Margmála ljóðakvöld flutt yfir í netheima

Harpa Rún Kristjánsdóttir, skipuleggjandi margmálaljóðakvöldsins og ljóðskáld, hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar í desember síðastliðnum.

Margmálaljóðakvöld sem ætti að vera haldið 21. mars næstkomandi á Listasafninu hefur verið flutt yfir í netheima vegna samkomubannsins. Harpa Rún Kristjánsdóttir, skipuleggjandi viðburðarins og ljóðskáld, segir að þær hömlur sem samkomubann vegna COVID-19 setji séu erfiðar en samt sé hægt að líta á björtu hliðarnar. Kvöldið í ár stefni til dæmis í metþátttöku. “Við höfum auðvitað verið bundin af fjölda og tímatakmörkunum með viðburðinn hingað til. Alltaf hafa færri komist að en vilja því það er ekki hægt að bjóða fólki á 10 klukkustunda upplestur. Núna er það hins vegar ekkert mál, það má vel fylla facebook af ljóðum og hver hlustar bara eins mikið og honum líkar,” segir Harpa Rún. Hægt er að fylgjast með viðburðinum á Facebooksíðu hans.

Aldrei fleiri ljóð

Margmálaljóðakvöld virkar þannig að ljóð eru lesin upp á mismunandi tungumálum á dagi móðurmálsins, 21. mars sem er líka alþjóðadagur ljóðsins. Fyrsta margmálaljóðakvöldið var haldið árið 2017 af Bókabæjunum austanfjalls. “Þá var okkur Bókabæjafólki boðið að taka þátt í Norræna móðurmálsmánuðinum og við bjuggum til þennan viðburð sem er haldinn á alþjóðadegi ljóðsins. Upprunalega hugmyndin var að fá fólk af svæðinu sem hefur annað móðurmál en íslensku til að koma og lesa ljóð á sínu máli – og síðan þýðingu. Seinna fórum við svo í samstarf við Gullkistuna, þar sem skáldin sem þar dvelja kynna sína menningu og gjarnan áhrif verunnar á sína listsköpun.” Það hafi því verið erfitt að sleppa viðburðinum í ár. Harpa Rún segir að Bókabæjarfólki sé farið að þykja nokkuð vænt um þennan gjörning. “Þess vegna ætlum við að láta reyna á þessa rafrænu leið. Það hefur síðan heldur betur undið uppá sig, fólk um allt land og allan heim ætlar að vera með okkur. Sem er auðvitað dásamlegt.”

Enn er óvíst hve mörg ljóð á hve mörgum mismunandi tungumálum verða lesin upp á Facebook-síðunni 21. mars en Harpa gerir ráð fyrir að met falli. “Fyllum Facebook af ljóðum!” segir Harpa að lokum og Lestrarklefinn tekur undir það.

Lestu þetta næst

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...

Ráðgátugleraugun

Ráðgátugleraugun

Í Ljósaseríunni koma út bækur sem henta börnum á yngsta og miðstigi í grunnskóla. Bækurnar eru...