Bækurnar sem drukknuðu í flóðinu

Penni: Katrín Lilja

Jólabókaflóðið í ár var eitt það stærsta nokkru sinni og metin féllu í hrönnum. Útgefnar ljóðabækur hafa aldrei verið fleiri. Íslensk skáldverk voru fleiri nú en árið á undan og þýdd skáldverk voru í miklum minnihluta í bókaflóðinu. Útgefnar barnabækur hafa heldur aldrei verið fleiri. Í svona ógnarstóru flóði fá ekki allar bækur þá athygli sem þær eiga skilið. Sumum bókum er hampað mikið en aðrar einfaldlega drukkna í flóðinu. Þrátt fyrir góðan vilja höfum við á Lestrarklefanum ekki enn náð að fara yfir það allt. Við erum því langt í frá óskeikul í þessu efni, en hér eru nokkrar bækur sem okkur finnst að lesendur ættu að kíkja eftir þegar þeir skipta öðru og þriðja eintakinu sínu af Arnaldi, Yrsu og Ævari sem leyndust í hörðu pökkunum undir jólatrénu.

(Psssttt…. eru ekki annars allir með útsölutrikkin á hreinu? Þú skiptir Arnaldi á fullu verði milli jóla og nýárs og snýrð svo aftur með inneignarnótuna á janúarútsöluna. Þannig færð þú fleiri bækur í jólagjöf! Ja, hver sagði að janúar væri leiðinlegur mánuður?)

[hr gap=”20″]

Fjallaverksmiðja Íslands eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur. Útgefandi: Forlagið

 

Loftslagsbókmenntir eru þema Lestrarklefans í janúar. Þess vegna brýnum við fyrir lesendum að kíkja á bókina Fjallaverksmiðja Íslands. Það er þó alls ekki eingöngu vegna tengingarinnar við loftslagsbókmenntir sem við mælum með bókinni. Hún er einfaldlega stórgóð! Í fríríkinu í Breiðárbragga búa nokkur ungmenni, nýútskrifuð af fjallamennskubraut á Höfn. Öll hafa þau stórar hugmyndir um jörðina, umhverfið, lifnaðarhátt manna og lífið. Þau eru full af bjartsýni, en svo fara hlutirnir að breytast. Bókin er full af stórum hugmyndum og von en á sama tíma ótrúlegum erfiðleikum og svartsýni. Það lifir enginn á loftinu og peningaöflin eru sterk. Bókin kallast á við Vertu ósýnilegur – Flóttasaga Ishmaels sem Kristín Helga sendir frá sér árið 2017.

 

[hr gap=”20″]

 

Rosalingarnir eftir Kristjönu Friðbjörnsdóttur með myndskreytingum eftir Halldór Baldursson. Útgefandi: Forlagið

 

Rosalingarnir eru með fjölbreytta hæfileika, sem eru ef til vill ekki alltaf vel þegnir þegar sitja á kyrr og einbeita sér að námsefni. Þess vegna eru þau send til Herra Halla, eða Halldórs Satúrnusar, sem stjórnar Hjálparhellinum. Herra Halli er án efa skemmtilegasti kennarinn í öllum skólanum og Rosalingarnir blómstra undir hans leiðsögn. Einn daginn hverfur Herra Halli og Rosalingarnir hefja leit að skemmtilegasta kennaranum.

Bókin er mjög stutt og auðlesin með bráðskemmtilegum teikningum eftir Halldór Baldursson. Áhugasamir lesendur eða kennarar eins og Herra Halli geta svo sótt sér aukaefni á heimasíðu Rosalinganna.

 

[hr gap=”20″]

 

Stelpan sem sigldi kafbát niður í kjallara (og lenti í sápufólki og smáninjum) eftir Guðna Líndal Benediktsson með myndskreytingum Ryoko Tamura. Útgefandi: Bókabeitan

 

Sögurnar um Þrúði eru núna orðnar þrjár. Í nýjustu bókinni þarf hún að glíma við óþekkt skrímsli í myrkrinu (og hittir sápufólk og smáninjur). Ekki eingöngu er söguþráðurinn fullur af húmor og spennu heldur eru myndskreytingar Ryoko Tamura einfaldlega á öðru plani. Á hverri blaðsíðu er hægt að finna eitthvað nýtt í hvert sinn sem bókin er skoðuð. Þá er einhver hlýja sem fylgir sögunni og teikningunum og þótt hasarinn sé jafnan mikill í bókunum þá situr eftir hlýja eftir lesturinn.

