Ljósa: sterk og stórkostleg

Mikið Guðs lifandi er ég fegin að hafa fæðst með mínar geðveilur í lok 20. aldar en ekki á 19. öld. Ég hef sjaldan upplifað það jafn sterkt eins og þegar ég las Ljósu eftir Kristínu Steins.

Fuglinn sem aldrei flaug

Ljósa segir frá lífi konu sem elst upp í sveit seint á 19. öld, undir jökli með náttúruna og hennar orku við húsgaflinn. Hún er barn náttúrunnar og tilfinningarík með eindæmum; þráir hamingju og ljúft og leikandi líf og svo virðist sem, í hinum fullkomna heimi, að það ætti að geta gengið enda er hún dóttir mikilsmetis fólks í sveitinni. Raunveruleikinn er hins vegar annar því Fröken Ljósa átti eftir að glíma (já ég segi glíma því líf með geðsjúkdóm getur oft verið glíma) við andlega erfiðleika sem hún kallar fuglinn sinn; fugl sem sest yfir brjóst hennar og þrengir að henni og gerir henni erfitt fyrir að lifa lífinu. Fuglinn flýgur aldrei á brott og sagan lýsir baráttu Ljósu við að halda sönsum í heimi þar sem geðsjúkdómar voru litnir hornauga og ómannúðlegar aðferðir voru notaðar til að halda fólkinu í skefjum.

Í sjálfu sér er þetta saga af sterkri konu sem barðist á móti vindinum; í raun gæti þetta allt eins verið ævisaga því við vitum að þetta er sannur raunveruleiki; raunveruleiki þeirra sem falla ekki inn í formið. Sagan er örlagasaga sem er afbragðs vel skrifuð enda Kristín Steins alls enginn nýgræðingur og hefur mikilfenglegt vald á pennanum. Ég mæli með þessari sögu fyrir þá sem vilja lesa afar raunsæja sögu úr íslenskum veruleika þar sem sterk kona berst á móti venjum og vindum.

Lestu þetta næst

Nútíma Agatha Christie

Nútíma Agatha Christie

Gestalistinn eftir breska spennusagnahöfundinn Lucy Foley kom út í íslenskri þýðingu í apríl 2022....

Hvorki fugl né fiskur

Hvorki fugl né fiskur

Á dögunum las ég bókina American Wife eftir Curtis Sittenfeld sem vakti mikla athygli við útgáfu...