Sumarleslisti Lestrarklefans

Það er komið sumar! Að minnsta kosti að nafninu til á höfuðborgarsvæðinu, en hiklaust á Norður- og Austurlandi. Margir eru eflaust komnir í sumarfrí, á leið í sumarfrí, eða að minnsta kosti að njóta auka sólarstundanna sem sumarið býður upp á. Á sumrin nýta sumir tímann til lesturs afþreyingabóka, svo sem glæpasagna, eða ástarsagna. Aðrir nýta sumarmánuðina, sér í lagi ef þeir eru í fríi, til þess að lesa bækur sem eru of langar eða þungar til lesturs á veturna þegar dagskráin getur verið ansi stíf. Áhöfn Lestrarklefans er ýmist í fríi, á leið í frí eða nýbúin í sumarfríi og ætlar að lesa alls konar bækur yfir sumarmánuðina, hér má því finna lista yfir þær bækur sem við erum með á okkar leslista!

Leslisti Sæunnar Gísladóttur

 

Sökum anna síðustu vikur hef ég haft lítinn áhuga á öðru lesefni en skvísubókum Jenny Colgan. Undantekningin var hin frábærlega breska spennusaga The Thursday Murder Club eftir Richard Osman. Í byrjun júní fór ég til Akureyrar í bongóblíðu og sat úti allan daginn með hina indælu Litla bókabúðin í hálöndunum.  Bókin segir frá Ninu sem ákveður að kaupa gamlan sendibíl og opna í honum bókabúð sem hún getur farið á hvert sem er. Á þessu annars ágæta plani hennar eru þó nokkrir hnökrar og hún getur ekki verið með bílinn í Birmingham þar sem hún býr. Hún lætur það þó ekki stoppa sig og ákveður að flytja til Skotlands. Þar leigir hún hlöðu hjá bónda sem er skapstór og fúllyndur. Samskipti þeirra eru að mestu leyti stirð og stíf og hann pirrar sig á nánast öllu sem að Nina tekur sér fyrir hendur. Inn í bókabúðarævintýri Ninu fléttast ástarævintýri við lestarstjóra, fjörug vinkona úr borginni og aðrir líflegir karakterar sem hún kynnist og afgreiðir. Stórgóð bók sem óhætt er að mæla með.

Þegar ég frétti af nýrri bók í sömu seríu Litla bókabúðin við vatnið varð ég auðvitað að lesa hana líka. Þar segir frá Zoe sem flytur til Skotlands frá London til að leysa Ninu af í starfi og gæta ungra barna. Bókin náði ekki alveg jafn vel til mín og sú fyrri en var engu að síður kærkomið hugarferðarlag til fallegu skosku hálandanna. Þess má geta að ekki þarf að hafa lesið þá fyrri til að geta notið þeirrar síðari. Mér tókst líka á síðasta mánuði að lesa um Flóru sem rekur eldhús á skálduðu skosku eyjunni Mure í Ströndinni endalausu sem var falleg bók í bókaflokknum um Sumareldhús Flóru (ég hafði ekki lesið fyrstu bókinni en náði alveg að koma mér inn í þessa). Síðan rifjaði ég líka upp kynnin við Polly í Cornwall í Sumar í Litla bakaríinu við Strandgötu, framhaldsbók Litla bakarísins við Strandgötu sem ég las fyrir nokkrum árum. Skemmst er frá því að segja að nú er ég búin að pakka í töskurnar og hygg á flutninga á afskekktan stað í Bretlandi til að stofna eigið fyrirtæki og finna mér þöglan, myndarlegan mann.

 

 

Leslisti Katrínar Lilju Jónsdóttur

 

Bréfið Kathryn HughesÉg er enn að bíða eftir því að komast í sumarfrí frá vinnunni, en nýti helgarnar til að fara í útilegur með fjölskyldunni. Þegar farið er í útilegur eru alltaf teknar með bækur og því eru lesnar margar barnabækur. Auk þess höfum við komist á lag með hljóðbækur í löngum bílferðum og inn á milli kíkjum við á Sumarið í sveitinni og spreytum okkur á skemmtilegum spurningum.

Það er ansi spennandi útgáfan í sumar. Ég kláraði Litlu bókabúðina við vatnið eina helgina í útilegu, renndi mér lipurlega aftur í gegnum Sumarbókina eftir Tove Jansson (skyldulestur að sumri til), kláraði Vanessa mín myrka og var djúpt snortin, ætla að lesa Leyndarmál eftir Sophie Kinsella og hef sett mér markmiðið að lesa Fjarvera þín er myrkur eftir Jón Kalman í sumar líka. Ætli Kalman endi ekki í ágúst.

