Meðgöngubækurnar okkar

Margt breytist í líkama konu þegar hún gengur með barn og þetta getur valdið breytingum á smekk. Bragðlaukarnir breytast og matarsmekkurinn er ekki sá sami og áður, margar konur upplifa sterka þrá eftir einhverju sem þær borða hvorki fyrir né eftir meðgönguna. Svipað má segja um fatasmekk: það vilja fæstir vera í óþægilegum fötum á meðgöngu og aðlaga sig eftir því, en aftur á móti getur verið gaman að vera í aðsniðnum fötum þegar kúlan fer að myndast, eitthvað sem konur vilja svo kannski ekki gera eftir að kúlan hverfur. Það ætti því ekki að koma á óvart að einn smekkur sem getur líka breyst er lestrarsmekkurinn. Við hjá Lestrarklefanum fögnum miklu barnaláni þessa dagana og vildum því deila með ykkur hvernig okkar lestrarhegðun breyttist á þessum níu örlagaríki mánuðum.

 

Leslisti Sæunnar 

Ég nýt þeirra forréttinda um þessar mundir að ganga með barn í fyrsta sinn og þó að það sé enn nóg eftir af meðgöngunni get ég ekki annað en hlegið að þessum miklu breytingum sem hafa orðið á lestrarhegðun minni undanfarna mánuði. Í júní varð ég einfaldlega óð í Jenny Colgan bækur, eins og ég kom inn á í Sumarleslista Lestrarklefans sem birtist í júlímánuði. Ég gerði heiðarlegar tilraunir til að finna dýpri heimsbókmenntir til að sökkva mér í á bókasafninu en gekk bara alltaf út með nýjustu bókina í einhverri seríu Colgan. Þegar ég loksins náði mér af þessum skvísubókmenntaæsingi í júlí datt ég heldur betur í feminísk fræði og las Do it Like a Woman: … and Change the World og er núna að lesa The Moment of Lift: How Empowering Women Changes the World eftir Melindu Gates. Ef það fór fram hjá þér kæri lesandi þá á ég sem sagt von á stelpu og hún ætlar að vera algjör feminísk skvísa.

 

 

 

Leslisti Katrínar Lilju

Það eru fjögur ár síðan ég kláraði síðustu meðgöngu. Alls hafa þær verið þrjár en það er einungis á þriðju og síðustu meðgöngu sem ég get sagt með vissu að ég hafi tekið eftir því hvað ég las. Fyrri hluta tvítugsaldurs míns, milli 20 og 25, las ég nær ekkert og því eru engar bækur sem ég get talið til. Ég hef áður skrifað um það í pistli hér á Lestrarklefanum hvernig Karitas án titils hjálpaði mér í gegnum síðustu vikur þriðju meðgöngunnar. Það ættu allar konur að finna sér góða bók að lesa þegar settur dagur nálgast. Það er óskaplega lítið annað hægt að gera.

Allar þessar meðgöngur hafa þó breytt lessmekk mínum. Hér áður fyrr get ég lesið hinn versta hrylling og viðbjóð en eftir að börn komu til sögunnar hef ég lítið getað lesið um ofbeldi. Ofbeldi gagnvart börnum í skáldsögum snertir mig sérstaklega illa. Ég er einfaldlega of meyr. Of hrædd um eigin börn. Of hrædd við framtíðina. Mér er tíðrætt um þessa staðreynd við konur í kringum mig. Við erum sammála um að þessi viðkvæmni líður hjá þegar börnin verða eldri.

