Eins og eflaust fleiri foreldrar barna í yngri kantinum, þá er ég alltaf dálítið spennt að sjá hvað sé næst á dagskrá hjá AM forlagi. Hvort sem það er áður óþýdd eldri klassík eða nýjar bækur, þá gefur forlagið út bækur með myndum sem ég hef unun af að skoða aftur og aftur (sem er auðvitað það sem maður gerir, þegar lesið er með leikskólabörnum, hvort sem manni líkar það betur eða verr.)

Á síðasta ári komu út hjá AM forlagi þrjár bækur með myndum eftir bandaríska höfundinn Carson Ellis, allar hver annarri fallegri. Fjögurra ára sonur minn á það til að horfa á bækur og segja: „Mig langar að fara inn í þessa mynd.“ Ekki man ég reyndar alveg hvort hann hafi sagt það um akkúrat þessar bækur, en þannig líður mér allavega þegar ég skoða þær. Teiknistíll Carson Ellis er ótrúlega fallegur, myndirnar eru oft gamaldags og rómantískar í sér, en á sama tíma fer hún létt með að teikna myndir sem eru augljóslega komnar beint úr nútímanum.

Veröld skordýranna

Af þessum þremur bókum er Kva es þak? í algeru uppáhaldi. Bókin fjallar um veröld skordýranna og er skrifuð á skordýramáli. Hver einasta opna í bókinni sýnir sama landslagið, trjádrumb á vinstri síðu og svo auða jörð út frá honum. En þegar nánar er að gáð iðar þetta berangurslega umhverfi af lífi og tekur örum breytingum, hvort sem það líða nokkrar mínútur í heimi sögunnar þegar blaðsíðunni er flett, heill dagur eða heil árstíð. Það er endalaust hægt að finna fleiri smáatriði sem hægt er að benda barninu á og velta fyrir sér, eða ræða á djúpspakan hátt um náttúrufyrirbrigði eins og lirfur, púpur eða fræ.

En, aðalmálið er auðvitað sjálf sagan, um skordýrin þrjú sem einn daginn finna lítinn grænan sprota og velta því fyrir sér hvað hann eigi eiginlega að fyrirstilla. Skyldi þetta vera jurt? Væri hægt að fá lánaðan stiga? Byggja trjáhýsi? Tilveru vinanna þriggja í notalega trjáhýsinu er ógnað af grimmu rándýri en hjálp berst úr óvæntri átt. Og allt þetta áður en blómið springur út og skordýrin þjóta að úr öllum áttum með hrópum og köllum yfir þessu undri. Þetta í sjálfu sér væri góð bók og skemmtileg, en það sem síðan sprengir allan skalann er sú staðreynd að bókin er öll á skordýramáli, sem Carson Ellis bjó til og Sverrir Norland þýddi yfir á hið ástkæra og ylhýra íslenska skordýramál sem prýðir síður bókarinnar.

Kimman plonk?

Það má ekki á milli sjá hvort okkar hefur meira gaman af skordýramálinu, sonur minn eða ég. Hann gengur um og tístir frasa á borð við: „Tata“ og „Mörgambsa Igga“ en ég muldra annars hugar „Kimman plonk?“

Ég fylltist miklum metnaði til þess að skilja uppbyggingu skordýramálsins, sem veitti mér ánægju við endurtekinn lestur bókarinnar. Svo var svo óvenju gaman að lesa textann upphátt með tilþrifum. En það sem mér fannst kannski sniðugast við skordýramálið var að það opnaði aftur augu mín fyrir því stórkostlega ferli sem máltaka barnsins míns er. Því mín reynsla er sú að nú þegar barnið er orðið fjögurra ára höfum við foreldrarnir orðið svo góðu vön að við erum kannski farin að gleyma því hvað þetta er ótrúlegur tími í þroska barnsins. Ég stend mig allavega þessa dagana mun oftar að því að ganga að því sem vísu að sonur minn skilji eitthvað, frekar en að verða hissa og glöð yfir nýju orðunum sem hann lærir og notar. En um leið og nýju orðin voru svona augljóslega framandi (Fúrtinn ons!) þá opnuðust augu mín upp á nýtt fyrir því hversu mikið hann er að læra og hve rosalega hratt hann tileinkar sér nýja hluti.

Ja, hvað meira get ég sagt, Kva es þak? er óvenjuleg bók og skemmtileg bók. Tilvalin í sumargjöf, blikk blikk. Eða bara fyrir allar fjölskyldur sem vantar smá meiri glöðuspröður í líf sitt.

Lestu þetta næst

In memoriam

In memoriam

Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama. En orðstír deyr aldregi hveim er sér góðan getur (úr...