Hlýlegu bókapakkarnir frá Bók og te

Á Instagram reikningnum Bók og te má sjá fallega stílfærðar myndir af innpökkuðum bókum sem geyma einmitt það, bók og te. Inn á milli leynast ungmennabókapakkar með bréfi af Swiss miss með sykurpúðum. Það er nefnilega fátt huggulegra en góð bók og heitur drykkur, sérstaklega á veturna í endalausum lægðum, roki og ofankomu.

 

View this post on Instagram

 

A post shared by Óvissuferð Með Bók (@bokog_te)

Lestrarklefann langaði að komast að því hver stendur á bak við síðuna en það lá ekki svo auðveldlega fyrir að komast að því. Stutt netleit leiddi ekkert í ljós, svo við sendum skilaboð og komumst að leyndardómunum á bak við reikninginn. „Sylvía heiti ég, Magnúsdóttir – tveggja barna móðir og guðfræðingur,“ segir stofnandi reikningsins. Hún segir að hún trani sér lítið fram er þó tilbúin að svara nokkrum spurningum um þetta skemmtilega verkefni.

Sígildar og nýjar í bland

Hugmyndina segir Sylvía, sem er er Mosfellsbæingur, hafa sprottið upp af netvafri. „Þetta er eins og „blind date with a book“, þekkt hugmynd. Mér fannst þetta skemmtilegt konsept.“ Því varð Bók og te til. „Það hljómar bara kósí, og er kósi fyrir þá sem drekka te og lesa býst ég við.“ Bækurnar sem Sylvía pakkar inn eru flestar af nytjamörkuðum. Þær eru því endurfæddar hjá nýjum notendum. „Ég vel þær sem eru vel með farnar og nýlegar, klassískar eða vinsælar.“ Dæmi um bækur sem hafa ratað í pakkana er Ólæsinginn eftir Jonas Jonasson, Hroki og hleypidómar eftir Jane Austen, Alkemistinn eftir Paulo Coelho, bækur eftir Jenny Colgan, Steindýrin eftir Gunnar Theodór Eggertsson og Doddi – bók sannleikans eftir Hildi Knúts og Þórdísi Gísladóttur. Það er því eitthvað fyrir alla.

Sáir lestraráhuga

Sylvía segir að hvatinn á bak við verkefnið hafi verið viljinn til að skapa og þróa eitthvað sem bæði hún og aðrir hafi gaman af. „Þetta hefur líka endurvakið lestraráhuga minn og opnað nýjan bókaheim á Instagram,“ sem hlýtur að flokkast sem jákvæð fylgdaráhrif af verkefninu. Sylvía hefur einmitt byrjað að lesa aftur eftir langt hlé. „Ég hef alltaf haft áhuga á bókum og var fastagestur á bókasafninu sem barn.“ Þessa dagana les Sylvía smásagnasafnið American short stories. „Annars hef ég dottið í krimmana hans Jo Nesbø, sem eru í uppáhaldi þessi misserin.“

Sylvía segir verkefni vera litla útgerð „en pakkarnir seljast jafnt og þétt“. Bókapakka er hægt að panta og kaupa í gegnum Facebook og Instagram og fá þannig óvænta bók í póstinum. Einnig er hægt að nálgast þá í Extraloppunni af og til, og á síðunni ko-fi.com/bokogte.

Lestu þetta næst