Hrollvekja innblásin af gufupönki

Hilmar Örn Óskarsson sendir frá sér hryllingssöguna Húsið í september í ár. Hann hefur áður sent frá sér bækur fyrir lesendur á yngra stigi eins og sögunar um Kamillu Vindmyllu og Funa og Öldu Földu. Í Húsinu í september slær Hilmar Örn alveg nýjan tón á sínum höfundarferli með bók fyrir eldri lesendur, en sjálfur segir hann söguna henta best lesendum yfir þrettán ára aldri. Bókin talsvert hrollvekjandi, blóðug og sækir innblástur í gufupönk og hrollvekjur síðustu ára.

Hvaðan kom hugmyndin að Húsinu í september?

„Mér hefur alltaf fundist hvers konar fikt með tíma mjög spennandi í bókum og kvikmyndum og langaði að leika mér eitthvað með það. Ég bætti síðan við þessari einhentu unglingsstelpu, Áróru, og bjó til litla sögu um hvernig hún hafði misst handlegginn. Sú baksaga var reyndar dálítið hrottalegri í upphafi en ég tónaði hana eitthvað niður. Aðalsagan varð svo til á meðan ég föndraði tengsl á milli hússins og Áróru. Ég prófaði ýmislegt en er mjög sáttur við þá stefnu sem hún tók.“

Hvers konar lesendur sérðu fyrir þér að lesi bókina?

„Ég myndi segja að þessi bók sé fyrir alla, 13/14 ára og eldri, sem á annað borð hafa gaman af fantasíum, spennusögum eða hryllingsbókmenntum. Og líklega er ég þá búinn að innlima 99% fólks í markhópinn minn. Held samt grínlaust að mjög breiður hópur gæti haft gaman af henni.“

Bókin er nokkuð blóðug og mjög spennandi. Hvaða fyrirmyndir varstu með þegar þú skrifaðir hana?

„Ég sæki mikið í gufupönkið (e. steampunk) sem mér finnst ferlega flott tíska – ekki endilega bara varðandi fatnað heldur alla áferð og andrúmsloft. Ég prófa aðeins í bókinni að setja fram “rökréttar” forsendur fyrir sígildum minnum í gufupönkinu (eins og til dæmis glæsikvendið með logsuðugleraugun). Einnig studdist ég mikið við hrylling – bæði í kvikmyndum og bókmenntum. Ég hef verið sólginn í hrylling eins lengi og ég man eftir mér og þótt það sé ekki auðsótt lengur finnst mér það algjört æði þegar hann nær að hrella mig almennilega. The Haunting of Hill House þáttaröðin (frá Mike Flanagan og innblásin af samnefndri bók Shirley Jackson) er nærtækasta dæmið um þessar mundir – frábær hryllingur og nýstárlegur sem nær að framkalla fullt af köldum og óþægilegum tilfinningum.“

Áróra, aðalpersóna sögunnar, er með undarlega hendi. Geturðu lýst henni?

„Lengi vel er raunveruleg hönd Áróru falin undir málmhlíf sem pabbi hennar smíðaði. Málmurinn er bronslitaður og Áróru kallar þessa hönd “Kríubana” þar sem það gerðist einu sinni þegar hún var að labba í gegnum kríuvarp að ein krían reiddist heiftarlega. Krían flaug í átt að höfðinu á Áróru sem bar málmklæddu höndina fyrir sig og krían drapst við höggið. Það kemur svo ekki í ljós fyrr en töluvert síðar í bókinni hvernig höndin lítur út undir hlífinni, á þessum tíma sem við kynnumst Áróru.“

Hvað viltu að lesendur hugsi þegar þeir leggja frá sér bókina að lestri loknum?

„Ég er ekki meðvitað að miðla einhverjum stórum lífslexíum í þessari bók en hún ætti samt að geta vakið mann til umhugsunar um eitt og annað. Fyrst og fremst vil ég að lesendur séu sáttir við að hafa lagt tíma sinn í að lesa bókina. Mér þætti líka frábært ef hún náði að hræða og hrella. Enn fremur þætti mér gaman ef lesendur myndu hugsa með sér: „Þetta var eitthvað alveg nýtt!“ Það er allt of mikið um endurtekningar í bókmenntum, kvikmyndum og dægurmenning almennt. Það þarf ekki að búa til Spiderman á hverju ári.“

Hér fyrir neðan er hægt að lesa kafla úr bókinni. Balaksen, æðsti maður bæjarins Gálga, gerir samning við úrhrökin Rottu og Ref um að hafa uppi á morðingja.

19.

