Aldrei aftur heimsfaraldur

Árið 2015 hélt Bill Gates TED fyrirlestur um það sem heilbrigðisyfirvöld gerðu sér almennt grein fyrir: Að það væri “kominn tími” á næsta heimsfaraldur og að lönd heimsins væru mjög misvel undirbúin undir það. Í fyrirlestrinum talaði hann um Ebólu faraldurinn frá 2014 sem víti til varnaðar og hvað hægt væri að gera til að koma í veg fyrir aðra slíka hörmung.

Í apríl síðastliðnum hélt Bill annan TED fyrirlestur, þann fyrsta síðan árið 2015, og það er ekki ofsögum sagt að það hafi ýmislegt gerst síðan þá. Fyrirlesturinn frá árinu 2015 hefur nú fengið yfir 40 milljón áhorf, en því miður áttu 95% þessara áhorfa sér stað eftir að COVID faraldurinn var skollinn á.

Í báðum þessum fyrirlestrum fjallar Bill um það hvernig hægt er að koma í veg fyrir, eða í það minnsta, minnka verulega skaðann af heimsfaröldrum. Í fyrirlestrinum frá því í apríl tekur Bill saman helstu punkta úr nýju bók sinni, How to Prevent the Next Pandemic. Umfjöllunarefni fyrirlestrarins var að miklu leyti hið sama og árið 2015 nema að nú byggir hann á reynslunni af COVID og leggur fram mun skýrari og nákvæmari tillögur.

COVID var hræðilegt – en við vorum að mörgu leyti heppin

Bill hefur verið spurður að því í viðtölum af hverju hann hafi skrifað þessa bók núna, þegar allir eru komnir með leið á að tala um heimsfaraldra. Hann svarar á þann veg að nú sé einmitt rétti tíminn til að undirbúa okkur undir næsta heimsfaraldur því það er öllum í fersku minni hversu hræðilegur COVID faraldurinn var (og er enn). Árið 2015 talaði hann aldrei um “heimsfaraldur” (e. pandemic) í fyrirlestri sínum því hann hélt að fólk myndi ekki skilja hugtakið. Nú þarf ekki að sannfæra neinn um mikilvægi þess að reyna að koma í veg fyrir annan faraldur.

Í bókinni talar Bill um hversu afskaplega illa undirbúinn heimurinn almennt var þegar hin óþekkta veira uppgötvaðist og einnig hversu treg sum stjórnvöld voru til að taka ógninni alvarlega. Hann er óspar á að gagnrýna hvernig heimaland hans, Bandaríkin, tók á faraldrinum frá upphafi en Bill vissi mjög snemma af því að faraldur væri í uppsiglingu m.a. í gegnum tengsl sín við Anthony Fauci sóttvarnalækni Bandaríkjanna.

Hann segir að viðbrögð heimsins, þó þau hefðu komið seint, hefðu verið heilt á litið góð um leið og stjórnvöld voru tilbúin til að fylgja ráðleggingum vísindamanna. En hann leggur áherslu á að við vorum líka heppin. Við vorum heppin að það var kórónuveira sem olli faraldrinum því vísindamenn höfðu reynslu af slíkri veiru m.a. eftir MERS faraldurinn. Við vorum líka heppin að dánartíðni vegna COVID er ekki mjög há og að veiran lagðist almennt ekki þungt á börn.

En kraftaverkið í þessum faraldri var án efa bólusetningarnar. Við vorum heppin að tilraunir með mRNA bóluefni voru komnar nógu langt til að hægt var að nýta þá tækni í bóluefnaframleiðslu nánast undir eins. Ef þú fékkst Pfizer eða Moderna þá fékkstu mRNA bóluefni. Í þessu myndbandi frá 2020 talar Bill um muninn á mRNA bóluefnum og öðrum gerðum.

