Skáld.is – vefur tileinkaður skáldkonum

Ritstjórn skáld.is

„Í allri bókmenntasögu Íslendinga er körlum hampað og konur varla nefndar á nafn,” segir Jóna Guðbjörg Torfadóttir, einn ritstjóra vefjarins skald.is (Skáld.is). Skáld.is fór fyrst í loftið 9. september 2017, og nálgast því annað árið óðfluga. Hugmyndin á bak við síðuna er að skapa gagnagrunn um allar skáldkonur landsins frá upphafi til vorra daga. Hlutverk vefjarins hefur þó breyst mikið síðan hann fór í loftið, þótt aðaláherslan sé enn á gagnagrunninum. Skáldatalið telur nú þegar hátt í 300 skáldkonur en á Skáld.is er líka hægt að nálgast fréttir, greinar, ritdóma og viðtöl – allt með skáldkonur í brennidepli. Upphafskonur að vefnum eru Ásgerður Ágústa Jóhannsdóttir og Jóna Guðbjörg Torfadóttir. Fljótlega bættust þó fleiri fingur við á lyklaborði vefjarins og nú hafa bæst við Júlía Margrét Sveinsdóttir, Sigríður Albertsdóttir, Soffía Auður Birgisdóttir og Steinunn Inga Óttarsdóttir.

Skáldkonur fyrri tíma nær ósýnilegar

Jóna segir að fyrst og fremst vilji þær sem standa að vefnum gera skáldkonum hærra undir höfði: „Býsna margar eru löngu gleymdar, sumar hafa fengið afar ósanngjarna útreið og aðrar hafa aldrei fengið nokkra einustu athygli. Þegar upp er staðið á að vera hægt að nálgast upplýsingar um ævi og störf allra íslenskra skáldkvenna ásamt helstu skrifum fræðikvenna um kvennabókmenntir á vefnum.“

Staðreyndin sé sú að meginþorri eldri skáldkvenna sé með öllu óþekktur og lítil sem engin umfjöllun til um þær og verk þeirra. „Það hefur blessunarlega margt breyst síðustu áratugi,“ segir Jóna þegar hún er innt eftir því hvort enn halli mikið á skáldkonur. „Skáldkonur hafa fengið mun meira rými á ritvellinum og sanngjarnari umfjöllun og athygli.“ En þótt það sé að rétta úr kútnum þegar kemur að umfjöllun um bækur skáldkvenna sé þó ekki tilefni til að slaka á. „Kvennabaráttan hefur sýnt að það borgar sig ekki að sofna á verðinum.“

„Skáld“ er heppilegt fyrir bæði kyn

Orðið „skáld“ hefur í gegnum tíðina frekar verið notað yfir karlmenn sem skrifa fremur en konur sem skrifa og það fylgir því viss yfirlýsing að nota orðið yfir síðu sem eingöngu er tileinkuð skáldkonum. „Það kom okkur mjög á óvart að þetta lén væri yfirleitt laust,“ segir Jóna. „Okkur fannst fara sérstaklega vel á þessu heiti einmitt af þeirri ástæðu að oftar vísar það til karlskálda. Konur geta þó einnig verið skáld og með þessu móti er það áréttað svo að eftir sé tekið. Skáld er hvorugkynsorð og því heppilegt fyrir bæði kyn. Í þessum karllæga málheimi höfum við þó kosið að nota, oftar en ekki, heitið skáldkona, fremur en kvenskáld, þar sem það kvengerir orðið.“

Skáldkonur vilja komast í skáldatalið

Nú þegar eru um 300 skáldkonur skráðar í gagnagrunn skáld.is.

það er mikil vinna við rekstur síðu á borð við Skáld.is.Vinnan á bak við síðuna er öll í sjálfboðavinnu og öll útgjöld greidd úr vasa ritnefndarkvenna. „Við erum þó farnar að líta í kringum okkur eftir styrkjum, til að fjármagna meðal annars öflugri gagnagrunn sem nýtist notandanum betur við leit og þess háttar.“ Á síðunni er hægt að nálgast mjög fjölbreytt efni í dag. „Það má segja að það sé eitthvað fyrir alla,“ segir Jóna. „Efnið er bæði fagurfræði og fróðleikur. Unnendur skáldskapar eru trúlega stærsti markhópurinn, og þeir eru ekki fáir, en einnig hafa menntastofnanir nýtt sér efnið.“

Upphaflegur tilgangur vefjarins var að koma upp viðamiklu skáldatali yfir skáldkonur. Eftir því sem vefurinn verður þekktari hefur stöku skáldkona óskað eftir að komast í skáldatalið – en allt of fáar. Jóna segir að líklega sé hin „kvenlega“ hógværð að þvælast fyrir skáldkonum. „Það er vert að nota tækifærið til að hvetja allar þær konur sem hafa ekki enn  ratað í skáldatalið okkar að senda okkur upplýsingar um sig.“ Eina skilyrðið sé að þær hafi gefið út eitt verk. Jóna segir að þær hafi verið talsvert að eltast við upplýsingar hjá skáldkonunum „en okkur hefur ævinlega verið tekið vel.“ Þegar leitað sé að upplýsingum um látnar skáldkonur styðjast þær einkum við minningargreinar.

Þegar konur koma saman og skapa eitthvað myndast oft góður félagsskapur. Konurnar á bak við skáld.is glíma þó við þá erfiðleika að þær búa í þremur landshlutum og geta því ekki hist eins oft og þær myndu vilja. „Það stendur þó til að verja saman einni góðri vinnuhelgi í sumar í sveitasælunni.“

Loks er vert að benda á að skáld.is er að finna bæði á Facebook og Twitter og er fólk hvatt til að fylgjast með. Lestrarklefinn hvetur einnig skáldkonur, sem ekki eru skráðar í skáldatalið, til að hafa samband við skáld.is.

Lestu þetta næst

Lygar eða skemmtisögur?

Lygar eða skemmtisögur?

Í seríunni um Bekkinn minn eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur er íslenskur raunveruleiki eins og hann...

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...