Notalegur hversdagsflótti

Penni: Sæunn Gísladóttir

Ég var unglingur þegar ég uppgötvaði fyrst breska rithöfundinn Sophie Kinsella sem er hvað þekktust fyrir bókaflokk sinn Shopaholic um hina kaupóðu Rebeccu “Becky” Bloomwood. Ég byrjaði á að lesa fyrstu bókina The Secret Dreamworld of Shopaholic og sökkti mér fljótt ofan í allar hinar bækurnar um ævintýri Becky sem voru komnar út á þeim tíma. Svo komst ég mér til mikillar gleði að því að Kinsella hefði gefið út fleiri bækur um aðrar söguhetjur og ákvað að kynna mér þær allar líka en þá stóð hin stórskemmtilega The Undomestic Goddess upp úr.

Ég hef lítið lesið eftir Kinsella frá því að ég fór í háskóla en nýverið eftir lestur á pistli Önnu Margrétar um Sakbitna Sælu ákvað ég að leyfa mér að lesa eitthvað nýtt eftir rithöfund sem eftir allt saman hafði veitt mér mikla skemmtun sem lesanda; ég hafði oftar en ekki hlegið upphátt við lestur bóka hennar og mér fannst alltaf gaman að byrja á bók sem ég vissi að myndi enda vel.

 

allt fer úrskeiðis

I’ve Got Your Number varð fyrir valinu hjá mér. Bókin er frá árinu 2012 og því ekki sú nýjasta af nálinni frá höfundinum en hafði fengið ágæta dóma á Goodreads sem á endanum sannfærðu mig um að kaupa hana. Bókin segir frá Poppy Wyatt, ungri konu í London sem í byrjun bókarinnar er búin að týna trúlofunarhring sínum á vinkonuhittingi sem fer fram á hóteli til að fagna yfirvofandi brúðkaupi hennar. Um er að ræða erfðagrip úr fjölskyldu Magnusar, unnusta hennar, og er hún að fara að hitta fjölskyldu hans sama kvöld. Poppy er að farast úr áhyggjum yfir ástandinu og þegar hún í örvæntingu sinni fer út til að nota símann sinn er honum skyndilega stolið líka. Þegar Poppy heldur að allt sé farið á versta veg kemur hún auga á síma í ruslatunnu í anddyri hótelsins. Hún ákveður að þarna sé alheimurinn að gefa henni nýjan síma og lætur hún strax vita af nýja númerinu til að fá fréttir ef hringurinn finnst. Allt virðist vera að fara á réttan veg þangað til að eigandi símans, Sam Roxton, hefur samband og vill fá hann til baka. Honum líst ekkert á að Poppy hafi aðgang að hans persónulegu skilaboðum, Poppy þrætir hins vegar við hann og segist þurfa á númerinu að halda meðan hringurinn hennar er ekki fundinn. Úr verða áhugaverð og fyndin samskipti milli Poppy og Sam á meðan líf þeirra beggja tekur óvæntar, dramatískar stefnur.

 

hæfilega fyrirsjáanlegt

Sophie Kinsella var innreið mín í “chick lit” bókmenntir eða “skvísubókmenntir” sem stundum hefur verið gert lítið úr í bókmenntaumræðunni. Þetta eru oftast bækur skrifaðar af konum um líf kvenna og eiga bækurnar það sameiginlegt að vera á léttari nótum og með ástarlíf kvenna í brennidepli. Ég vil þó meina að þetta geti verið stórfínar bækur sem eru eiginlega alltaf stórskemmtilegar. Bækur Kinsella hafa með árunum orðið ansi formúlukenndar: þær eru oftast með kvensöguhetju sem kemur sér í ýmis vandræði og óþægilegar og vandræðalegar senur eru algengar. I’ve Got Your Number er engin undantekning þar, en ég hafði þó mjög gaman af því að lesa svona sögu eftir margra ára hvíld frá höfundinum. Bókin var fínasta ástarsaga sem var hæfilega fyrirsjáanleg en þó með ýmsum skemmtilegum óvæntum uppákomum. Hún byrjaði strax á mikilli spennu og hægði eiginlega aldrei á henni í bókinni, ef eitthvað er fór atburðarrásin á flug um miðja bókina og ég átti erfitt með að leggja hana frá mér til að fara að sofa. Bókin var skrifuð út frá sjónarhorni Poppy og höfundurinn nýtti sér það til að leyfa lesandanum að trúa hennar túlkun á aðstæðum en sýnir svo síðar meir að ekki er allt sem sýnist.

Mér þótti gaman að heimsækja aftur draumaveröld Sophie Kinsella og leyfa mér að njóta þessarar sakbitnu sælu, stíll höfundarins hefur lítið breyst frá því að ég las hana síðast og ef eitthvað er hafði ég meira gaman af því að lesa bók eftir hana sem gerist í London eftir að hafa flust þangað sjálf. Fyrir þá sem hafa ekki lesið Sophie Kinsella áður mæli ég ennþá með því að þeir geri það og byrji á ævintýrum Becky Bloomwood (átta bækur og ein kvikmynd, en það þarf ekki að háma allt í sig í einu). Fyrir þá lengra komnu sem þekkja Kinsella eitthvað mæli ég með I’ve Got Your Number fyrir þá sem vilja aðeins gleyma raunveruleikanum og stíga inn í rósbleika veröld Kinsella þar sem húmor er í brennidepli og allt endar vel!

 

 

Lestu meira

Í ástarsorg í Víetnam

Í ástarsorg í Víetnam

Það má með sanni segja að heimurinn hafi minnkað töluvert í pestarástandinu sem ríkir í heiminum. Ferðalög á milli landa liggja niðri að mestu og sjálf hef ég ekki ferðast út fyrir Íslandsstrendur síðan 2019, eins og eflaust flestir landsmenn. Það því dýrmætt að geta...