 

[hr gap=”20″]

 

Nína óskastjarna eftir Helgu Arnardóttur með myndskreytingum Ylfu Rúnar Jörundsdóttur. Útgefandi: Salka

 

Nína óskastjarna og ævintýrið á Álfhóli er saga um Nínu sem er kraftmikil ung stúlka. Hún fer oft í heimsókn til ömmu sinnar í sveitina og hjálpar til við bústörfin. Amma Nínu býr á sveitabæ sem heitir Álfhóll. Í garðinum er sérkennilegur steinn og samkvæmt ömmu Nínu búa álfar í honum. Eitt skiptið þegar Nína er í heimsókn á Álfhóli verður upp fótur og fit því ömmu hennar er tilkynnt um að eyðileggja eigi bæinn svo hægt verði að byggja stórt hótel á lóðinni. Nína vill hjálpa ömmu og deyr ekki ráðalaus. Hún lendir í spennandi ævintýrum og hjálp berst úr óvæntri átt. Í bókinni er meðal annars unnið með þemað að meira er ekki alltaf betra og gott er að hlúa að náttúrunni og hennar einstöku fegurð. Bókin er auðlesin og fallega myndskreytt. Nína óskastjarna og ævintýrið á Álfhóli er frumraun höfundar.

 

[hr gap=”20″]

 

Saga um þakklæti eftur Evu Einarsdóttur með myndskreytingum Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur. Útgefandi: Bókabeitan.

 

Saga er fremur óánægð einn daginn. Það er líklega of vægt til orða tekið, því hún er hundfúl. Það er allt einfaldlega ömurlegt og ekkert sem mamma hennar segir getur breytt því. Saga er ákveðin að vera í vondu skapi. En svo stingur mamma hennar upp á leik – þakklætisleiknum. Saman finna þær upp á ótal hlutum sem hægt þær geta verið þakklátar fyrir. Saga um þakklæti er gullfalleg bók sem minnir okkur öll á að við höfum margt til að vera þakklát fyrir og það er mikið auðveldara að hugsa jákvætt fremur en að velta sér um í neikvæðni. Það skemmtilegasta við bókina er að hún gefur beina leið í þakklætisleikinn með barninu sem hún er lesin með. Og allir loka bókinni með hlýju í hartanu.

 

[hr gap=”20″]

 

Úr myrkrinu eftir Ragnheiði Gestsdóttur. Útgefandi: Björt bókaútgáfa

 

Ragnheiður Gestsdóttir er ástsæll barna- og unglingahöfundur. Bókin Úr mykrinu er fyrsta skáldsaga glæpasagnahöfundarins Ragnheiðar og ætluð fullorðnum.

Bókin er mestmegnis skrifuð frá sjónarhorni hinnar 14 ára gömlu Margrétar og hinnar 16 ára gömlu Hörpu. Þær stöllur eru báðar vistaðar á fósturheimili fyrir ungmenni og með þeim tekst órjúfanleg vinátta þar sem þær berjast fyrir því að vera teknar trúanlegar og læra að treysta.

Bókin er átakanleg og efnistökin þung, en Ragnheiður er frábær penni og skilar efninu af stakri fagmennsku.

 

[hr gap=”20″]

 

Eilífðarnón, eftir Ástu Fanneyju Sigurðardóttur. Útgefandi: Partus forlag

 

Eilífðarnón er ljóðabók í áberandi fallegri kápu. Fjólublá og mjúk viðkomu, með dularfyllri mynd í gylltu. Það er ómögulegt að segja hvað þessi mynd á eiginlega að vera, og þó finnst manni sem einmitt þessu fyrirbæri sé lýst öðru hvoru í ljóðunum. Þetta er bók sem verður ekki lesin í einni atrennu. En þá koma kaflaskiptingarnar til bjargar, og það er ekki vitlaust að lesa einn „kafla“ (eða ljóðabálk? ljóðaþyrpingu?) fyrir svefninn.

