“Góðar ungmennabækur eru lesnar af fólki á öllum aldri”

Brynhildur Þórarinsdóttir er höfundur nýútkomnu bókarinnar Ungfrú fótbolti en hún hefur áður skrifað fyrir unglinga sem og börn. Brynhildur fékk til dæmis Íslensku barnabókaverðlaunin árið 2004 fyrir bók sína Leyndardómur ljónsins og Norrænu barnabókaverðlaunin fyrir endursagnir sínar á Íslendingasögunum. Meðfram ritstörfum er Brynhildur dósent við Háskólann á Akureyri.

Ungfrú fótbolti segir frá baráttu þeirra Gerðar og Ninnu en þær eru á þrettánda ári og lifa fyrir fótbolta og allt tengt honum. Sagan gerist 1980 þar sem fótbolti var einkaáhugamál strákanna og stelpur fengu lítið sem ekkert tækifæri til að stunda íþróttina af neinni alvöru. En þær Gerða og Ninna eru ákveðnar í að breyta því og með glæsilegu konuna í sjónvarpinu sem fyrirmynd, hana Vigdísi Finnbogadóttur sem stefnir ótrauð á Bessastaði, ætla þær vinkonur að koma kvennafótboltanum á kortið.

Við slógum á þráðinn til Brynhildar þar sem hún var stödd á ráðstefnu en gaf sér samt tíma til að spjalla örstutt um tilurð bókarinnar, persónur hennar og tilgang.

Hverjar eru fyrirmyndirnar að sögupersónum bókarinnar?

„Bókin er ekki um mig, best að taka það fram strax, en ég byggi á minni reynslu og vinkvenna minna. Ég stóð sjálf í þessu streði sem krakki, hamaðist í götubolta daginn út og inn og langaði að æfa með alvöru liði. Engir yngri flokkar voru til fyrir stelpur og ég álpaðist í meistaraflokk, alltof lítil og ung. Við sem vildum æfa og keppa mættum allskonar fordómum en fyrst og fremst áhugaleysi. Sagan gerist svolítið fyrr en ég var í boltanum, því ég vildi hafa baráttu Vigdísar Finnbogadóttur í bakgrunni. Árið 1980 varð því fyrir valinu. Vigdís sjálf kemur við sögu og ýmsar fleiri þekktar persónur – en kvenfyrirmyndir fyrir fótboltastelpur voru engar. Ég leik mér svolítið að því að nefna þekkta fótboltamenn til sögunnar, einmitt til að varpa ljósi á fjarveru kvenna. Það er því sögulegur þráður í þessari bók þó að ekki sé hægt að ganga svo langt að kalla hana sögulega skáldsögu. Fyrirmyndirnar eru því fótboltastelpur á 9. áratugnum – eða reyndar allir vinir mínir í hinu stórfenglega Fótboltafélagi flinkra krakka – en fyrirmyndin í bókinni er náttúrlega Vigdís, vegna framboðs hennar átta söguhetjurnar sig á að það að eitthvað hafi alltaf verið svona eru verstu rök í heimi.“

Fyrir hvaða markhóp er bókin skrifuð?

„Hún er ekki skrifuð fyrir markhóp heldur lesendur, ef svo má segja. Ég setti markaðsdeild Forlagsins svolítið í uppnám með því að neita að aldursmerkja bókina. Sjónarhornið er unglingsins og því er nærtækast að kalla hana ungmennabók. Ég er sátt við þann stimpil, góðar ungmennabækur eru lesnar af fólki á öllum aldri. Ég veit að lesendur eru alveg frá 10 ára og upp í eldri borgara, sumir lesa hana sem unglingasögu, aðrir sem nostalgíska baráttusögu; vilja rifja upp þessa tíma þegar kvennaboltinn þótti ómark og Vigdís Finnbogadóttir skoraði hefðirnar á hólm. Ég hef heyrt í mörgum fyrrum fótboltastelpum sem finna til samkenndar með söguhetjunum. Ein kona heyrði af bókinni og spurði: „Hvernig geturðu skrifað fótboltasögu sem gerist í Breiðholtinu á þessum tíma, við stelpurnar þar gátum ekki æft fótbolta?“ Einmitt þess vegna skrifaði ég hana. Þetta er bók fyrir þessa konu og börnin hennar, syni jafnt sem dætur.“

Kvenréttindabaráttan er í burðarliðnum í sögunni, telurðu að stelpur í dag tengi við þá sögulegu atburði sem gerast í bókinni?

