Hrollvekjandi bækur á Hrekkjavöku

Ég held að flest okkar séu sammála um að hvað sem getur dregið huga okkar frá kófinu hressi, bæti og kæti. Jafnvel þótt það sé eitthvað Hrollvekjandi.

 

Hérna er því listi yfir þær bækur sem fanga á ágætan hátt anda Hrekkjavökunnar eða eru einfaldlega hrollvekjandi á einhvern hátt.

Nornasaga: Hrekkjavaka

Kristín Ragna Gunnarsdóttir sendi frá sér söguna um Kötlu og baráttu hennar við nornina Gullveigu fyrir jólin í fyrra. Sagan gerist öll á Hrekkjavöku, þegar skilin milli okkar heims og handanheims eru hverfandi lítil. Það er heldur ekki seinna vænna að byrja á fyrstu bókinni í Nornasögunni, þar sem sú næsta er á leiðinni!

Þín eigin hrollvekja

Þín eigin bækurnar hans Ævars Þórs falla nærri allar í flokkinn „svolítið hrollvekjandi“ en þó þykir mér við hæfi að hafa eingöngu Þín eigin hrollvekja á þessum lista. Það þekkja allir hvernig Þín eigin bækurnar virka, svo farðu í hrollvekjandi ferðalag um hrollvekjandi ímyndunarafl Ævars Þórs.

Sombína

Vinalegi uppvakningurinn Sombína býr á Hrunvöllum með frænku sinni Hálfdánu. Bækurnar eru meistaralega þýddar af Heiðu Björku Þórbergsdóttur og eru til dæmis nöfn og annað mjög margræð og skemmtileg. Þar fyrir utan er Sombína ekkert of hræðileg, þótt hún geti tekið hausinn af sér og rúllað honum eftir handleggjunum. Bækurnar erum Sombínu eru nú þegar orðnar þrjár og eru allar fallega myndskreyttar og skemmtilegar léttlestrarbækur með hrollvekjandi ívafi.

Hin ódauðu

Íslensk þýðing á Norrænu goðunum eftir Johan Egerkranz vakti mikla athygli þegar hún kom út. Hin ódauðu er enginn eftirbátur Norrænu goðanna. Í Hin ódauðu telur Egerkranz upp alla heimsins uppvakninga og ódauð skrímsli og ljær þeim útlit, sem er oftar en ekki ansi hrollvekjandi en á sama tíma dáleiðandi. Vissuð þið til dæmis að í Japan er til uppvakningur sem er eingöngu gerður úr fitu?

Kóralína

Neil Gaiman er ótrúlegur sagnamaður og Kóralína er eitt af hans þekktustu verkum. „Kóralína er nýflutt með foreldrum sínum í íbúð sem hefur tuttugu og níu glugga og fjórtán dyr. Að þessu kemst Kóralína þegar hellirignir og hún getur ekki verið úti. Þrettán dyranna er hægt að ganga í gegnum en þær fjórtándu opnast að hlöðnum vegg. Einu sinni þegar Kóralínu leiðist opnar hún dyrnar og veggurinn er horfinn. Í stað hans blasir við íbúð alveg eins og hennar – eða næstum því. Þangað inn stígur Kóralína og um leið inn í skrýtinn heim sem erfitt reynist að losna úr.“

Brásól Brella

Saga Ásrúnar Magnúsdóttur um ungnornina Brellu er skemmtileg og lifandi. Hvað gerist þegar Brella breytir óvart pabba sínum í puntsvín? Það er erfitt að finna lausn á vandamálinu enda er Brella bara nýbúin að komast að því að hún geti töfrað. Hefst þá langur leiðangur í leit að hæfari galdramanni sem getur bjargað málunum. Á leiðinni hittir Brella vampírur og fleiri furðudýr. Bók sem hentar vel þeim sem eru að fikra sig í átt frá einföldustu léttlestrarbókunum.

Eyland

Bók Sigríðar Hagalín ratar á þennann lista, eingöngu vegna þess að mér finnst sýn hennar á framtíðina, sambandsleysi Íslands og fall fréttamannastéttarinnar svo hrollvekjandi að hún vekur mér ugg. Erna hlustaði á bókina lesna af höfundinum sjálfum og það gerir söguna líklega enn svakalegri.

World War Z

Uppvakningar, veirur og heimsendir. World War Z  kemst á listann af því hún er flottasta bók um uppvakninga sem ég hef nokkru sinni lesið. Sagan talar ennþá beint inn í samtímann, ef uppvakningasóttinni er skipt út fyrir kórónaveiruna sem breiðist hraðar og hraðar út. Áhugaverð bók, vel skrifuð og nokkuð auðlesin. Svo er hægt að hlusta á hana lesna af frábærum leikurum, sem án efa gerir upplifunina af bókinni enn meiri.

Smásagan Ein heima

Rebekka Sif skrifaði mjög hrollvekjandi smásögu sem birtisti í Rithorni Lestrarklefans fyrir ekki svo löngu. Sagan segir af stelpu sem finnur lykil að læstri hurð, sem var kannski læst af góðri ástæðu.

Klassíkin

Nú svo er hægt að hella sér í lestur á klassískum verkum eins og Drakúla eftir Bram Stoker eða Frankenstein skrímslið eftir Mary Shelley.

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...