 

 

 

Leslisti Rebekku Sifjar Stefánsdóttur

 

Ég er ný búin með Sterk og Þægindarammagerðina en er svo hálfnuð með LygatréðÉg er í svolitlu ungmennabókastuði eftir að hafa lesið og fjallað um Sterk en það er bókmenntaflokkur sem ég sjálf hefði óskað að hefði verið í hávegum hafður hjá bókaútgáfum þegar ég var barn og unglingur. Ég fór 10 eða 11 ára að lesa á ensku út af litlu úrvali. En nú sem fullorðinn einstaklingur finnst mér yndislegt að lesa ungmennabækur og sjá hvað þær eru vandaðar og fjölbreyttar. Sterk er spennusaga sem inniheldur mörg mikilvæg samfélagsleg málefni sem eiga stórt erindi til unga fólksins okkar í dag. Lygatréð eftir Frances Hardinge er einnig ungmennabók sem kom út hjá Partusi en það er fyrsta ungmennabókin sem kemur út á þeirra vegum svo ég viti. Bókin er ævintýrasaga eða furðusaga úr fortíðinni þannig lesendur eru bæði að kynnast þrúgandi kynhlutverkum sem voru ríkjandi um miðja 19. öld og að fylgjast með hinni 14 ára Faith brjóta allar þær reglur til að leysa dularfulla ráðgátu sem varðar föður hennar.
Þægindarammagerðin var yndislegur andblær inn í sumarið. Bókin er smásagnasafn sem saman stendur af sögum eftir sextán upprennandi höfunda og því er hver einasta saga einstök. Sjálf er ég mikil smásagnakona og nýt þess að sjá hvað býr í hugarheimi nýrra höfunda sem munu skapa sér pláss í bókmenntaheiminum næstu ár.
Ég verð svo að minnast á fjórar stuttar bækur sem henta einstaklega vel í sumarlestur, Merki eftir Sólveigu Johnsen, Að telja upp í milljón eftir Önnu Hafþórsdóttur, Dagbókin eftir Önnu Stínu Gunnarsdóttur og Í miðju mannahafi eftir Einar Lövdahl. Fyrstu þrjár eru nóvellur eða stuttar skáldsögur en sú fjórða stutt smásagnasafn. Þessar bækur glöddu lestrarhjartað í maí og júní.
Að lokum! Bækur sem eru næst á dagskrá: Vanessa, mín myrka eftir Kate Elizabeth Russell og Sjálfsævisaga Alice B. Toklas eftir Gertrude Stein. 

Leslisti Díönu Sjafnar Jóhannsdóttur 

Ég kláraði nýverið lestur á Hundagerðinu eftir Sofi Oksanen sem veldur alls ekki vonbrigðum, en ég er komin með nokkuð háar væntingar þegar Oksanen er annars vegar. Frábæra við Oksanen er hvað hún dregur mig, vestrænan forréttinda-lesanda, inn í heim sem er mér gjörsamlega framandi. Allar bækurnar hennar hafa virkilega áhugaverðan og margslunginn en einnig kaldan og grimman söguheim. Hún hefur einstakt lag á að setja hluti í nýtt samhengi.  Hundagerðið er ádeila á stéttaskiptingu og fjallar um líf tveggja kvenna sem byrja að braska í sölu á eigin líkama, eða nánar tiltekið í eggjum sínum eða jafnvel legi, fyrir fólk sem býður fúlgur fjár í drauminn um barn.
Ég las síðan ljóðabókina Havana eftir Maríu Ramos á fallegum sumardegi í júní, en hún rann í lestri eins og dúnamjúkur kaffibolli. Fallegar og firnasterkar myndir sem hún dregur upp. Það er einhver ósögð þrá, eitthvað sem emjar eftir viðurkenningu eða einhverju haldbæru, en sem er á sama tíma svo ljúfsárt og kunnuglegt.
Önnur bók sem er föst á leslistanum þessa stundina, en það má þakka kornungri dóttur minni, er bókin Sjáðu eftir Áslaugu Jónsdóttur. Hún titlar bókina sem “myndavers fyrir börn”, sem mér finnst einstaklega fallegt. Myndirnar eru áhugaverðar, spennandi, óvæntar og fagurlega gerðar. Þetta er svo sannarlega bók sem vex með barninu því ég sé alveg fyrir mér að mín stutta muni geta lesið hana lengi og alltaf uppgötvað eitthvað nýtt í hvert skipti. Skemmir ekki fyrir að það er ánægja fyrir mig sjálfa að lesa vísurnar.
Næstu bækur á leslistanum hjá mér eru Að telja upp í milljón eftir Önnu Hafþórsdóttur sem nýverið vann keppnina Nýjar raddir hjá Forlaginu og svo smásagnasafnið Þægindarammagerðin eftir útskriftarnema ritlistarinnar í Háskóla Íslands. Mér finnst gaman að fylgjast með nýjum upprennandi höfundum og finnst mjög mikilvægt líka að styrkja unga höfunda og grasrótina í útgáfu.

