Gott að muna eftir þakklætinu

Penni: Katrín Lilja

Saga um þakklæti er önnur bókin sem Eva Einarsdóttir og Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir gera saman. Fyrri bókin Saga um nótt kom út árið 2013. Báðar bækurnar fjalla um Sögu og eru skrifaðar fyrir yngstu lesendurna. Í fyrri bókinni vill Saga ekki fara að sofa og í Sögu um þakklæti er Saga óskaplega fýld og á erfitt með að sjá það jákvæða í heiminum. Mamma Sögu kennir henni þá þakklætisleikinn, sem er leikur sem allir ættu að kunna. „Ég hef heyrt af því þegar verið er að lesa nýju bókina, þá hafi bæði krakkar og fullorðnir leikið eftir því sem stendur í bókinni og hafa lagt hönd sína á hjartað, lygnt aftur augum sagt frá einhverju sem þau eru þakklát fyrir. Þá finnst mér eiginlega markmiðinu náð,“ segir Eva. En eins og í fleiri barnabókum þá reynir Eva líka að koma nýjum orðaforða að í bókinni. „Ég legg meðvitað upp með að velja orð sem börnin nota ekki endilega í daglegu máli, samanber að vera önug eða stúrin í stað þess að skrifa í fýlu.“

Það kannast flestir foreldrar við ólundarleg og neikvæð börn. Á Saga sér einhverja fyrirmynd í raunveruleikanum?

Það er ekkert leyndarmál að Saga dóttir mín, sem er 13 ára í dag, er fyrirmyndin í bókunum. Sérstaklega í fyrri bókinni, Sögu um nótt en það er nánast orðrétt saga sem ég sagði henni til að vinna á myrkfælni. Saga um þakklæti fjallar síðan um týpískan hversdag hjá barni og foreldri og það að kenna þeim snemma að átta sig á hversu mikið þau hafa til að vera þakklát fyrir. Á mínu heimili höldum við stundum fjölskyldufundi og þá höfum við meðal annars tekið svokallaðan þakklætishring.

Sagan er nokkuð einföld en minnir mann á það sem skiptir máli. Geturðu sagt í stuttu máli um hvað Saga um þakklæti er?

Saga um þakklæti er önnur bók okkar Lóu um leikskólastúlkuna Sögu. Sagan er einföld og ætluð okkar yngsta fólki. Ég er oftar en ekki að fara gera lítið úr því að þetta sé nú ekki löng bók eða mikill texti en minni mig svo á að markmiðið mitt er einmitt að vekja áhuga ungra barna, fá þau til að tengja sig við sögupersónuna og að þau upplifi hvað maður getur lifað sig inn í bækur.

Hvers virði er jákvætt hugarfar fyrir þér? Hvað viltu að lesendur taki með sér úr bókinni?

Það má segja að Saga, dóttir mín, sé með og hafi alltaf verið með einstaklega jákvætt hugarfar og stutt í þakklætið hjá henni en auðvitað á hún sína daga, eins og sú stutta í bókinni. Ég reyni að innræta með mér og í börnunum mínum jákvætt og vaxandi hugarfar, hugarfar sem minnir mann á að það má mistakast, að hræðast ekki áskoranir og að það sé ekki sjálfgefið, þetta líf. En þetta er eins og með vöðva líkamans, hugurinn þarfnast æfinga og þar er ég sko ekki heldur undanskilin og þarf oft að minna mig á og endurskoða hlutina. Þetta er sífelld og vonandi lífslöng æfing.

 

 

Lestu meira

Í ástarsorg í Víetnam

Í ástarsorg í Víetnam

Það má með sanni segja að heimurinn hafi minnkað töluvert í pestarástandinu sem ríkir í heiminum. Ferðalög á milli landa liggja niðri að mestu og sjálf hef ég ekki ferðast út fyrir Íslandsstrendur síðan 2019, eins og eflaust flestir landsmenn. Það því dýrmætt að geta...