Til að undirstrika hversu miklu grettistaki var lyft við gerð COVID bóluefnanna nefnir hann kíghósta sem dæmi. Það liðu 80 ár á milli þess að kíghósti uppgötvaðist og þangað til búið var að bólusetja helming heimsins gegn sjúkdómnum. Það tók 1 ár að bólusetja helming heimsins gegn COVID eftir uppgötvun veirunnar. Í bókinni minnir Bill lesendur á að við gætum ekki verið jafn heppin í næsta sinn.

Undirbúum okkur eins og við séum að fara í stríð

“Útbreiðsla er óumflýjanleg en heimsfaraldur ekki” er lausleg þýðing á tilvitnun í faraldsfræðinginn Dr. Larry Brilliant og lýsir megininntaki bókarinnar. Það er ekki hægt að koma algjörlega í veg fyrir að sjúkdómar blossi upp en það er hægt að koma í veg fyrir að þeir ferðist um heiminn og valdi glundroða. Að mati Bill ætti heimsbyggðin að undirbúa sig undir heimsfaraldra alveg eins og hún býr sig undir eldsvoða eða stríð. Þessi undirbúningur felst t.a.m. í því að:

  • Setja saman teymi sem hefur þann eina tilgang að fyrirbyggja faraldra
  • Fylgjast með þróun sjúkdóma með gögnum og prófum
  • Styrkja heilbrigðiskerfið á öllum stigum, en sérstaklega heilsugæsluna
  • Æfa viðbrögð við faraldri

Og það allra mikilvægasta í þessu: Setja meiri pening í málefnið. Bill telur að málaflokkurinn hafi verið fjársveltur vegna þess hversu fjarlægt það var í hugum fólks að veirusjúkdómur myndi ógna allri heimsbyggðinni. En hann minnir réttilega á að smitsjúkdómur af náttúrulegum orsökum er ekki eina ástæða þess að við ættum að undirbúa okkur því næsti faraldur gæti verið af mannavöldum.

Á Gates Notes eru greinar unnar úr bókinni um nokkur af þessum undirbúningsatriðum.

Íslendingar stóðu sig vel

Bókin er skrifuð með hinn almenna lesanda í huga og Bill gerir sitt besta til að útskýra flókin hugtök og nota einföld dæmi. Það væri fróðlegt að vita hvað sérfræðingum á sviði sóttvarna og faraldsfræði finnst um bókina og hvort þeim finnist það sem Bill leggur fram vera raunhæft. Hann er augljóslega bjartsýnismaður (og lýsir sjálfum sér þannig) og það er auðvelt að hrífast með honum.

Ég held að allt áhugafólk um smitsjúkdóma, faraldsfræði og lýðheilsu gæti haft gaman af lestri bókarinnar. Það er t.d. stiklað á stóru um sögu bóluefna og minnst er á Maurice Hilleman, sem þróaði MMR bóluefnið, og var fjallað um í útvarpsþættinum Í ljósi sögunnar.

Hægt er að gagnrýna Bill Gates fyrir ýmislegt og sitt sýnist hverjum um viðskiptahætti hans í árdaga Microsoft. En mikilvægi framlaga hans og Bill and Melinda Gates Foundation til mannúðarmála seinustu árin tel ég nokkuð óumdeilanlegt. Bill tíundar það í bókinni hvað sjóðurinn hefur fjármagnað á sviði hnattrænnar heilsu sem er áhugavert að lesa en óþarfa upplýsingar í meginhluta bókarinnar að mínu mati. Slíkt færi betur í viðauka.

Þó að faraldurinn hafi verið hryllingur er auðvelt að fyllast þakklæti við lestur bókarinnar. Ekki einungis fyrir bóluefnin heldur líka fyrir viðbrögð Íslands því miðað við lýsingar Bill á því hvað teljast “góð” viðbrögð við faraldrinum (prófa sem flesta, beita sóttkví og einangrun, nota grímur og bólusetja) stóðum við Íslendingar okkur afskaplega vel.

Megi COVID verða seinasti heimsfaraldurinn.

 

Lestu þetta næst