Þriðja bókin um Dinnu kom út á íslensku í sumar. Bækurnar um Dinnu eru eftir Rose Lagercrantz með myndlýsingum eftir Evu Eriksson og koma út í íslenskri þýðingu Guðrúnar Hannesdóttur. Litli sæhesturinn gefur út. Áður hafa komið út bækurnar Hamingjustundir Dinnu og Hjartað mitt skoppar og skellihlær.

Ljósið í myrkrinu

Sagan af Dinnu er mjög svo raunsæ saga af sex ára stelpu sem í fyrstu bókinni byrjar í fyrsta bekk. Erfiðleikar elta Dinnu uppi og hún þarf að takast á við flókin málefni sem krakkar geta vel tengt við og hafa jafnvel upplifað sjálf. Dinna þarf að takast á við það að besta vinkona hennar flytur burt, hún verður fyrir stríðni og í þriðju bókinni verður pabbi hennar fyrir bíl. Dinnu tekst þó alltaf að finna sína hamingjustund, því sama hvað bjátar á og hve leiður maður verður yfir einhverju, þá er alltaf hægt að finna ljósið í myrkrinu.

Í raun eru atburðir þriðju bókarinnar mjög hræðilegir og Dinna á mjög erfitt með að melta fréttirnar um að pabbi hennar liggi meðvitundarlaus á sjúkrahúsi. Ekki síst þar sem mamma hennar er dáin. Dinna upplifið gríðarlegan einmanaleik og mikinn ótta. En fljótlega kemst hún þó að því að hún er alls ekki ein! Amma og afi standa þétt við bakið á henni, hún eignast nýjan vin og Ella Fríða, besta vinkonan, hringir í hana með frábærar fréttir. Þótt heimurinn standi á heljarþröm má sjá glætu í myrkrinu. Og það er ágætis nesti inn í lífið fyrir unga lesendur.

Myndir Evu Ericsson eru svo alveg sér á parti. Þær miðla tilfinningum Dinnu, gjörðum aukapersóna og svo miklu meira á svo næman hátt að maður kemst við. Þær segja hálfa söguna og án þeirra væri bókin langt í frá heil. Það er nefnilega þannig að sem barn sá maður ekki alltaf vinnuna og umhygguna sem fullorðnir í kringum mann lögðu til. Það sama má segja um textann. Það er ekki hægt að lesa beint úr textanum hvað á sér stað á milli hinna fullorðnu, en í gegnum myndirnar má sjá svo margt – dulin merki umhyggju og ástar. Þær eru kjötið á beinunum.

Hefjum skólann með Dinnu

Ég beið lengi eftir þriðju bókinni um Dinnu, enda eru þessar bækur einar hartnæmustu og fallegustu barnabækur sem ég hef lesið og miðju sonurinn elskar bækurnar. Hann hóf lestur á fyrstu bókinni eftir fyrsta bekk og las hana nokkrum sinnum yfir sumarið 2019. Síðan þá hefur komið út ein bók á ári og miðað við vinsældir bókanna væri alveg pláss fyrir tvær Dinnu-bækur á ári, svo hægt sé að halda í við lesendahópinn sem núna eldist og missir brátt áhugann (því  miður!).

Ég mæli með því að börn sem hefja skólagöngu sína í haust fái að kynnast Dinnu í gegnum Hamingjustundir Dinnu áður en fyrsti skóladagurinn rennur upp. Það er svo allt eins líklegt að börnin sæki í að lesa bókina aftur og aftur þegar þau eru farin að geta stautað sig fram úr textanum. Svo er tilvalið næla sér í næstu bók um Dinnu þegar líður á skólaárið og ljúka svo skólaárinu með Dinnu að vori. Það verða nefnilega öll börn að kynnast Dinnu og hennar lífsspeki.

Lestu þetta næst

Lygar eða skemmtisögur?

Lygar eða skemmtisögur?

Í seríunni um Bekkinn minn eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur er íslenskur raunveruleiki eins og hann...

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...