Konurnar á bak við tölurnar

Mary Robinette Kowal er heiðursgestur á IceCon furðusagnahátíðinni í ár. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna fyrir seríuna sína The Lady Astronaut. Tvíleikurinn um The Lady Astronaut vann Nebula, Locus, Hugo  og Sidewise verðlaunin árið 2019. Sagan er því margverðlaunuð og ekki af ástæðulausu. Fyrri bókin í tvíleiknum er The Calculating Stars.

Konur, geimurinn og misréttið

Skáldsagan segir af Elmu York, eldklárum doktor og snillingi í stærðfræði og fyrrum flugmanni WASP úr seinni heimsstyrjöldinni. Þegar lesandi stígur inn í söguna fellur loftsteinn á jörðina og veldur hrikalegum flóðum sem þurrka út austurströnd Bandaríkjanna og valda margvíslegum skaða annars staðar um heiminn. Elma og maðurinn hennar, hinn eldklári og fjallmyndarlegi Nathaniel, eru eldflaugafræðingar. Elma kemst að því að lofsteinninn mun valda því að lífsskilyrði á jörðinni verða engin eftir nokkur ár. Mannkynið þarf út í geim, en sá hængur er þó á að árið er 1952 og enn hefur enginn maður farið út í geim.

Skáldsagan er hvað-ef-saga, þar sem Kowal hefur varpað loftsteini á jörðina og þröngvað mannkyninu til að vinna saman að því að koma geimskutlum og manneskjum út í heim. Hvað ef allir ynnu saman? Hvað ef stefnt væri að því að setja upp geimstöð á tunglinu? Samtakamáttur mannkyns eykur möguleikana á að mannkynið komist frá jörðinni í tæka tíð. En það er samt ennþá kalt stríð milli Rússlands og Bandaríkjanna. Heimurinn er enn að ganga saman eftir seinni heimsstyrjöldina. Og konur eiga ekkert að þvælast fyrir þegar kemur að því að koma mannkyninu frá jörðu.

Elma þarf ekki bara að kljást við tölur sem tölva fyrir alþjóðlega geimsamstarfið, heldur líka við kynja- og kynþáttamisrétti. Það er nú árið 1952 og þótt konur séu ómissandi hluti af nýlendu á annarri plánetu þá þykja þær óþarfar þegar kemur að þróun geimfarartækja og aðeins nýtilegar í útreikningana. Sem minnir svolítið á hina raunverulegu sögu geimferða á þessum tíma.

Kapphlaup við tímann

Ég hef aðeins lesið fyrri bókina í tvíleiknum um kvengeimfarana og kunni vel við. Konur sem þurftu að berjast fyrir tilverurétti sínum inni á því sem talið var svið karla máttu ekki sýna á sér minnsta veikleika. Konurnar í sögu Kowal þurfa að vera kvenlegar á sama tíma og þær hafna kvenleikanum. Þurfa að vera harðar en samt mjúkar. Andstæðurnar togast á í þeim. Og á sama tíma og lesandinn veltir fyrir sér kynjamisréttinu hleðst upp spenna fyrir því hvort mannkynið komist af jörðu brott í tæka tíð.

Lestrarklefinn hvetur lesendur til að skrá sig á viðburð IceCon með Mary Robinette Kowal. Kowal verður með vinnustofu í Veröld, Húsi Vigdísar Finnbogadóttur, laugardaginn 6. nóvember milli 10 og 12.

Lestu þetta næst

In memoriam

In memoriam

Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama. En orðstír deyr aldregi hveim er sér góðan getur (úr...