Endahnútar, KRASS og tvær ljóðabækur sem vilja komast út

Ægir Þór Jähnke er maðurinn sem stendur á bak við nýja bókaútgáfu, Endahnúta, sem hann hyggst koma á legg með hjálp í gegnum Karolinafund. Sjálfur hefur hann þegar gefið út tvö verk undir nafni útgáfunnar. Ægir Þór er líka ritstjóri menningaritsins Skandala, en fyrsta tölublaðið kemur út í lok mánaðarins – stútfullt af fersku efni. Eins og er stendur Ægir Þór fyrir Karolinafund söfnun til að freista þess að koma tveimur nýjum ljóðabókum út. „Bækurnar eru ólíkar að stíl og nálgun en eiga það sameiginlegt að vera ádeilur innblástnar anda paunksins. Paunkarar eiga vitaskuld ekki pening þannig að broddborgarar eru vinsamlegast beðnir að borga brúsann,“ segir á Karolinafund síðu verkefnisins.

Það er engum ofsögnum sagt að Ægi Þór sé umhugað um nýtt og ferskt ritefni og að koma á fót nýjum leiðum fyrir nýja höfunda að gefa út verk sín. Hlutverk útgáfunnar Endahnúta verður að koma á framfæri fyrstu verkum höfunda. „Endahnútar er hingað til bara mín einkaútgáfa og ég hef ekkert fjármagn eða baklandi til að gera nein kraftaverk,“ segir Ægir. „En mig langar gjarnan að bjóða fram aðstoð og reyna af veikum mætti að skapa farveg fyrir aðra höfunda. Áherslan er á fyrstu verk, í bland við efni sem er soldið krassandi og öðruvísi. Í því skyni hef ég í hyggju sérstaka ritröð, KRASS, sem vísar bæði í lýsingarorðið krassandi og sögnina að krassa (og auðvitað enskuna líka, to crash).“ Ritröðin yrði þá röð af örbókum í uppá 40-60 blaðsíður, gefin út í 50 stykkja upplagi, en sem færi í helstu bókabúðir og á bókasöfn. „Þetta er semsagt hugsað sem leið fyrir nýja höfunda að koma nafni sínu á prent í fyrsta sinn, svipað og Meðgönguljóð nema með afar ólíka fagurfræði. Textinn, nota bene, þarf alls ekki að vera ljóð, þannig er til dæmis fyrsta bók seríunnar „einskonar“ prósi.“ Ægir Þór er boðinn og búinn til að aðstoða við útgáfu bókanna. „Það sem ég býð er að vinna umbrot og hönnun, ásamt því að sjá um dreifingu, samninga, kynningu og viðburði henni tengda. Þar spilar Skandali stórt hlutverk. Hugmyndin er að þessi verkefni vinni saman, helst þannig að úr verði gagnkvæmt tengslanet sem einnig inniheldur aðra mögulega vettvangi. Utan þessa litlu bóka er ég einnig alveg tilbúinn að skoða lengri verk, eða bara lesa yfir handrit og gefa endurgjöf, allt bara eftir samkomulagi.“

Fyrstu bækurnar eru nær uppseldar

Tvö verk hafa komið út undir nafni útgáfunnar. Ljóðabókin Ódýrir endahnútar sem kom út fyrir síðustu jól og Þetta er ekki manifestó. Seinni bókin er fyrsta bókin í KRASS-seríunni „og einskonar óformleg stefnuyfirlýsing hugmyndafræðinnar sem býr að baki. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér hvernig ég hugsa mér þessa seríu geta fundið gripinn í Bókabúð Máls & menningar og Bóksölu stúdenta“. Bókin er því miður ekki fáanleg í bókabúðum Eymundsson og upplagið nær uppselt.

