Hér má sjá Davíð í vinafans.

Þau sem eru almennt séð ekkert rosalega utan við sig hafa örugglega orðið vör við umræðu um lestraráhuga ungmenna á þessari snjalltækjaöld. Ég tileinka þessari færslu einmitt lestraráhuga ungmenna. Ungmenna í byrjun 20. aldar. Já þú last rétt.

Þannig er mál með vexti að ég fór í heimsókn til mömmu og pabba. Þegar ég er þar þá vel ég mér iðulega eina góða bók til að taka með heim og lesa. Í þetta skipti valdi ég mér Davíð Copperfield eftir Kalla Dickens einnig nefndur Charles Dickens, stundum líka Karl eða Hr. Langloka. Fer eftir því í hvaða stuði maður er. Bókin var gefin út 1933 af Æskunni.

Ekki verður fjallað djúpt um innihald sögunnar hér þar sem ég er enn við það að klára hana heldur verður hugað að uppbyggingu þeirra útgáfu sem ég er að lesa í tengslum við blessaðan lestraráhuga ungmenna. Ekki hætta að lesa- þetta verður eitthvað!

Jesús kristur, María, Jósep, Kameldýrið, allir postularnir og svo framvegis…

Charles Dickens fjallar í Davíð Copperfield um ævi drengsins en á hans daga drífur allt það sem getur mögulega misfarist og haft ægilegar afleiðingar. Þetta er raunsæ saga sem margir hverjir telja byggja á ævi Charles Dickens sjálfs. Davíð upplifir flest það sem barnaverndarnefnd myndi telja vera andstætt heilbrigðu líferni barna. Ekki er þó alltaf dimma og drungi yfir vötnum og í sögunni má einnig finna marga ljósa punkta.

Þetta er ekki fyrsta verkið eftir Dickens sem ég les. Ég hef áður skrifað um Sögu tveggja borga. Þar kom meðal annars fram að bækur C.D. eru mjög langdregnar en stórkostlegar samt sem áður. Maðurinn sleppir engu smáatriði út. Hann lýsir öllu; hnappagötum, gatnamótum, nefhárum, orðaskiptum og kjólamunstrum. Þetta gerir það að verkum að bækur hans eru langar. Mjög langar. Slaga auðveldlega upp í 700 blaðsíðurnar. Þess vegna kom það mér svo mjög á óvart hve hröð og stutt Davíð Copperfield er miðað við aðrar bækur hans. Þetta er nánast eins og að lesa Íslendingasögurnar þar sem eitthvað gerist og svo líða allt í einu tvær vikur í einni setningu og einhver hefur gift sig aftur, hoggið mann eða annan og svo framvegis.

…Og þarna kom ástæðan

Eftir að hafa lesið hálfa bók og velt þessu fyrir mér ákvað ég að glugga aðeins í formálann sem þýðandinn skrifaði. Þar er einmitt talað um að C.D. hafi verið mikið fyrir langlokur og lýsingar og þess vegna hafi verið ákveðið að stytta útgáfu þessa bókar. Þannig er hún mun styttri en upphaflega útgáfan og nákvæmum lýsingum sleppt út. Þetta staðfesti grun minn því ég hafði velt því fyrir mér hvað þessi útgáfa var á skjön við aðrar bækur Dickens, þó svo að sagan væri í hans anda; bara dálítið hraðari.

Og hérna kemur bomban! Í lok inngangsins kom fram að ástæðan fyrir því að hún hefði verið stytt væri til að hvetja ungmenni til að lesa. ÁRIÐ 1933! Já gott fólk! Við sem héldum að ungt fólk fyrri alda hefði alltaf verið með nefið ofan í næstu bók, væru dús við mann og annan og þéruðu ömmur og afa á milli þess sem þau töluðu dönsku á sunnudögum. Sannleikurinn er hins vegar allt annar!! Ungir Íslendingar á þessum tíma voru líka of miklar gelgjur til að lesa! Og ekki höfðu þau snjalltæki til að trufla sig. Þau hafa bara verið of upptekin við að ala upp systkini númer 10 til 14, leika sér í hlaupa í skarðið og prjóna. Þannig að, kannski er þetta bara lausnin? Stytta bara kanónurnar þannig að ungmennin nenni að lesa þær; hver er ekki til í að lesa 150 blaðsíðna Sjálfstætt fólk eða 50 blaðsíðna Snöru? Ég bara spyr!

En já, læt vera að gefa stjörnur í þetta sinn enda ekki búin með Dabba minn. Hef samt á tilfinningunni að þetta eigi eftir að blessast hjá honum að lokum.

 

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...