 

Leslisti Rebekku Sifjar

Í ágúst á síðasta ári komst ég að því að ég væri ólétt eftir að hafa verið flökurt allan daginn í vinnunni. Það einkenndi svolítið fyrsta helming meðgöngunnar, ógleði og þreyta. Þær bækur sem ég var að lesa þegar ég komst að því að ég væri ólétt náði ég aldrei að klára! Þetta voru bækurnar Vetrarfrí eftir Hildi Knútsdóttur og The Seven Deaths of Evelyn Hardcastle eftir Stuart Turton. Það var ekki af því mér þótti þær slæmar heldur einfaldlega út af því að þegar ég horfði á þær fékk ég velgju og langaði að hlaupa inn á klósett að æla. (Sorry Hildur og Stuart! Ekkert persónulegt…)

Árið áður hafði ég lesið hundrað bækur, og var með sama markmið þetta ár, þannig þetta kom sér aldeilis ekki vel. Ég var hrædd um að ég myndi ekki lesa alla meðgönguna og þar með ekki skrifa neitt fyrir þessa blessuðu vefsíðu. En sem betur fer skánaði ógleðin í október, einmitt svo ég gæti steypt mér ofan í jólabókaflóðið. Lestrarsmekkurinn breyttist lítið sem ekkert, en um vorið rétt fyrir fæðingu greip ég mér nokkrar gamlar og góðar íslenskar bækur sem ég hafði alltaf ætlað að lesa, Yosoy eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur og LoveStar eftir Andra Snæ Magnason.

 

Leslisti Ragnhildar

Þegar umræða um þennan pistil hófst meðal penna Lestrarklefans leist mér strax vel á hugmyndina. Það er svo áhugavert hvernig fólk tekst á mismunandi hátt við sömu reynsluna, sérstaklega þegar hún er í grunninn jafn margbreytileg og það að eignast barn. Þegar ég byrjaði að skrifa fyrir Lestrarklefann 2018 var ég einmitt nýbúin að eignast mitt fyrsta barn, og samþætting lesturs og móðurhlutverks var mér því mjög ofarlega í huga í mínum fyrstu pistlum. Ég held þó að á heildina litið hafi meðganga ekki afgerandi áhrif á lestur minn, svo framarlega sem ég hafi orku til að lesa á annað borð. Ég stenst þó ekki mátið að setja hérna hlekk á mitt allra fyrsta bókablogg, þar sem ég lýsti þeim sérstaka kokteil sem getur orðið til úr flóknum bókmenntatexta, spennunni/óþolinu sem byggist smám saman upp þegar settur dagur færist æ aftar í tíma (meðgangan endaði í sléttum 42 vikum), og svo þeirri sérstöku upplifun að vakna upp af svæfingu með ketamíni eftir óvænta ferð á skurðstofu kvennadeildar Landspítalans.

Hins vegar breytti móðurhlutverkið sjálft lestrarhegðun minni all verulega, eins og ég held að ég hafi rætt á sínum tíma hér. Það að eignast lítið varnarlaust barn með sætar kinnar skrúfaði frá einhverjum tilfinningakrana í heilanum og ég upplifði allar tilfinningar, jákvæðar og neikvæðar, óhóflega sterkt. Ég hef aldrei átt í vandræðum með að taka raunir skáldsagnapersóna skelfilega mikið inn á mig, en þarna keyrði um þverbak. Í fyrsta sinn áttaði ég mig líka á því að grimmd gagnvart börnum er umfjöllunarefni ólíkegustu bóka, þetta bara læðist upp að manni í næstum því hvaða léttmeti sem er.

Í dag á ég hressan þriggja ára strák og helsta lestrarvandamálið er að ég get sjaldan lesið lengur en 45 mínútur á dag. Þetta gerir mér það frekar erfitt fyrir að ná að lesa bækur sem má á einhvern hátt kalla „þungar“. Þetta er eins og ætla að hjóla upp brekku en stoppa átta sinnum á leiðinni upp til að reima skóna, í hvert sinn verður átakið við að hjóla aftur af stað þyngra. Ég hef þegar dottið út úr einni mjög áhugaverðri bók á árinu út af þessu og nú stefnir í aðra. Líklega verður fólk bara að hætta að gefa mér áhugaverðar bækur í jóla- og afmælisgjafir næstu árin, þetta þýðir ekkert!

