Greta Thunberg hefur nær einsömul náð að hrinda af stað alheimshreyfingu til verndar loftslaginu. Hún er þekkt fyrir að segja hlutina blákalt og eins og þeir eru: Það þurfa gríðarlega miklar breytingar að eiga sér stað í öllum heiminum og ríkjandi stjórnkerfi eigum við að koma í veg fyrir stórfelldar hörmungar í loftslagsmálum. Það er ekki þægilegt að hlusta á hana tala. Hún skefur ekkert af hlutunum og maður fyllist örlítilli skelfingu og ótta yfir framtíðinni. Hún er barnið sem hrópar á keisarann að hann sé ekki í neinum fötum. Og boðskapurinn hennar er óþægilegur, hann hristir upp í manni.
Það er ólíklegt að þeir sem vilji ekki heyra boðskap Gretu eða trúi ekki vísindunum velji að lesa þessa bók. Við það fólk vil ég segja, ekki láta þessa bók framhjá þér fara. Sjálfri fannst mér ekki auðvelt að hefja lesturinn, einfaldlega af því ég er svo uppfull af loftslagskvíða og óttaðist að hann yrði bara enn verri. Bókin Húsið okkar brennur er skrifuð af Gretu Thunberg og fjölskyldu hennar (móður hennar Malenu Ernman, föður hennar Svante Thunberg og systur hennar Beatu Ernman). Bókin er í senn fjölskyldusaga, upprunasaga Gretu (svolítið eins og hún sé ofurhetja) og loftslagsrit. Þegar ég tók bókina upp bjóst ég við að fara að lesa fjölmargar þrumuræður Gretu, en röddin sem mætti mér af blaðsíum bókarinnar var ekki Gretu heldur Malenu Ernman. Og það er röddin sem er gegnum gangandi í gegnum bókina. Inn á milli fær Greta orðið og fjallar þá um loftslagsmálin á sinn beinskeitta hátt.
Fjölskyldusaga Gretu er ekki auðveld. Þær systur glímdu báðar við mikla geðræna kvilla, einelti, einmanaleika og eru báðar á einhverfurófinu. Malena segir sögu sína, Svante og dætra þeirra og hvernig hægt og rólega augu þeirra opnuðust fyrir vandamálum heimsins. Hvernig þau hjónin gerðu sér grein fyrir því að hávaðinn, hraðinn og áreitið í daglegu nútímalífi væri að éta þau lifandi og dætur þeirra líka. Greta er með Asperger, sem er væg einhverfa. Hún glímdi lengi við átröskun, og fann í raun ekki bót á þeim vanda fyrr en hún hóf Skólaverkfallið í ágúst 2018. Systir hennar er með ADHD og mótþróaþrjóskuröskun.
Í bókinni eru tekin fyrir fjölmörg einkenni á því sem höfundar bókarinnar kalla sjúkdóma heimsins. Það er hækkandi hiti í loftslaginu, þörfin eftir auknum hagnaði á kostnað alls, skort á samhyggð meðal mannfólks, gríðarlegar kröfur úr öllum áttum, kvíði barna, þunglyndi og svo mætti lengi telja. Þau ná að tengja þessa hluti saman og sýna samhengið í svo skýru ljósi að það er erfitt að líta til baka og ætla að afneita því að allt tengist þetta.
Húsið okkar brennur er mjög vel þýdd af Eyrúnu Eddu Hjörleifsdóttur úr sænsku. Bókin hefur þegar komið út á fjölda tungumála. Í þýðingum er titill bókarinnar jafnan þýddur sem Húsið okkar brennur sem er tilvitnun í eina af ræðum Gretu. Á frummálinu heitir bókin þó Scenar ur hjärtat og andlit Malenu Ernman prýðir forsíðuna og Malena og Svante eru titluð sem höfundar. Ræður Gretu voru gefnar út í safnriti frá Penguin útgáfunni í maí. Mér virðist sem þessum tveimur bókum sé á einhvern hátt blandað saman í erlendum þýðingum og þannig sé hægt að skipta Malenu út fyrir Gretu á kápu bókarinnar og hafa titilinn meira grípandi.
Það skal þó enginn draga í efa að bókin er áhrifarík og mjög þörf. Hún er dáleiðandi lesning. Malena hefur einlægan stíl og nær vel til lesandans. Áskoranir hennar og Svante sem foreldrar eru ótrúlega miklir og sænskt menntakerfi virðist ekki hafa staðið þétt við bakið á þeim. Kaflar eru mjög stuttir í bókinni svo það er auðvelt að grípa niður í einn og einn. Það er að sama skapi mjög erfitt að hætta að lesa, því um leið og lesandinn er búinn með einn kafla er svo auðvelt að ætla sér að lesa “bara einn í viðbót”.