Suzanne Collins vann sér til mikilla vinsælda með bókunum um Hungurleikana. Bækurnar urðu metsölubækur og kvikmyndirnar sem byggðar voru á bókunum juku enn frekar á vinsældir sögunnar. Svo virðist sem ekkert lát sé á vinsældum bókanna, því þeir unglingar (og reyndar fullorðnir líka) sem ég hef rætt við eru sammála um að sagan af Katniss og baráttu hennar gegn hinum ofur-illa Snow forseta sé mjög góð. Sagan býr yfir spennu, ást og heimspekilegum pælingum um vald og valdbeitingu.

Hungurleika-þríleikurinn stóð vel fyrir sínu og sjálfri þótti mér ekki þurfa að bæta neinu við þá sögu. En nú hefur Collins sent frá sér forsögu að þríleiknum, Danskvæði um söngfugla og slöngur. Bókin kemur út í íslenskri þýðingu Magneu J. Matthíasardóttur. Magnea þýddi Hungurleikana og Hermiskaða, eftir Collins. Hún hefur einnig þýtt fleiri dystópískar skáldsögur og vísindaskáldsögur og er mjög hæf til slíkra verka. Þýðing á bókum sem þessum getur verið flókin þegar finna þarf upp íslenskar þýðingar á tilbúnum hugtökum og orðum sem eru jafnvel með vísan í menningarlegan bakgrunn höfundarins. Magneu tekst stórvel að flétta orðaleiki og annað af því tagi inn í þýðinguna, þannig að það fellur vel að íslenskunni.

Illmennið gert mannlegt

Í Danskvæðunum kynnist lesandinn Kóríolanusi Snow, þá átján ára nemanda í Akademíunni en síðar hinn hryllilegi forseti Panem. Snow ættin hefur fallið langt, auðæfin löngu uppurin eftir langt stríð Kapítól við umdæmin. Tíu ár eru liðin frá lokum stríðsins. Til að minna umdæmin á yfirburði Kapítól voru settir á Hungurleikarnir. Komið er að tíundu Hungurleikunum þegar bókin hefst. Kóríolanus reynir að halda uppi ímynd ættarinnar, en hann hefur samt illan grun um að brestir séu komnir í grímuna, því það reynist erfiðara og erfiðara að keppa við ríkari nemendur í samkvæmislífinu eftir því sem efnahagsleg velferð Kapítólbúa vænkast hægt og rólega eftir stríðið. Í tíundu Hunguleikunum eiga nemendur úr Akademíunni að taka að sér hlutverk mentora fyrir framlög úr umdæmunum. Kóríolanus fær það hlutverk að leiðsegja stúlkunni Lucy Gray Baird úr tólfta umdæmi. Kóríolanusi finnst mikil niðurlæging að fá framlag frá tólfta umdæmi í sína umsjá en Lucy Gray á eftir að koma á óvart.

Illmenni í skáldsögum eru áhugaverðar persónur. Maður kemst eiginlega ekki hjá því að velta fyrir sér af hverju manneskjan varð svona harðbrjósta. En það er ekki þar með sagt að það hafi verið hugsanir sem skutu upp í hugann þegar ég las Hungurleikaseríuna. En það liggur einhvern veginn beint við núna, þegar ég hef lesið bókina, að útskýra Snow frekar. Hvað varð til þess að hann hélt Hungurleikunum til streitu? Í fyrri bókunum ýjar hann oft að dýpri þekkingu á ástæðum, orsökum og afleiðingum gjörða framlaga í leikunum. Hann lítur á allt í Panem sem leik að valdi. Hvað varð til þess að Snow forseti varð eins og hann varð?

Líkindi milli bóka

Collins reynir að útskýra tilvist illmennisins í bókinni. Hún segir frá ástum og örlögum Snow í tíundu Hungurleikunum. Sum stefin eru ansi lík fyrri bókunum; til dæmis ást og öfund – ímyndaður eða raunverulegur ástarþríhyrningur. Að einhverju leiti minnti Snow á Peeta úr fyrri bókunum, hann er meistari í almannatengslum og snillingur í að koma vel fyrir. Snow hefur þó ögn meðfærilegri mótleikara en Peeta hafði.

Í staðinn fyrir að samúð lesandans hvíli algjörlega hjá umdæmunum fær hann sýn inn í Kapítól. Stríðið lék Kapítól og íbúa borgarinnar illa. Collins gefur lesandanum innsýn í tilveru Snow-ættarinnar (þau eru bara þrjú: Tígris, frú amma og Kóríolanus) á meðan stríðið geysaði. Það er eins og Collins sé á einhvern hátt að réttlæta hegðun og gjörðir Kóríolanusar. Persóna hans er svo pöruð með Sejanusi, sem er eins konar samviska Kóríolanusar. Örlög Sejanusar eru svo nokkuð táknræn fyrir það hvað verður af Kóríolanusi. Ég set þó spurningamerki við það að Collins skrifi heilt skáldverk til að útskýra illmenni úr fyrri bókunum en til að réttlæta illmennið skapar hún annað og verra. Doktor Gaul verður að erki-illmenni sem Collins gæti þurft að útskýra í næstu bók, haldi hún áfram á þessari braut.

Í Hunguleikunum veltir Collins mikið fyrir sér valdi, valdbeitingu og skapaðri ímynd. Hin skapaða ímynd er nokkuð sem við þekkjum öll allt of vel núorðið í gegnum samfélagsmiðla. Í Danskvæðunum vinnur hún með sömu hugtök en veltir líka upp spurningum um mannlegt eðli. Er manneskjan að uppistöðu slæm eða góð? Velur maður sína eign leið? Er manneskjan eingöngu afkvæmi aðstæðna sinna? Hún kemst ekki að niðurstöðu en hún fær lesandann til að hugsa.

Frábær afþreying

En sé litið framhjá öllum þessum greiningum og pælingum og eingöngu pælt í lestrarupplifun á bókinni, þá var hún bara nokkuð góð. Það er góð uppbygging í sögunni, persónurnar eru vel skrifaðar og djúpar, heimurinn fullmótaður og Collins gefur á sumum stöðum vísbendingar um að Panem sé leifar fallinna Bandaríkja, nokkuð sem mér fannst ekki koma nægilega vel fram í Hungurleika-seríunni. Þeir sem elskuðu bækurnar um Katniss ættu ekki að verða fyrir vonbrigðum með Danskvæðin. Bókin er grípandi, spennandi og lumar á ást inn á milli. Það var ekki fyrr en í þriðja hluta bókarinnar sem hægist á söguþræðinum og Collins fer næstum að ofútskýra þróun Snow í átt að hinum miskunnarlausa harðstjóra og hatur hans á hermiskaða. Bókin er tilvalin fyrir sumarlesturinn. Svo er búið að selja kvikmyndaréttinn að bókinni til Lionsgate og bókin verður kvikmynduð undir leikstjórn Francis Lawrence. Aðdáendur bókanna geta því látið sig hlakka til!

 

 

Lestu þetta næst

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...