Arndís til varnar listamannalaunum

Hin árlega umræða um starfslaun listamanna komst á skrið í síðustu viku með tilheyrandi hneykslun virkra í athugasemdum. Það er í raun óþolandi að listamenn þjóðarinnar þurfi að standa undir öðru eins skítkasti við hverja árlegu úthlutun. Arndís Þórarinsdóttir, rithöfundur, skrifaði pistil á Facebook-síðu sinni sem sýnir vel fram á mikilvægi starfslauna listamanna. Tekjur til dæmis barnabókahöfunda af sölu bóka sinna séu ekki eitthvað til að hrópa húrra yfir.

Rithöfundar á örmálsvæði

Arndís setur upp „skemmtilegt“ reikningsdæmi til að sýna hve lágar tekju barnabókahöfunda eru í raun og veru. Ímyndaður metsölu-barnabókahöfundur sem selur 10.000 eintök á einu ári myndi fá um það bil sex milljónir í laun fyrir þá sölu. Það eru verktakagreiðslur. Arndísi reiknast til að sá ímynaði höfundur fengi 350 þúsund í mánaðarlaun fyrir skatt. „Þetta eru tölurnar hjá rithöfundi sem nýtur svo mikillar velgengni að hann er ekki til. Flestar bækur seljast í miklu, miklu færri eintökum. 2000 eintök þykir bara ansi gott – það er partur af því að skrifa fyrir agnarsmátt málsvæði. Ég hugsa að mörgum þætti að þessi 10 þúsund eintaka höfundur ætti alls ekkert að sækja um listamannalaun, því hann njóti nú svo mikillar velgengni. Ég veit samt ekki um neinn sem finnst að 350 þúsund séu frábær laun. En þetta eru tölurnar. Listamannalaunin eru svo 407 þúsund í verktakagreiðslu, sem jafngildir svona 280 þúsund í launagreiðslu.“

En hvers vegna ætti yfir höfuð að styrkja rithöfunda? Skipta bækur einhverju máli? Arndís svarar þessu auðvitað líka: „Við tölum tungumál sem er í útrýmingarhættu. Þetta er óumdeilt, það eru fáir sem tala íslensku og erlend áhrif eru mikil. Ef íslenskan deyr út, sem hún er auðvitað daglega nálægt því að gera, glatast heill heimur. Við missum beina tengingu við hugarheim þeirra kynslóða sem hafa byggt þessa eyju. Börnin okkar geta ekki skilið bréf forfeðra sinna. Strengurinn rofnar. Það er einhvers virði að styðja sköpun á íslensku.“

List á ekki bara að vera fyrir hina fjársterku

„Fullt af fólki velur sér mikilvæg störf sem myndi ganga illa að lifa af á „opnum markaði.“ Hugsum okkur talmeinafræðinga, þroskaþjálfa eða sjúkraþjálfara. Þessir hópar vinna mikilvæg störf sem við höfum ákveðið, sem þjóð, að skipti máli að almenningur hafi aðgang að.“ Arndís bendir á að notendur þjónustu sem þessarar greiði part af henni, en hið opinbera greiði mótframlag. Það sé hins vegar erfitt að hugsa sér samfélagið án þessarar starfsstétta og að einungis þeir sem standa fjárhagslega vel geti nýtt sér þjónustuna. „Listamannalaun eru ekki frábrugðin þessu. Við sem þjóð höfum ákveðið að listir séu partur af siðmenningunni og þess vegna þurfi að styðja við þær. Við viljum ekki heim þar sem bara þeir sem njóta fjárhagslegs sjálfstæðis geta skapað bókmenntir og bara þeir sem geti leyft sér mikinn munað geta keypt þær.“

Hér fyrir neðan er hægt að lesa pistil Arndísar í heild sinni:

Lestu þetta næst

Of flöt frásögn

Of flöt frásögn

Violeta er nýjasta skáldsaga Isabel Allende sem kom út á síðasta ári og stuttu síðar í íslenskri...

Blæðir þér?

Blæðir þér?

Í kvöld heiti ég Sara. Pabbi minn, sem kom með mér í leikhús, heitir líka Sara. Sama gildir um...

Er hægt að vera svona?

Er hægt að vera svona?

Nú í mars mánuði kom út hjá bókaútgáfunni Björt bókin Verity eftir Colleen Hoover í íslenskri...