Dimmuborgir eftir Óttar Norðfjörð er skáldsaga sem daðrar við að vera glæpasaga. Dimmuborgir er tíunda skáldsaga Óttars sem skrifar einnig sjónvarps- og kvikmyndahandrit, og er aðalhöfundur Brots, fyrstu íslensku sjónvarpsþáttaraðarinnar sem framleidd er af Netflix og sýnd um allan heim og var sýnd á RÚV yfir jólin.

Bókmenntarýnir er ónáðaður

Sagan segir af bókmenntarýninum Elmari sem fær heimsókn frá Helgu, frænku besta vinar síns. Talið var að Felix, besti vinurinn, hafi verið myrtur fyrir 25 árum í gegnum grimmilegt einelti. Helga hefur fram að færa sjálfsmorðsbréf sem Felix á að hafa skrifað áður en honum var drekkt í Nauthólsvík árið 1993. Þannig væri hægt að fría meintan morðingja af sök. Sjálfsmorðsbréfið vekur forvitni Elmars og leiðir hann af stað í sjálfstæða rannsókn á dauða Felix.

Margt breytist á 25 árum en ekki allt

Bókin er hvorki þung né dimm heldur einfaldlega skemmtileg aflestrar. Óttar hefur gott lag á íslenskri tungu og það skín í gegnum allann texta bókarinnar. Sérstaklega skemmtilegir þóttu mér þankar Elmars um hin ýmsu orð. Þá veltir hann fyrir sér uppruna og þýðingu. En þess konar þankar eru alls ekki aðalumfjöllunarefni bókarinnar. Til að komast til botns í máli Felixar þarf Elmar að grafast fyrir í fortíðinni og finna fyrrum samnemendur úr ÆSK (nú Háaleitisskóli). Eflaust eru einhverjir staðkunnugir sem upplifa einhverja þáþrá við að lesa lýsingarnar af skólalífinu. Ég er ekki staðkunnug og var því laus við þá truflun við lestur bókarinnar.

Á sama tíma og Elmar fikrar sig áfram að því að finna sannleikann um dauða Felixar fær lesandi að sjá glefsur úr lífi Felixar. Elmar í sinni rannsókn og frásögnin af Felix er nær samstíga í gegnum alla bókina. Þannig sér lesandi sama atburðinn í gegnum tvö pör af augum á nær sama tíma sem er nokkuð skemmtilegt. Ekki síst þegar höfundur speglar atburðina í gegnum 25 ár og samtöl geta verið nærri þau sömu sem minnir mann á að þótt tíminn líði þá sé það ekki sjálfgefið að allt breytist með því. Sumt heldur áfram að vera eins.

Litríkar og lifandi persónur

Mér fannst persónurnar í bókinni mjög lifandi og lítríkar. Óttar stjanar við að gefa þeim hverri og einni persónueinkenni sem lífga mjög uppá söguna. Uppáhalds persónan mín út bókinni er óneitanlega Eydís (Eightís) – röggsama landsbyggðatúttan sem býr í kjallara Elmars. Katzen, köttur Elmars, er líka sérstök persóna þótt hún segi kannski ekki mikið en hún gefur vissa hlýju í bókina.

Kvikmyndaréttur þegar tryggður

Óttar gefur strax í byrjun bókarinnar vísbendingu um lok hennar og svarið við dauða Felixar. Lausn gátunnar kom mér þó engu að síður nokkuð á óvart, þótt mig hafi verið farið að gruna ýmislegt. Það voru bara nokkrir hlutir sem gengu ekki upp og mér fannst undarlegt að Elmar skyldi ekki spyrja sig að sjálfur (eða kannski gerði hann það en mér fannst það bara ekki nægilega sannfærandi). En sé litið hjá því þá er bókin virkilega ánægjuleg aflestrar. Hún vekur forvitni, mann þyrstir í að vita meira og það var erfitt að slíta sig frá henni. En hún er ekki rúllandi spennulestur, heldur meira út í forvitnilega rannsókn á gamalli gátu.

Nú þegar hefur kvikmyndarétturinn að bókinni verið keyptur og ég gæti trúað að kvimyndin eða sjónvarpsserían sem verður byggð á henni dansi á mörkunum milli gaman- og glæpaþátta. Persónurnar eru skemmtilegar og litríkar og eiga eftir að koma vel út á skjá.

Lestu þetta næst

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...

Þú ert Blú!

Þú ert Blú!

Ég er mætt á söngleikinn Vitfús Blú og vélmennin. Ljósin kvikna og þrjár verur stíga á mitt sviðið. Þetta eru örlagaskvísurnar sem segja og syngja söguna með ákveðni og stæl. Sagan fjallar um nýjan heim, árið er 3033 og vélkvendið Algríma Alheimsforseti ætlar sér að taka yfir heiminn. En samkvæmt fornum spádómi eru örlög mannkynsins í höndum hins unga Vitfúsar Blú. Hann er eins konar messías sem þarf að bjarga öllum, þrátt fyrir að vera frekar klaufskur og einfaldur. Það er augljóst að verkið og sýningin er unnin með miklu hjarta alveg frá fyrstu drögum, mikil orka streymir frá leikhópnum og leikgleði einkennir verkið.

Ljóðræn hrollvekja

Ljóðræn hrollvekja

Þegar bækur sitja í huga manns lengi eftir lestur þá hefur maður dottið niður á góða bók, það er...