Umhverfis- og loftslagsbókmenntir eru sífellt að verða vinsælli og barnabækur fara ekki varhluta af þeirri þróun. Nýr heimur – Ævintýri Esju í borginni eftir Sverri Björnsson, myndskreytt af Jakobi Jóhannssyni, er ein af þeim bókum.

Sagan segir af Esju, fjallastelpu úr Bláfjalli. Fjallafólkið býr einangrað frá fólkinu í borginni, falið og fylgir algjörlega vegan lífstíl. Esja verður fyrir því óhappi að vera útskúfað frá þorpinu sínu og kynnist Mána borgarstrák. Foreldrar Mána eru sívinnandi uppvakningar sem hafa lengi unnið að því að opna vatnsrennibrautargarð. Þegar garðurinn er opnaður hverfur hins vegar allt vatnið úr Bláfjalli og börnin tvö þurfa að bjarga náttúrunni og fjallinu og sameina heimana tvo; fjallaþorpið og borgina.

Hugmyndin að bókinni er fín og vissulega er brýnt að ræða umhverfismál við börn. Ég kemst þó ekki hjá því að hugsa eftir lestur bókarinnar að betur hefði mátt spinna söguþráðinn. Sagan er mjög hröð og mér fannst eins og reynt hafi verið að setja allt of mikið inn í söguna. Á stuttri göngu Mána og Esju að heimili Esju er í fljótheitum reynt að sýna hve Esja er fávís um heim Mána. Því er þó ekki að neita að fávísi Esju getur vel verið til þess fallin að vekja hlátur ungra lesenda. Gefnar eru vísbendingar um hluti sem ekki endilega koma söguþræðinum beint við. Til dæmis hvert faðerni Esju er í raun og veru. Ég er ekki viss um að nokkurt barn geri sér grein fyrir þeim þræði, þess utan ætti það ekki að skipta neinu máli í stóra samhengi sögunnar. Sagan snýst um að börnin bjarga umhvefinu, ekki það að mamma Esju hafi einhvern tíman gamnað sér með mennskum skógarverði (en svo getur hún samt hneykslast á að Esja hafi farið úr fjallaþorpinu og komið heim með strák úr borginni?).

Bókin er í A4 broti. Myndir eru samt fáar og þekja þá heila síðu. Þess má þó geta að myndirnar eru fallegar, litríkar og hefðu mátt vera miklu fleiri. Að öðru leiti er bókin nær eingöngu texti. Mér finnst mjög fljótandi fyrir hvaða aldur bókin er skrifuð. Sagan er allt of lítið myndskreytt til að höfða til yngri lesanda sem vilja láta lesa fyrir sig sögurnar. Hins vegar þá er hætta á að eldri börn forðist að lesa þessa bók, þar sem hún er of lík smábarnabók í því broti sem hún er í núna. Miðað við texta bókarinnar þá gæti sagan hentað börnum á aldrinum 6-8 ára, en þá er allt of mikill texti á hverri blaðsíðu fyrir þau börn sem eru að byrja að lesa sjálf.

Það er kúnst að gefa út góða barnabók og mér finnst Nýr heimur ekki ná að uppfylla þau skilyrði. Hugmyndin á bak við bókina er góð, en það gerist of mikið á hverri blaðsíðu, atburðarásin er allt of hröð. Sagan hefði notið sín mikið betur í lengri bók í öðru broti, þar sem persónurnar hefðu verið kynntar betur fyrir lesendunum, eða hefði sagan verið hlutuð niður í fleiri bækur. Þannig hefði verið hægt að búa til spennandi framhaldssögur í smærra broti.

Lestu þetta næst

Drekar, dauði og erótík

Drekar, dauði og erótík

Hafi man eitthvað fylgst með bókaumræðum á samfélagsmiðlum á þessu ári þá er ansi líklegt að man...

Bækur inn um lúgu

Bækur inn um lúgu

Það er eitthvað fallegt við að fá póstsendingu inn um lúguna. Þá meina ég ekki auglýsingabæklinga...

Það er húmor í lauginni

Það er húmor í lauginni

Sund í Tjarnarbíó Klórlyktin gýs upp þegar maður gengur í salinn og ber augum glæsilega sundlaug...

Bumba er best

Bumba er best

Bekkurinn minn er sería barnabóka sem gerast í íslenskum veruleika eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur og...