Inn á milli koma stöku ljóð þar sem myndin sem birtist lesandanum er skýr og einföld,  en þau eru í minnihluta. Eilífðarnón er full af óvenjulegum orðum, litríkum og svipsterkum, og hver lína togar ímyndunarafl lesandans lengra, stækka myndina í  huga hans. Andrúmsloftið í sumum ljóðunum minnir á hugarástandið sem maður fellur í mitt á milli svefns og vöku, þegar venjulegar hugsanir breytast hægt í drauma. Þess vegna er Eilífðarnón sérlega hentug bók til að blaða í fyrir svefninn.

 

[hr gap=”20″]

 

Heimskaut eftir Gerði Kristýju. Útgefnandi: Mál og Menning

 

 

Gerður Kristný hefur verið tilnefnd til fjölda verðlauna fyrir ljóðin sín og ljóðabókin Sálumessa sem hún sendi frá sér á síðasta ári fékk margan til að fá kaldan hroll niður bakið. Það er eftirtektarvert þegar Gerður Kristný sendir frá sér ljóðabók. Í því gríðarlega ljóðabókaflóði sem var fyrir jólin virðist sem Heimskaut ekki hafa fengið þá athygli sem hún á skilið. Ljóðin eru skrifuð í knöppum og ljóðrænum stíl sem Gerður Kristný er þekkt fyrir og ljóðin áhrifamikil.

 

 

[hr gap=”20″]

 

Sipp, Sippsippanipp og Sippsippanippsippsúrumsipp – systurnar sem ætluðu sko ekki að giftast prinsum! eftir Blæ Guðmundsóttur. Útgefandi: Bókabeitan

 

Bók Blævar er endurnýjun á gömlu dönsku ævintýrir um Sipp og systur hennar og Skrat og bræður hans. En í þessu ævintýri er hlutunum þó aðeins snúið á hvolf og lesandinn fær að kynnast því hvernig prinsessurnar kynntust prinsunum sínum. Aðfarirnar eru einstaklega fyndnar og skemmtilegar. Blær nýtir líka teiknihæfileika sína til hins ýtrasta í bókinni því á hverri síðu er hægt að finna eitthvað bráðfyndið og skemmtileg og alltaf hægt að finna eitthvað nýtt við hvern lestur.

 

[hr gap=”20″]

Ólyfjan eftir Díönu Sjöfn Jóhannsdóttur. Útgefandi: Salka

 

Fyrsta skáldsaga Díönu Sjafnar Jóhannsdóttur kom skemmtilega á óvart, enda lýsingin aftan á bókinni ekki mikil vísbending um innihaldið. Ólyfjan er ekki hefðbundin skáldsaga með upphafi, miðju og enda, heldur frekar eins og skjáskot í líf hins unga skipverja Snæa. Bókin gerist á fjórum dögum í lífi hans þegar hann er í landi í nokkura daga fríi. Bókin er í styttri kantinum en atburðarrásin er hröð og nóg gerist á þessum örfáu dögum. Snæi er holdgervingur eitraðrar karlmennsku, eða hvað? Í raun er erfitt að lýsa bókinni í fleiri smáatriðum en höfundurinn leikur sér með skáldsagnarformið, sér í lagi við lok bókarinnar. Bókin sýnir að Díana Sjöfn er efnilegur höfundur og hlökkum við í Lestrarklefanum til að lesa það sem hún gefur út næst.

 

 

[hr gap=”20″]

 

Málleysingjarnir eftir Pedro Gunnlaug Garcia. Útgefandi: Bjartur

 

Það er óvenjulegt þegar maður opnar íslenska skáldsögu að vera hent inn í nokkuð annað umhverfi en gamla góða Ísland. Því er það hressandi að byrja á Málleysingjunum eftir Pedro Gunnlaug Garcia, sem hendir manni beint inn í Búkarest árið 1989. Tveir seinni hlutar bókarinnar gerast á Íslandi og hin undirliggjandi tenging á milli bókarhlutanna verður lesanda smám saman ljós eftir því sem líður á lesturinn. Dálítið klikkað verk, þar sem hugarflugi höfundar eru engin takmörk sett.

 

 

[hr gap=”20″]

 

 

 

Lestu meira

Í ástarsorg í Víetnam

Í ástarsorg í Víetnam

Það má með sanni segja að heimurinn hafi minnkað töluvert í pestarástandinu sem ríkir í heiminum. Ferðalög á milli landa liggja niðri að mestu og sjálf hef ég ekki ferðast út fyrir Íslandsstrendur síðan 2019, eins og eflaust flestir landsmenn. Það því dýrmætt að geta...