Bækur sem vilja komast í heiminn

Nú þegar liggja tvær bækur á vinnuborðinu hjá Endahnútum og bíða eftir því að fá að komast út. Bækurnar eru ljóðabækur úr smiðju Ægis Þórs sjálfs. Ætlunin er að bækurnar verði að fjórleik. Fyrri bókina, Hrópandi ósamræmi, áætlar Ægir að gefa út síðsumars í ár og seinni bókina, Bullið, í október eða nóvember. Seinni bækurnar í fjórleiknum, Ljóð að yfirlögðu ráði og Drabb, myndu ekki koma út fyrr en á nýju ári. Í lýsingu á verkunum á Karolinafund síðu verkefnisins eru bækurnar sagðar vera ádeilur í anda pönksins. „Efnið er unnið uppúr pælingum síðustu ára. Það eru mörg tengd þemu sem tvinnast saman í ólíkum hlutföllum milli bóka, en þau helstu mætti ef til vill flokka (sem ég er reyndar mótfallinn) sem samfélagsádeilu, umhverfismál og almennar (og sértækar) tilvistarpælingar. Heimspekin er hvergi langt undan, en heldur ekki háðið, eða súrrealisminn. Ég hef verið sakaður um bölsýni, en ég lofa að það er allt (að hluta til) í djóki. Fyrsta bókin, allavega, er kannski sú pólitískasta, en Bullið er persónulegri (og ansi gróf á köflum). Heilt yfir er þessi fjórleikur nokkurskonar rökfærsla (eða réttlæting). Fyrir hverju veit ég samt ekki alveg…“

Ægir ætlar að fjármagna bókaútgáfuna með Karolinafund fyrst um sinn. Hann hefur nýlega lokið við að fjármagna fyrsta tölublað Skandala í gegnum Karolinafund. Fresturinn til að styrkja ljóðabókaútgáfuna stendur til 6. júní svo unnendum ritverka Ægis gefst enn tími til að styrkja verkefnið og tryggja sér eintak af bókunum á sama tíma. „Þeir sem eru að fara að kaupa bækur eftir mig hvort eð er ættu auðvitað að gera það fyrirfram,“ segir Ægir kíminn. Áhugasömum er bent á vefsíðu útgáfunnar á Karolinafund.

 

Sýnishorn úr verkum

(úr Hrópandi ósamræmi)

Slabb

40 dagar og 40 nætur
árabátar frá BSÍ á hálftíma fresti
þú tekur kanó niður Njarðargötu út á flugvöll
þaðan gufuskip upp í Öskjuhlíð.

Það styttir upp tímabundið í júlí
en spáð er næturfrostum frá og með ágúst
áætlað er að kaupa ísbora til að hraða byggingu
borgarlínu.

HIN PÓST-MANNLEGA TRÚARJÁTNING (brot)

Við trúum á almætti hins óhlutbundna,
tæknilega, smættanlega, handangóðsogills
alltumlykjandi lyktarlausa stílhreina notendavæna
glansandi markaðsráðandi sjálfskapandi persónulausa
og fullkomlega skipulagðaglundroða.

Verði enginn vilji, verði enginn vilji
aldrei,aldrei, aldrei meir.

Mátturinn er dýrðin og heimurinn drottinn
í nafni kaffi, svita og súkkulaðis –
eitt aumingjans smáblóm með blæðandi sár
sem tilbiður aldrei neitt meir.

(úr Bullið)
HIN SKÁLDIN

Renni úr glasinu hraðar en
rennur úr beljunni.

Öll hin skáldin eru hætt að drekka
finna nautn í endurvinnslu verða
oggu kennd við Kendrick Lamar og
eiga of mikið af matarafgöngum
til að loka ískápnum.

Sjálfstæð ljóðabókaútgáfa
liggur niðri um allan heim
meðan skáldin sötra sín engiferskot
kaupa sér krabbameinssjúka smáhunda
og eignast börn sem hata þau.

LISTRÆN TÚLKUN LYFSEÐILS (brot)

Ákjósanlegar aukaverkanir eru t.d.:
velgja og/eða uppköst gagnvart stílhreinu
umhverfi, blóð í saur og þvagi, getuleysi,
þunglyndi, beinkrum, ljóðaskrif, hárlos;
barnagirnd og áhugi á veðri, eurovision,
stjörnuskoðun; áfengissýki, netfíkn, framtak
sleysi og sjálfseyðingarhvöt.

 

Lestu þetta næst

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...

Ráðgátugleraugun

Ráðgátugleraugun

Í Ljósaseríunni koma út bækur sem henta börnum á yngsta og miðstigi í grunnskóla. Bækurnar eru...