Blær Guðmundsdóttir sendi frá sér söguna um Sipp og systur hennar, Sipp, Sippsippanipp og Sippsippanippsippsúrumsipp – systurnar sem ætluðu sko ekki að giftast prinsum, fyrir jólin. Blær er bæði höfundur og myndhöfundur bókarinnar.

Sipp, Sippsippanipp og Sippsippanippsippsúrumsipp búa í konungsríki og eru prinsessur. Þær hafa þó töluvert önnur áhugamál en aðrar prinsessur sem hafa komist í ævintýrabækurnar. Ein er líkamsræktarfrömuður, önnur er uppfinningakona og sú þriðja hefur óslökkvandi áhuga á dýrum. Í nágrannaríkinu búa bræðurnir Skrat, Skratskratarat og Skratskrataratskratskúrumskrat, sem eru prinsar. Það er nær óhjákvæmilegt í hvaða ævintýri sem er að systurnar felli hug til bræðranna og öfugt og fram fari dýrðarinnar bryllup!

Í bók Blævar fáum við þó að kynnast sögunni á bak við ástir paranna þriggja – því ekkert hjónaband er byggt á engu. Stoðirnar þurfa að vera traustar.

Blær skapar hér bráðskemmtilega bók, byggða á gömlu ævintýri. Á hverri blaðsíðu bókarinnar má finna stórskemmtilega smátexta eða bráðfyndnar, litlar myndir. Sumar opnur í bókinni er hægt að skoða aftur og aftur og alltaf má finna eitthvað nýtt til að skoða, eitthvað örlítið smáatriði sem fór fram hjá við síðasta lestur.

Sérlega kómískt þótti mér og sérlegum álitsgjafa Lestrarklefans (sjö ára) hundsbit sem Skrat þurfti að þola. Þegar Sipp og Skrat fella hug saman er hægt að fletta upp blaðsíðunni og sjá hundsbitið sem er teiknað einkar ógeðslegt. Svo eru aðrir “ógeðs”hlutir í bókinni líka, eins og kossar og nektarsund.

Bókin hentar mjög vel til lesturs fyrir börn á aldrinum fjögurra til átta ára, en ég þori að fullyrða að foreldrar og forráðamenn eigi eftir að hafa alveg jafn gaman að lestrinum. Ég skora á hvern sem er að reyna að komast í gegnum bókina án þess að láta sér stökkva bros.

Hits: 237