Týnumst í furðuheimum

Í mars mun Lestrarklefinn einbeita sér að furðusögum. Hvað eru furðusögur? Jú, furðusögur er íslenska orðið á slangrinu fantasíur. Þessi bókaflokkur getur verið nokkuð yfirgripsmikill. Það væri í raun hægt að segja að allur skáldskapur sé furðusaga, því hann er ekki byggður á raunveruleikanum. Mér finnst það bera vott af útúrsnúningi og vil frekar hafa hringinn aðeins þrengri. Furðusögur gerast í öðrum heimum, hliðarveruleikum, hliðruðum veruleika, framtíðinni.

Furðusögur hafa lengi þurft að glíma við nokkra fordóma. Oftar en ekki eru furðusögur flokkaðar sem unglingabókmenntir eða ungmennasögur og það er vel. En þær eru það ekki eingöngu! Þannig verða þeir sem aðhyllast lestur þessara bókmennta á fullorðinsárum flokkaðir sem nördar. Einhvers staðar hef ég jafnvel heyrt ávæning af fordómum eins og þeim að furðusögur eigi ekki erindi í bókmenntaheiminn. Þetta eru í raun svipaðir fordómar og glæpa-, skvísu- og ástarsögur hafa þurft að sæta.

En líkt og glæpa-, skvísu- og ástarsögur þá hafa furðusögurnar alveg jafn mikinn tilverurétt og fagurbókmenntirnar og mjög mikið til málanna að leggja. Það er ekki alltaf hægt að sökkva sér í hátimbraða texta og stundum er gott að geta gleymt sér í góðu ævintýri eða vita hvert bókin mun taka þig – eins og Ragnhildur skrifar um í pistli sínum um letilesturinn.

Íslenskar furðusögur hafa verið að sækja í sig veðrið á síðustu árum. Höfundar eins og Emil Hjörvar Petersen, Alexander Dan, Ragnhildur Hólmgeirsdóttir, Hilmar Örn Óskarsson og Hildur Knúts hafa sent frá sér bækur sem flokka má sem furðusögur. Þá má líka flokka bók Sigríðar Hagalín, Eyland, sem furðusögu. Og örugglega fjölda annarra!

Týnum okkur í furðuheimum í mars! Deilið með okkur ykkar uppáhalds furðusögum í gegnum Instagram eða Facebook í gegnum myllumerkið #furðusögur eða taggið lestrarklefann með @lestrarklefinn. Við viljum heyra frá ykkur. Gerum bækur sýnilegri á samfélagsmiðlum!

Lestu þetta næst

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...

Ráðgátugleraugun

Ráðgátugleraugun

Í Ljósaseríunni koma út bækur sem henta börnum á yngsta og miðstigi í grunnskóla. Bækurnar eru...