„Ég er ekki viss um að ungt fólk átti sig almennt á því hvernig íslenskt samfélag var á þessum tíma, hversu mikil þörf var á að hrista upp í samfélaginu, og hversu stórt skref var stigið 1980. Tíðarandinn var allt annar en unglingar alast upp við í dag, skorður og rammar um allt. Besta leiðin til að fá ungt fólk til að átta sig á fyrri tímum er að lokka það til að lifa sig inn í þá. Ég vona að lesendur nái að upplifa pirringinn yfir ástandinu með aðalpersónunni, og takist með henni á við sigra og ósigra innan vallar sem utan. Ég held að stelpur í dag hafi sjálfar upplifað sumt sem kemur við sögu en sem betur fer hefur margt breyst. Stelpur geta núna æft fótbolta eins og þeim sýnist, en þeim finnst ennþá að strákar fái meiri athygli, og það er alveg rétt hjá þeim, það er t.d. meira sagt frá drengjamótum en stúlknamótum á sumrin. Ég þekki það sem foreldri, eigandi bæði stelpu og strák í fótbolta. Og hvað Vigdísi Finnbogadóttur varðar – hún er enn fyrirmynd, það er t.d. nýbúið að gera hana að heiðursdoktor við Háskólann á Akureyri þar sem ég er að kenna. Það var mjög hátíðleg stund. Mín kynslóð varð fullorðin í forsetatíð Vigdísar og skilur hversu merkilegt var að hafa konu á forsetastóli; að eiga fyrsta lýðræðislega kjörna kvenforsetann í heiminum. Mér finnst mikilvægt að yngra fólki þekki  til Vigdísar, að það átti sig á því hvernig samfélagið var og hvernig það hefur breyst. Ég verð líka að nefna að það eru ekki bara stelpurnar í bókinni sem þurfa að glíma við óskráðar reglur samfélagsins um tækifæri og áhugasvið. Vinur söguhetjanna þarf t.d. að brjótast út úr ramma sem segir að strákar geti ekki hugsað um börn.“

Verður framhald á ævintýrum þeirra Gerðu og félaga?

„Það er aldrei að vita, þessi bók hefur í það minnsta fengið góðar viðtökur. Það tók mig reyndar sjö ár að koma henni út … Ég segi því bara, sjáum hvað setur.“

Við grípum niður í 15. kafla bókarinnar þar sem Gerða og Ninna mæta á æfingu hjá strákunum til að sýna hvað í þeim býr.

15. kafli

 

Daginn eftir mættum við Ninna galvaskar á fótboltaæfingu hjá 4. flokki ÍR. Ninna var með gulu hanskana og boltann góða. Ég var með gráu tuðruna mína. Við bjuggumst auðvitað ekki við að þurfa að nota okkar eigin bolta á æfingu en þótti þægilegra að hafa eitthvað meðferðis sem sýndi að okkur væri alvara. Að við kynnum eitthvað fyrir okkur í þessari göfugu íþrótt.

Strákarnir voru að tínast inn á völlinn og við blönduðum okkur laumulega í hópinn; skokkuðum um og röktum boltann á undan okkur. Við þekktum nokkra í hópnum, þrír voru meira að segja með okkur í bekk þótt þeir létu sem þeir þekktu okkur ekki. Ég skimaði eftir Halla og brosti til hans en hann nikkaði svo létt á móti að það var varla sýnilegt.

Við vorum ekkert síður leiknar með boltann en strákarnir og skárum okkur ekkert úr hópnum, það voru meira að segja margir á strigaskóm eins og við. Sumir strákarnir voru síðhærðir eins Ninna og Mario Kempes, en enginn þeirra var samt með fastar fléttur eins og hún. Ég hafði aftur á móti bundið flókann á mér í stutt tagl sem stóð beint út í loftið.

Þjálfarinn mætti skömmu síðar og hóaði hópnum saman við annan vítateiginn. Við Ninna sögðum ekki orð en röltum með strákunum og tókum okkur stöðu fyrir framan markið eins og þeir. Þjálfarinn stóð á vítapunktinum og horfði til himins eins og til að kanna veðrið. Þetta var ungur maður, hressilegur með háa rödd sem barst auðveldlega um völlinn.

„Í dag byrjum við á skotæfingum,“ þrumaði hann og hvolfdi úr stórum boltapoka á mölina. „Fríspark utan við teig.“

Ég fann tilhlökkunina kitla mig í magann. Ég gat tekið flott bananaskot og ef mér tækist sérstaklega vel upp næði ég að senda boltann í samskeytin. Ég var í feiknastuði og hlakkaði til að sanna mig í hópnum.

Þjálfarinn stillti nokkrum boltum upp fyrir utan teiginn og skipaði einum strákanna í markið. „Skiptið ykkur niður á boltana og látið vaða!“

Við vorum feimnar og óframfærnar og lentum aftarlega í röðinni. Fyrstu skotin dundu á markinu. Markvörðurinn náði að slæma hendinni í einn bolta en hinir lágu inni. Þjálfarinn leit ánægður yfir hópinn. Ég brosti til hans þegar röðin var komin að mér, ætlaði svo sannarlega að sýna hvað í mér bjó. Ég ætlaði að hlaupa af stað þegar hann stakk flautunni upp í sig og blés hvellt. Hann horfði undrandi á mig. Svo tók hann eftir Ninnu sem stóð fyrir aftan mig í röðinni.

