Klara and the Sun, nýjasta bók verðlaunahöfundarins Kazuo Ishiguro, kom út á dögunum og hefur nú þegar hlotið mikið lof. Um er að ræða fyrstu bók Ishiguro frá því að hann hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2017. Ég var afar hrifin af bók hans Never Let Me Go og þegar ég las gagnrýni um Klara and the Sun þar sem var tekið fram að aðdáendur þeirrar fyrrnefndu myndu líklegast njóta þeirrar síðarnefndu náði ég mér eins og skot í eintak af þessari bók.

Klara and the Sun er dystópísk skáldsaga. Sögusviðið eru Bandaríkin í náinni framtíð, en þar eru gervigreindar vinir, Artificial Friends (AF), vinsælir fyrir börn og veita þeim stuðning og félagskap. Klara er AF, vélmenni með mennskt yfirbragð, og hefst sagan á því þegar hún dvelur í búð fullum af slíkum og bíður eftir að rétta barnið velji sig. Líkt og í öðrum dystópíum er heimurinn eitthvað frábrugðinn raunheimum og maður reynir að finna vísbendingar hér og þar í textanum um hvernig veruleiki söguheimsins er; í þessum heimi er margt kunnuglegt, fólk fer ennþá í bíó og ferðast um í leigubílum, en ljóst er að samfélagið hefur tekið einhverjum stakkaskiptum frá því sem lesandinn er vanur. Hægt og rólega kemur í ljós hvaða stefnur samfélagið hefur tekið og áhrif þess á íbúana.

Draumurinn um að vera valin

Mér fannst ég strax ná góðri tengingu við bókina, Klara er einlæg þó að hún sé ekki mennsk og maður óskar þess strax í byrjun að hún verði valin og fái að sinna hlutverki sínu. Hún er barnsleg í byrjun en þroskast og dýpkar sem „persóna“ eftir að Josie, fjórtán ára stelpa, velur hana sem AF og hún fylgir henni og móður hennar heim til þeirra. Klöru þykir strax vænt um Josie og eykst væntumþykjan eftir því sem þær kynnast betur. En þegar á líður í sögunni kemur í ljós að Josie býr við viðvarandi veikindi og lífið með henni verður ekki alveg eins og Klara hafði gert sér í hugarlund.

Hvað þýðir að vera mennskur?

Ég er almennt ekki mikið fyrir vísindaskáldsögur eða dystópíur en bæði með Never Let Me Go og Klara and the Sun hefur Ishiguro tekist að fanga athygli mína. Bækurnar eru aðgengilegar fyrir alla lesendur og tekst Ishiguro snilldarlega með báðum verkum að hafa raunheima bókanna trúverðuga en þó nýta sagnaheimina til að varpa upp hugmyndum um mannkynið og vekja upp spurningar meðal lesanda um þýðingu þess að vera mennskur. Klara and the Sun er vel skrifuð og byrjar mjög sterk, mér fannst hún pínu missa dampinn fyrir miðju, en hún náði sér svo rækilega á strik aftur þegar höfundurinn afhjúpar meira um þennan dystópíska heim. Klara and the Sun er falleg saga sem mun skilja fáa eftir ósnerta.

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....