Balaksen svipaðist um eftir stað þar sem hann gæti sest niður. Hvert sem hann leit voru staflar af skinnum, vopn eða beinahrúgur. Maðurinn fyrir framan hann áttaði sig og stökk að rúmi. Þar lá kona, sneiddi niður epli og stakk jafnóðum upp í sig. Hann sló í fæturna á henni og hún hvæsti eins og köttur á meðan hún reisti sig upp. Hún settist með bakið upp við vegg, ofan á koddann, og dró hælana upp að rassinum. Maðurinn brosti og bauð Balaksen sæti. Balaksen hefði frekar kosið að standa fyrst rúmið var það eina sem stóð honum til boða en lét sig hafa það að setjast niður, eins langt frá konunni og hann komst. Hann nagaði efri og neðri vörina til skiptis. Loftið var þungt og þrungið beiskri lykt. Hann vildi ljúka þessu af sem fyrst. Maðurinn dró lítinn viðarkoll undan borði og fékk sér sæti fyrir framan Balaksen.

Maðurinn var ber að ofan, grannur og útlimalangur. Vöðvarnir á kviðnum voru eins og álar fastir í neti. Eins og þeir væru að reyna að ýta sér út í gegnum holdið. Hann var í brúnum buxum, skálmarnar náðu niður á miðja sköflunga. Hárið var úfið og búkurinn sveittur. Hann hafði verið kallaður Refur svo lengi að Balaksen mundi ekki raunverulegt nafn hans. Kannski hafði hann aldrei heitið neitt annað. Það sama átti við um systur hans sem sat á rúminu. Hún var kölluð Rotta og Balaksen vissi ekki hvort það var uppnefni eða skírnarnafn. Hún fór aldrei langt frá bróður sínum. Tennurnar voru hvassar. Þær minntu á misstóra pýramída því hún brýndi þær með lítilli þjöl. Hún var í sams konar buxum og Refur. Brjóstin huldi hún með drapplituðum renningi sem var vafinn nokkra hringi utan um hana. Það voru dökkgráir blettir í renningnum og sótblettir í andlitinu. Hárið var svo ljóst að það var nánast hvítt og augun svo ljósblá að þau runnu næstum því saman við hvítuna. Þau klæddust alltaf eins í öllum veðrum. Það var eins og frostið biti ekki á þau eins og annað fólk og vindurinn tæki á sig krók.

Balaksen velti fyrir sér hvenær þau hefðu síðast baðað sig eða þrifið heimilið. Tvö ár? Þrjú? Hann skráði í huganum að skipta um föt þegar hann væri búinn að ljúka erindi sínu hér og brenna þau sem hann var í núna. Það sem honum fannst óþægilegast var að hann sá bara eitt rúm. Rúmið sem hann sat sjálfur á. Hann gat ekki séð að það væri sofið annars staðar í húsinu. Rotta pírði á hann augun. Þegar hún hafði klárað eplið með kjarna og stöngli tók hún fram bein og hóf að tálga það með sama hnífnum. Honum fannst eins og augu hennar væru að skrúfa sig inn í huga hans. Hann var vanur því að fólk reyndi að lesa hugsanir hans en fældi það frá með köldu augnaráði. En núna var það hann sjálfur sem hörfaði. Hann gat ekki horft á hana lengur en tvær sekúndur í senn.

„Sonur minn var myrtur í nótt.“ Hann leyfði tíu sekúndum að líða. Þessi setning þurfti að anda og breiða úr sér. Hún var stór og níðþung. Samt ekki nógu þung til að færa honum valdið í samræðunum eins og hann hafði búist við. Hún hreyfði ekkert við systkinunum. „Og annar piltur líka,“ bætti hann við og fékk sömu viðbrögð, eins og þau væru að bíða eftir einhverju sem skipti raunverulegu máli. Refur klóraði sér hægt á bringunni og horfði á Balaksen með munninn hálfopinn. Rotta tálgaði taktfast áfram.

„Það voru sem sagt tveir piltar myrtir í nótt sem leið og ég vil að þið finnið morðingjann.“

Þau litu hvert á annað og svo aftur á Balaksen.

„Við erum veiðimenn,“ svaraði Refur. „Það er einhver annar sem fattar hver er morðingi.“

„Veiðimenn,“ samþykkti Rotta mjóróma. Röddin passaði ekki við útlitið.

„Við vitum nú þegar hver morðinginn er.“

„Klárt! Þá þarf bara að sækja hann,“ sagði Refur sigri hrósandi um leið og hann hallaði sér aftur og skellti saman lófunum svo fast að glumdi í herberginu. Rotta lagði hvasst beinið og tálgunarhnífinn í kjöltuna, lyfti öxlunum upp að eyrunum og kinkaði ört kolli. Refur brosti breitt og Balaksen tók eftir því að hann var með bil hægra megin í efri gómi þar sem áður höfðu verið tvær tennur.

„Hún komst undan.“

„Hún?“ spurði Refur og hallaði sér fram. Rotta færði sig til hans, stóð fyrir aftan hann og lagði hökuna á öxl hans þannig að hún leit út fyrir að vera hluti af honum. Eins og hann væri með tvö höfuð.

