður á skilríki hinna raunverulegu Bold hjóna í Afríku. Hin mennsku Bold hjón hlutu hrapaleg örlög í skolti krókódíls skömmu áður. Nú, hin nýju Bold hjón eru alls ekki mennsk heldur hýenur. Hýenur sem hlæja frjálslega, oft og hátt.

Hýenurnar flytja í smábæinn Teddington á Englandi, klædd í fínasta púss en gæta þess alltaf að láta ekki sjá í rófuna á sér. Rófan ein getur komið upp um þau! Þau lifa hamingjusamlega í Teddington, finna sér vinnu eins og annað mannfólk og eignast þar tvíburahvolpana Bobbý og Bettý. Þegar Bold hjónin fara svo að sakna Afríku vandast málið, því þau geta ómögulega ferðast til Afríku aftur. Hjónin finna til skyldunnar að kenna hvolpunum sínum um gamla landið, fá þau til að læra dýramál og hitta aðrar hýenur. En þrátt fyrir að geta ekki ferðast til Afríku geta þau samt hitt aðrar hýenur í safarí-garði skammt frá Teddington. Þar þarf fjölskyldan svo að leysa stórt vandamál og kemst að miklu leyndarmáli um nágranna, sinn sem ætíð hafði verið þeim til trafala.

Eins og heyra má er Bold fjölskyldan saga innflytjenda-fjölskyldu í Englandi. Nema í staðinn fyrir að vera mennsk eru þau hýenur. Stundum lætur fólk eins og innflytjendur séu villidýr. En ef við lítum fram hjá þessum pólitíska undirtóni í barnabókinni, þá er Bold fjölskyldan létt skemmtun fyrir bæði foreldra og börn.

Okkur mæðginum féll bókin vel. Textinn einn og sér er leikandi lipur og skemmtilegur og svo skemmir ekki fyrir að fimmaurabrandarar úr hýenumunni eru látnir flakka þegar maður á síst von á því. Söguþráðurinn er skemmtilegur en bókin væri lítið án myndskreytinganna. Þótt það séu ekki myndir á hverri síðu, þá eru þær svo mikilvægar. Myndir Roberts koma til skila svo mikilli gleði og kæti til lesandans. Það er í raun synd að fleiri barnabækur sem eru gefnar út af íslenskum höfundum skuli ekki fá að vera ríkulegar myndskreyttar.

Julian Clary, höfundur bókarninnar er leikari að aðalstarfi en hefur getið sér gott orð fyrir uppistand. Hann hefur nú þegar skrifað tvær aðrar bækur um Bold fjölskylduna, The Bolds to the Rescue og The Bolds on Holiday  sem komu út árið 2016 og 2017. Það er von okkar mægina að bókaflokkurinn verði fullþýddur, enda stórskemmtileg fjölskylda á ferðinni.

Lestu þetta næst