Valdið er fimmta skáldsaga Naomi Alderman, þótt margir telji bókina vera hennar fyrstu, enda frægust. Alderman starfar annars við það að skrifa söguþræði fyrir tölvuleiki, þegar hún er ekki að skrifa skáldsögur.

Valdið flokkast líklega sem vísindaskáldsaga, eða hvað-ef saga. Hvað ef konur væru með vald yfir karlmönnum? Hvernig yrði valdinu beitt?

Rafstraumur

Ungar konur uppgötva að þær geta gefið straum með höndunum. Mátturinn kviknar einn daginn hjá unglingsstúlkum, sem geta vakið hann upp í eldri konum. Valdið er notað til að brjótast undan yfirráðum karlmanna, það er valdeflandi að vita að aðeins ein létt snerting getur valdið manneskjunni við hliðina á þér sársauka. Konur öðlast skyndilega ótrúlegan mátt til að ríkja yfir mannkyninu sem sterkara kynið. Karlmenn fara að forðast konur og ungir drengir eru aðskildir frá stelpum til að vernda þá. Strákum er ekki óhætt úti á götum.

Í bókinni fylgir lesandinn fjórum sögupersónum; Margot, Tunde, Allie og Roxy. Margot er bæjarstjóri í smábæ í Bandaríkjunum þegar myndbönd af unglinsstelpum fara að berast um netið. Svo virðist sem stelpurnar gefi straum með höndunum. Allie kemst að því að hún býr yfir valdinu þegar hún brýst undan nauðgara sínum og fósturföður. Roxy, dóttir glæpaforingja í London, myrðir morðingja móður sinnar með gríðarlegum krafti sínum. Tunde, ungur blaðamaður frá Nígeríu, fylgist með hægfara þróun og breytingum á mannkyninu í miðri hringiðunni. Persónurnar þurfa allar að takast á við breyttan heim og raskað valdajafnvægi og vegir þeirra mætast á einhverjum tímapunkti í bókinni.

Hvað-ef

Alderman snýr algjörlega við heimsmynd okkar í bókinni. Konur eru valdamiklar, sjálfsöruggar og drottnarar heimsins. Í bókinni birtast reglulega upplýsingamyndir um fornleifar, sem raskar svolítiði hugsanagangi lesandans, en allt smellur saman í lokin. Bókin er römmuð inn af samskiptum ritstjóra og höfundar. Höfundurinn er karlmaður og ritstjórinn er kona. Strax þar er valdajafnvæginu raskað og lesandinn spyr sig hvað er að gerast.

Það sem heillar mest við bókina er hvað-ef elementið í henni. Hvað ef konur væru sterkara kynið? Hvað ef valdið væri þeirra? Sýn Alderman er hvorki björt né jákvæð. En þrátt fyrir myrka sýn á valdaskiptin þá eru hugmyndir Alderman og pælingar um kynhlutverk og vald svo góðar að þær umturna hugsanagangi manns. Alderman fléttar þessa sögu snilldarlega saman. Atburðirnir fá lesandann virkilega til að velta fyrir sér kynhlutverkum og valdi. Fyrir aðra lesendur þá er bókin hörku góð spennu/vísindaskáldsaga sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

Lestu þetta næst

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...