Groddalegt morð á metsöluhöfundi

Sú bók sem reis hægt og rólega upp í síðasta jólabókaflóði var Arnaldur Indriðason deyr eftir Braga Pál Sigurðarson. Í hverju flóði er alltaf ein bók spyrst út á meðal fólks og selst betur eftir því sem umræðan um hana verður líflegri. Svo hefur að sjálfsögðu bætt enn frekar í sölu bókarinnar öll sú umræða sem spratt upp í kringum hana. Þar vísa ég í heit orðaskipti Braga Páls og Guðmundar Andra. En í kjölfarið sannaðist hið fornkveðna, að öll umræða er góð umræða. Bókin seldist, að minni bestu vitund, þokkalega eftir að hún var talin umdeild.

Má þetta?

Bókin var valin bók febrúarmánaðar í bókaklúbbnum mínum. Engin okkar hafði lesið bókina, en umtalið vakti forvitni. Bókaklúbburinn samanstendur af konum milli þrítugs og sextugs. Við erum flestar úr sitthvorri áttinni og erum ekkert alltaf sammála um ágæti bókanna sem hafa verið lesnar í gegnum tíðina, svona eins og það á að vera í góðum bókaklúbbi. Umræður geta oft orðið líflegar, en alltaf skemmtilegar.

Sjálf hafði ég engar sérstakar væntingar til bókarinnar. Fyrsta hugsun var að Bragi Páll væri að ögra lesendum með því að myrða Arnald Indriðason í bók. Ég læt nú oftast ekki neitt þess háttar stuða mig. En eftir því sem leið á bókina fór ég að súpa hveljur oftar. Ég greip fyrir munninn, sagði stundarhátt „nei hann getur ekki gert þetta!“. En jú, hann getur þetta og meira til. Ég meira að segja gekk svo langt að lesa groddalegustu kaflana upphátt fyrir manninn minn og saman ojuðum við í kór. Því bókin er jú gríðarlega gasaleg. En í gegnum allan óhroðan sem fylgir Ugga Óðinssyni, aðalsögupersónu sögunnar, má bersýnilega lesa mjög hvassa þjóðfélagsádeilu.

Groddaleg en fyndin

Uggi er misheppnaður rithöfundur. Eiginlega er hann misheppnuð manneskja. Hann átti eiginlega aldrei séns á að verða neitt almennilegt, í ljósi þess hverjir foreldrar hans eru eða hvernig staðið var að uppeldi hans. Bragi Páll dettur þó aldrei í þá gildru að gera upp fortíð hans, sem hefði gert bókina klisjulega. Fortíð Ugga er sýnd í skýru ljósi og lesandanum er leyft að ákveða sjálfum hvort hann vorkenni Ugga eður ei. Ég ætla þó ekki að neita því að bókin gekk nokkrum sinnum fram af mér. Lýsingarnar í henni er ansi hreint ógeðslegar. Uggi er hræðileg persóna og það var engin leið að láta sér líka vel við hann. Því skal þó haldið til haga að hér er átt við persónuna Ugga en ekki persónusköpun hans, sem mér þótti vera upp á 10. Sama má segja um aðrar persónur bókarinnar sem stökkva ljóslifandi ýktar upp af blaðsíðunum. Það eru nefnilega allar persónurnar ýktar erkitýpur í bókinni.

En í gegnum hnífbeitta ádeiluna á íslenskt samfélag, ofbeldi og groddaskap skín þó alltaf virkilega góður húmor. Ég hló upphátt að aðförum Ugga þó nokkuð oft. Og umræðurnar í bókaklúbbnum voru nær ómögulegar því svo mikið var hlegið. Jú, vissulega eru morðin hrikaleg, en þau eru svo hrikaleg að það er engin leið að leika þau eftir. Aðfarirnar eru svo ýktar og ógeðslegar að þær geta bara átt sér stað í nokkuð velheppnaðri skáldsögu. Sjálfri fannst mér nokkuð ljóst að hinir myrtu eru ekki myrtir á persónulegum nótum, heldur sem erkitýpur í samfélaginu. Einnig hefði mér þótt mun ókennilegra hefðu morðin á nafngreindum einstaklingum úr íslensku samfélagi verið úthugsuð og raunverulegri. Það væri mun óþægilegra hefði Bragi Páll skrifað raunverulegan krimma, um alvarlegan lögreglumann með áfengisvandamál, sem rannsakar morðið á metsöluhöfundinum Arnaldi Indriðasyni. Það hefði ekki verið fyndið.

Bók sem má lengi ræða um

Stíll Braga Páls er einstaklega auðlæsilegur, eins og pistlar hans á Stundinni bera með sér. Hann er ekkert óvanur því að skrifa skýrt og skorinort og beitt um íslenskt samfélag og bókin ber með sér að hér er höfundur sem hefur gott lag á textaskrifum. Fyrir vikið rennur lesandinn í gegnum bókina eldsnöggt. Titill bókarinnar kom við kaunin á sumum, en sjálfri finnst mér tiltæki Braga Páls ansi klárt. Þarna hefur hann komið nafni metsöluhöfundarins á kápu bókarinnar, nafni sem jafnan selur bækur.

Viðtökur á bókinni í bókaklúbbnum mínum voru vonum framar. Flestar vorum við sammála um að hún væri yfirdrifið ógeðsleg, subbuleg jafnvel, en allt hefði það einhvern tilgang. Hún þarf að vera absúrd til að ganga upp. Og það er það sem mér finnst hún gera. Bókin gengur upp. Höfundurinn afhjúpar sjálfan sig í lokin. Hann verður jafnvel fórnarlamb Ugga, rétt eins og Uggi er fórnarlamb hans. Bókin er eftirminnileg, hrikaleg og bráðfyndin. Myndi ég mæla með henni við aðra? Líklega myndi ég tæplega ota henni að fólki, en ég myndi segja við þá sömu „talaðu við mig þegar þú ert búinn að lesa“. Því þessa bók er hægt að ræða mikið og lengi.

 

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...