„Já, stúlkan. Hún komst undan.“

„Stúlkan?“ sagði Refur.

„Stúlkan?“ sagði Rotta.

Balaksen kinkaði kolli og velti því fyrir sér í fimmtugasta skipti hvort hann hefði gert stórkostleg mistök með því að koma hingað. Kannski voru þessi systkini ekki einu sinni með greind á við annað fullorðið fólk.

„Stelpa sem myrti tvo stóra stráka?“ spurði Refur.

„Tvo stóra stráka?“ át Rotta upp eftir bróður sínum.

„Þetta var ekki bara einhver stúlka. Þetta var dóttir hans Jakobs sem býr í húsinu fyrir utan bæinn.“

„Ertu að tala um …“ sagði Refur og benti á handlegginn á sér.

„Einmitt,“ svaraði Balaksen feginn. Refur var kannski ekki jafn fávís og hann hafði haldið.

„Hvernig veistu að það var hún?“

„Það var vitni.“

„Og hvert fór hún?“ spurði Refur. Hann setti olnbogana á hnén og spennti greipar líkt og í bæn. Síðan setti hann vísifingur beggja handa beint upp í loft og tyllti hökunni ofan á fingurgómana.

„Þess vegna er ég hér. Ég vil að þið finnið hana og ég vil að þið finnið hana fljótt. Áður en hún kemst of langt.“

„Af hverju við? Þú ert með fullt af fólki sem þú gætir sent.“

„Fullt af fólki,“ sagði Rotta.

„Ég þarf ekki fullt af fólki. Ég þarf bara einn eða tvo hæfa einstaklinga svo það sé hægt að ljúka þessu hratt. Og fólk segir að það sé enginn hæfari en þið í að elta … bráð.“

„Og hvað svo? Þegar við finnum hana?“ spurði Refur.

„Ég vil fá hana á lífi en ef ekki er hægt að verða við því vil ég fá einhverja sönnun um að hún sé dauð.“

„Eigum við að færa þér höfuðið af henni?“ spurði Refur brosandi á meðan hann klóraði í nefið á Rottu eins og það væri hans eigið.

„Handleggurinn nægir.“

„Og ef við gerum þetta,“ sagði Refur og ýtti Rottu af öxlinni á sér, „hvað fáum við í staðinn?“

„Segðu mér hvað þið viljið og ég skal sjá hvað ég get gert,“ svaraði Balaksen og beit saman jöxlum til að halda aftur af því sem hann vildi helst segja.

„Land.“

„Land?“

„Og ekki bara skítugan drullupoll,“ sagði Refur. „Það á að vera gróður og skjól. Eitthvað … huggulegt,“ bætti hann við og brosti þegar hann fann viðeigandi lýsingarorð.

„Eitthvað eins og það sem Jakob á hérna fyrir utan bæinn?“

Rotta tók andköf og lagði munninn upp að eyranu á bróður sínum. Á sama tíma lagði hún hönd á læri hans og kleip laust. Refur gretti sig og ýtti henni burt þegar hún brosti og rak tunguna inn í eyrað á honum til að setja punkt á eftir því sem hún hafði hvíslað.

„Ekki eins og það sem Jakob á,“ sagði Refur, „heldur nákvæmlega það sem hann á.“

„Og húsið líka,“ bætti Rotta við.

„Ómögulegt held ég,“ svaraði Balaksen. „Jakob býr þar enn.“

„Annars hreyfum við okkur ekki,“ sagði Refur og krosslagði handleggina. Rotta hermdi eftir honum.

„Ég læt mér detta eitthvað í hug,“ svaraði Balaksen feginn því hversu auðvelt þetta hafði verið. Það var einfalt mál að sannfæra bæjarbúa um að Jakob væri meðsekur. Jafnvel sekari þar sem hann hafði átt þátt í að skapa þetta viðundur sem dóttir hans var. Allir trúðu því nú þegar að það lægi bölvun á bæði húsinu og jörðinni. Enginn annar myndi sækjast eftir því að búa þar. Viðskiptunum var lokið hérna og Balaksen var ánægður. Hann hafði ekki þurft að greiða meira en klink.

Refur hrækti í lófann og rétti hann fram. Balaksen blés í sinn og tók í útrétta höndina þótt honum þætti það viðbjóðslegt. Það þurfti að innsigla alla samninga. Líka þegar samið var við úrhrök.

Lestu þetta næst

Geturðu elskað mig núna?

Geturðu elskað mig núna?

Þegar Hvítfeld, fyrsta skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur, var sett fyrir í bókmenntafræðiáfanga sem...

Ögrandi smásagnasafn

Ögrandi smásagnasafn

Bókmenntir Suður-Ameríku hafa alltaf heillað mig. Smásögur eru töluvert virðingaverðara...