„Þetta er æfing hjá fjórða flokki karla,“ sagi hann reiðilega og mér fannst hann grilla okkur með augunum.

„En það er enginn stelpuflokkur hjá ykkur!“ kallaði Ninna djarflega.

„Það er ekki mitt mál,“ svaraði þjálfarinn. „Ég sé bara um strákana.“

Strákarnir þögðu fyrst allir en svo byrjaði einhverjir að púa. „Engar stelpur,“ hrópaði einn þeirra. Hláturinn benti til þess að margir væru honum sammála. Ég leitaði að Halla í hópnum en náði ekki augnsambandi við hann. Hann stóð bara steinþegjandi hinum megin í markteignum og starði ofan í jörðina.

Þjálfarinn gekk til okkar Ninnu og virtist rólegri. „Stelpur mínar, þið getið ekki verið hérna,“ sagði hann svolítið vandræðalegur. „Það eru engar stelpur hjá okkur.“

„Við getum það víst,“ mótmælti Ninna og krosslagði gular hendurnar. „Þið eruð ekki með stelpuflokk og þar með verðum við að mæta á æfingu með strákunum.“

Ég fylgdi henni fast eftir: „Við erum búnar að spila fótbolta í mörg ár og oft með strákum. Til dæmis Halla.“ Ég skimaði eftir Halla til að benda á hann en fann hann ekki í fljótu bragði.

„Vúúúú, Halli bara í steeeelpubolta,“ hrópaði einn af félögum hans og gerði röddina skræka.

„Fariði svo í Barbie á eftir?“ bætti annar við og hló stórkarlalega.

Þjálfarinn nálgaðist okkur og ég sá að hann bældi niður hláturinn. „Þetta snýst ekki um hvað þið getið, stelpur. Hvað ætlið þið að gera eftir leiki? Fara í sturtu með strákunum?“

Nú sprakk allur fjórði flokkur eins og hann lagði sig. Strákarnir hlógu og blístruðu og púuðu til skiptis. „Já, láttu þær sýna okkur brjóstin,“ kallaði markvörðurinn, drjúgur með sig. Mig langaði að rjúka í hann þótt hann væri höfðinu hærri en ég.

Loks kom ég auga á Halla aftast í hópnum. Það var eins og hann starði í gegnum mig og mér fannst þögn hans svo hávær að ég fékk verk í eyrun. Ég sendi honum baneitrað augnaráð.

Þjálfarinn glotti til markmannsins áður en hann sneri sér aftur að okkur stelpunum. „Farið heim að leika ykkur, stelpur mínar. Það er komið nóg af truflunum.“

Ég fann reiðina rífa upp blóðþrýstinginn en reyndi samt að halda röddinni rólegri þegar ég jós yfir hann: „Mikið rosalega ertu gamaldags. Það er komið árið 1980 – sættu þig við það. Kona er að verða forseti. Þú getur ekki bannað stelpum að spila fótbolta.“

Þjálfarinn skellihló. „Ég á nú eftir að sjá það gerast að kona verði forseti. Það hefur alltaf verið karl í þessu embætti.“

„Það er engin regla,“ tautaði ég og var orðin verulega sár.

Þjálfarinn var hins vegar orðinn pirraður. „Það er engin þörf á að breyta því sem er í lagi.“

„Þér finnst þetta kannski í lagi,“ mótmælti ég þrjóskulega og horfði yfir fótboltavöllinn þar sem strákarnir voru farnir að ókyrrast.

„Það eiga margir eftir að kjósa Vigdísi,“ bætti Ninna við, „hún verður næsti forseti.“

Þjálfarinn glotti. „Það eru engar líkur á því – en ef það gerist fáið þið stelpurnar að keppa við strákana mína.“

„Borðfast!“ kallaði ég ögrandi.

„Komdu, Gerða,“ hvíslaði Ninna og togaði í mig.

Ég leit ögrandi á þjálfarann. Svo tók ég stutt tilhlaup og dúndraði ÍR-boltanum út af vellinum, eins langt og ég gat í áttina að götunni. Ég vonaði að hann myndi springa í tætlur undir hjólunum á strætó. Ég sá samt ekki hvar hann lenti því Ninna togaði í jakkann minn og dró mig út af vellinum. Við tókum boltana okkar og strunsuðum burt. Við gættum þess vel að líta ekki til baka því við vorum báðar með tárin í augunum og það síðasta sem okkur langaði til var að strákarnir sæju okkur grenja

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...