 

Leslisti Kristjönu

Sagt er að ekki sé hægt að bera meðgöngur saman, jafnvel ekki einu sinni meðgöngur sömu manneskjunnar því allar séu þær ólíkar. Ég á fjórar meðgöngur að baki, fyrsta barnið fæddist árið 2001 og það fjórða og síðasta árið 2014 og allar voru meðgöngurnar ólíkar. Ekki bara líkamlega heldur var lestraráhuginn eða öllu heldur, áhuginn á þeim tegundum bóka sem ég las á þessum fjórum meðgöngum stórkostlega ólíkur. Ég vil í raun meina að hægt sé að hafa þráhyggju fyrir ákveðinni tegund bóka líkt og fólk fær þráhyggju yfir ákveðnum mat.

Á fyrstu meðgöngunni gekk ég á milli bókasafna höfuðborgarsvæðisins og sankaði að mér misgóðum bókum  um meðgöngu og umönnun ungbarna og voru slíkar bækur þær einu sem ég las. Ég var klárlega haldin fyrsta barns fullkomnunaráráttunni sem ég held að flestir kannist við þó fólk vilji kannski ekki viðurkenna það. Nema í stað þess að setja upp stílhreint skiptiborð með alla þá hluti sem tilheyra bleyjuskiptingum flokkaða í stafrófsröð og ungbarnafötin straujuð og litaflokkuð þá lagðist ég í bókmenntirnar. Bar saman bækurnar, skoðaði heimildirnar og nóteraði hjá mér furðulegustu hluti. Ég fyllist ennþá nostalgíu þegar ég rekst á bókina Að eignast barn : getnaður, meðganga og fæðing eftir Miriam Stoppard.

Á annarri meðgöngunni uppgötvaði ég í fyrsta sinn svokallaðar „skvísubækur“ er ég rakst á Dagbók Bridget Jones í bókarekkanum í apótekinu. Ég keypti eintak, sem ég er reyndar nýlega búin að losa mig við en geymdi í mörg ár því ég hafði lesið hana á þessari tilteknu meðgöngu. Já, það er þetta með að bindast bókum tilfinningaböndum. En í kjölfarið á lestri þeirrar bókar andaði ég að mér öllum skvísubókmenntum sem ég komst yfir og las eingöngu slíkar bækur. Þetta var meðgangan þar sem ég kynntist bókum Sophie Kinsella og Jill Mansell, stórkostleg meðganga sem leiddi af sér mína eilíflegu ást á skvísubókmenntum og öðrum rómansbókum.

Þriðja meðgangan var líklegasta sú furðulegasta því þá fékk ég þráhyggju fyrir spennusögum. Ég las ekkert nema norrænar spennusögur. Ég spændi í gegnum bækur Camillu Lackberg og Jussi Adler-Olsen svo ég nefni einhverja höfunda. Það sem er svona furðulegt við þennan áhuga er að ég er ekki sérlega hrifin af spennusögum. Les eina og eina á ári en ekki meira en það. Hinsvegar var þetta meðgangan þar sem ég gat heldur ekki fengið nóg af lambakjöti og fannst kaffi viðbjóður sem þótti mjög sérstakt þar sem vanalega finnst mér lambakjöt vont og kaffi það besta sem til er í heiminum. Manninum mínum hinsvegar, sem þessi tiltekna dóttir sem ég gekk með þarna líkist alveg gríðarlega mikið, finnst fátt betra en lambakjöt, skilur ekki hvernig fólk getur drukkið kaffi og viljið þið giska hvernig bækur höfða mest til hans? Nei segi bara svona.

Fjórða meðgangan var svo sú sem ég eyddi í lestur ævisagna og sögum hljómsveita og annarra tónlistarmanna. Ég las allar þær bækur sem ég komst yfir um Janis Joplin, Freddie Mercury, Led Zeppelin og ég las m.a.s. The Dirt, sögu Mötley Crue. Hvort lestur þeirrar bókar hafi verið skynsamur lestur berandi barn undir belti má deila um en yngsta dóttirin virðist ekki hafa orðið meint af og er reyndar mikil áhugakona um hverslags rokk.

Meðganga hefur áhrif á fólk á svo marga vegu, andlega og líkamlega að það virðist kjánalegt að ætla að hún hafi ekki áhrif á lestraráhugann líka. Ég þykist allavega hafa fært sönnur fyrir því að svo sé.

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...