Lengi hefur verið beðið eftir nýrri skrímslabók á mínu heimili. Sögur af litla skrímsli og stóra skrímsli hafa farið oftar með okkur heim af bókasafninu en ég þori að telja (og lent í vanskilum eins oft…).

Í haust kom út ný bók eftir samstarfsþríeykið Áslaugu Jónsdóttur, Kalle Güettler og Rakel Helmsdal. Að þessu sinni eru stóra skrímsli og litla skrímsli eitthvað að bauka bak við lokaðar dyr. Loðna skrímslið er að vonum mjög forvitið og þegar því er réttur miði og sagt að koma daginn eftir þá ber forvitnin það ofurliði. En því bregður heldur betur í brún þegar það mætir á staðinn!

Saman í leikhús

Eins og í öðrum sögum af skrímslunum er boðskapur í bókinni. Að þessu sinni er leikhúsið kynnt fyrir börnunum. Loðna skrímslið kann nefnilega ekki að hegða sér í leikhúsinu og heldur að allt sé alvöru, og verður eiginlega svolítið hrætt við forynjurnar sem koma undan tjaldinu. Saman skapa skrímslin þrjú brúðusýningu sem slær rækilega í gegn.

Ég veit ekki hvað það er við skrímslabækurnar sem nær okkur mæðginum fullkomlega. Við skoðum myndlýsingar Áslaugar í þaula, dáumst að þeim og dýrkum. Hún hefur einstakan stíl klippimynda sem okkur finnst einfaldlega frábær. Myndirnar eru litríkar, lifandi og fullar af tilfinningum. Við ræðum saman um söguþráðinn, pælum í gjörðum sögupersónanna og framhaldi. Við gjörsamlega týnum okkur í bókinni og svo er hún skyndilega búin! Tilfinningar skrímslanna eru hráar og barnslegar svo börn eiga auðvelt með að sjá sjálf sig í þeim. Þau hafa upplifað aðstæður þeirra, gert það sem þau gera, leikið með sömu leikföng. Því gefa bækurnar gott tækifæri til að ræða um daginn og veginn, þær gefa foreldrum og forráðamönnum rými til að ræða um erfiða hluti.

Öll börn á leikskólaaldri ættu að kynnast litla skrímsli, stóra skrímsli og loðna skrímsli. Og í nýjustu bókinni, fara með þeim í leikhús!

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...