„Eins og allar mínar bækur eru þessi saga fyrst og fremst um persónurnar og viðbrögð þeirra við aðstæðunum, segir Ármann Jakobsson sem gefur út tvær skáldsögur í jólabókaflóðið. Önnur er hans önnur glæpasaga Urðarköttur og hin er barna- og unglingabókin Bölvun múmíunnar – Fyrri hluti. „Ég hef endalausan áhuga á fólki og skáldsagnasmíð er góð leið til að kynnast nýju fólki sem maður getur haft eins skemmtilegt og maður vill.“

Bölvun Múmíunnar gerist á forngripasafni í ónefndri evrópskri stórborg, þar sem Júlía og mamma hennar búa. Það er vissulega óvenjulegt að búa á forngripasafni, en þar starfar mamma Júlíu. Þegar múmían Hóremheb kemur á forngripasafnið fara undarlegir atburðir að gerast! Ármann sækir innblástur í sagnaminni glæpasagna sem og mannkynssöguna sjálfa. „Svo vona ég að bókin sé fyndin og hæfilega spennandi.“

Hvaðan kemur innblásturinn að bókinni?

„Innblásturinn að bókinni er annars vegar gamall áhugi minn á múmíum sem sennilega er síðan í bernsku en hins vegar dreymdi mig eina nótt fyrir nokkrum árum tvær mæðgur sem bjuggu á þjóðminjasafni og fóru niður í salinn og fundu blóðbletti. Úr þessu tvennu varð bókin til. Þetta er önnur saga mín handa yngri lesendum þannig að auðvitað hef ég verið að hugsa um að skrifa slíka bók í nokkur ár.“

Hóremheb er miðpunktur bókarinnar, virðist vera við fyrstu sýn. Leynist eitthvað meira á bak við ótta Júlíu við Hóremheb?

„Það fór ekki hjá því þegar ég var byrjaður að skrifa þessa múmíusögu að ég færi að velta því fyrir mér hvers vegna fólk óttast múmíur og niðurstaðan var sú að fólk óttist hreinlega tímann sjálfan, dauðann og hverfulleikann. Þannig að það varð snemma að lykilatriði í sögunni að Júlía hefði beint ótta sínum að Hóremheb þó að í raun og veru stafi hann af öðrum sökum. Margir þjást af alls konar ótta og leita sér meðferðar við honum og þá er stundum grafið djúpt í leit að hinum raunverulegu orsökum, einkum ef óttinn er ekki fyllilega rökréttur. Ég held að vandi Júlíu sé ekki síst sá að hún hefur raunverulega ástæðu til að vera hrædd en hún þorir ekki að horfast í augu við þann ótta og í staðinn sökkvir hún sér ofan í ofsahræðslu við múmíuna.“

Þú virðist sækja innblástur hvaðanæva af. Er það eitthvað sem þú gerðir meðvitað eða komu þessir mismunandi þræðir saman þegar þú byrjaðir að skrifa?

„Draumurinn sem mig dreymdi var eins og gamaldags spennusaga og ég ákvað því snemma að bókin ætti helst að vera ástaróður til spennusagnahefðarinnar. Þess vegna eru ýmsir gamlir textar undir niðri í bókinni og auðga hana vonandi. Þar með taldir eru sögur eftir Victor Hugo, Alexandre Dumas, Jan Terlouw, Arthur Bernede, Jacques Tardi, Enid Blyton og svo auðvitað sjálfur Tinni og bækurnar um Njósnaþrenninguna; þetta er ekkert sem lesendur þurfa að taka eftir en auðvitað bara skemmtilegra ef þeir gera það. En auðvitað er þessi bók ekki nein af þessum bókum, sagan er kyrfilega flutt til nútímans og aðalsöguhetjurnar hugsa eins og nútímakrakkar. Sem betur fer þekki ég marga slíka sem auðvitað hafa bein og óbein áhrif á bókina.“

Eru líkindi með Hóremheb og Tutankhamun?

„Ég treysti mér ekki til að hafa söguna um sjálfan Tutankhamun því að honum fylgir núorðið of mikill menningarlegur farangur en meginþráður sögunnar um bölvunina er auðvitað sóttur í goðsögnina um bölvun Tutankhamuns sem fór á kreik þegar hann var grafinn upp árið 1923. Hóremheb er hins vegar raunverulegt faraóanafn og en ekki eins af þekktustu faraóunum þó að það megi reyndar finna myndir af honum á netinu. Það hentaði mér betur til að auka frelsi mitt.“

Hér að neðan er hægt að lesa örstuttan kafla úr bókinni. 

 

Lestu þetta næst

Of flöt frásögn

Of flöt frásögn

Violeta er nýjasta skáldsaga Isabel Allende sem kom út á síðasta ári og stuttu síðar í íslenskri...

Blæðir þér?

Blæðir þér?

Í kvöld heiti ég Sara. Pabbi minn, sem kom með mér í leikhús, heitir líka Sara. Sama gildir um...

Er hægt að vera svona?

Er hægt að vera svona?

Nú í mars mánuði kom út hjá bókaútgáfunni Björt bókin Verity eftir Colleen Hoover í íslenskri...