Leslisti Önnu Margrétar Björnsdóttur

Í byrjun ársins datt ég á bólakaf í A Court of Thorns and Roses seríu Sarah J. Maas, en það er ekki þverfótað fyrir tilvitnunum í þær á bókagraminu. Ég hafði takmarkaðar væntingar til bókanna, en þær komu mér ótrúlega skemmtilega á óvart og mig þyrsti í meira efni í sama dúr þannig að ég ákvað að demba mér í Throne of Glass seríu sama höfundar.

Þegar við tókum saman leslistann okkar í mars fjallaði ég um þessa seríu og hvernig ég hefði m.a. verið vöruð við henni af bókhneigðu fólki í kringum mig. Ég talaði líka stuttlega um það hvernig ég væri smám saman að átta mig á því að þetta fólk hefði haft fullkomlega rétt fyrir sér. Til að gera langa sögu stutta þá hefur þessi sería staðið í mér frá því í mars og ég er ekki ennþá farin að ná góðum takti. Ég á líka mjög erfitt með að einbeita mér að nokkru öðru á meðan og því er alveg gríðarlega lítil hreyfing á leslistanum hjá mér á meðan.

Ég er þó með ýmislegt annað spennandi á leslistanum sem bíður þess að ég rífi mig upp úr þessum lestrardampi. Af því má nefna Cruel Prince seríu Holly Black, Bridgerton bækurnar og nýjustu bók Abby Jimenez, Life’s too Short, en ég var mjög hrifin af fyrri bókum hennar og ber miklar væntingar til þeirrar nýjustu. Ég er líka með The Switch eftir Beth O’Leary á leslistanum hjá mér, en hún skrifaði líka The Flatshare, sem ég skrifaði einmitt pistil um, en hann má nálgast hér.

Fantasíur eru yfirleitt fyrirferðarmiklar á leslistanum mínum og ég bíð spennt eftir að kafa ofan í Gideon the Ninth, en ég hef heyrt gríðarlega góða hluti um hana. We Hunt the Flame, eftir Hafsah Faizal, er líka mjög ofarlega á listanum hjá mér, sem og Witches Steeped in Gold, eftir Ciannon Smart. Ég er líka búin að vera með The Witch’s Heart á leslistanum hjá mér frá því löngu áður en hún kom út, en þekki engan sem hefur lesið hana og veit því ekki alveg við hverju er að búast.

Af nýlegu íslensku efni er ég spenntust fyrir Að telja upp í milljón, en ég er líka ennþá með 107 Reykjavík á leslistanum hjá mér frá því um jólin. Eyland og Eldarnir hennar Sigríðar Hagalín eru báðar á listanum frá því áður en ég datt ofan í ungmennabækurnar af fullum krafti fyrir jól, sem og Um tímann og vatnið eftir Andra Snæ Magnússon, en ég keypti hana á síðasta bókamarkaði í Laugardalnum og á ennþá eftir að lesa hana.

 

Leslisti Sjafnar Hauksdóttur

Ég var að lesa The Yellow House eftir Sarah M. Broom sem er ættarsaga/endurminning svartrar fjölskyldu í New Orleans, mjög áhugaverð. Svo er ég búin að lesa svona 2000 óeftirminnilegar spennusögur – sú eina sem stóð smá uppúr er Stillhouse Lake, sem fjallar um konu sem kemst að því að maðurinn hennar er fjöldamorðingi (vandræðalegt).

Í hljóðbókabransanum var ég að klára Being Heumann eftir Hudith Heumann sem er aktívisti og Inside My Outside eftir Sarah Pyszka sem er smá sérstök endurminningasaga því hún fjallar um fjóra daga í lífi Söru sem notast við NPA .. og svo var ég að byrja að hlusta á The Time Travelers Guide to Medieval England! Sem byrjar vel og er um já, England á miðöldum.

Lestu þetta næst

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...

Þú ert Blú!

Þú ert Blú!

Ég er mætt á söngleikinn Vitfús Blú og vélmennin. Ljósin kvikna og þrjár verur stíga á mitt sviðið. Þetta eru örlagaskvísurnar sem segja og syngja söguna með ákveðni og stæl. Sagan fjallar um nýjan heim, árið er 3033 og vélkvendið Algríma Alheimsforseti ætlar sér að taka yfir heiminn. En samkvæmt fornum spádómi eru örlög mannkynsins í höndum hins unga Vitfúsar Blú. Hann er eins konar messías sem þarf að bjarga öllum, þrátt fyrir að vera frekar klaufskur og einfaldur. Það er augljóst að verkið og sýningin er unnin með miklu hjarta alveg frá fyrstu drögum, mikil orka streymir frá leikhópnum og leikgleði einkennir verkið.

Ljóðræn hrollvekja

Ljóðræn hrollvekja

Þegar bækur sitja í huga manns lengi eftir lestur þá hefur maður dottið niður á góða bók, það er...