Skrifstofublókin og svartidauði

Þegar Auður Haralds sendir frá sér nýja bók sest maður upp í stólnum og bíður spenntur eftir að komast yfir eintak af bókinni. Hvað er drottinn að drolla heitir nýja bókin, sú fyrsta í 30 ár. Auður sló í gegn á sínum tíma með bókunum um Elías og Hvunndagshetjunni. Stíll hennar er fullur af húmor og kaldhæðni. 

Hin miðaldra Guðbjörg

Nýjasta bókin fjallar um Guðbjörgu, miðaldra skrifstofustarfsmann sem gerir fátt meira spennandi en að sækja þrjár bækur á bókasafninu á föstudögum og lesa heima um helgar. Hún er eiginlega afskaplega sorglegur karakter. Einmana, en þó ekki. Hún er sátt við sitt eftir að hafa prófað margt. Hún er með eindæmum kaldhæðin, sem veldur því að lesandinn flissar kröftulega inn á milli.

 

Aftur til fortíðar

Eitt föstudagskvöldið slysast Guðbjörg til að taka rangan poka með sér heim af bókasafninu. Í stað glæpasagna og rómansbóka tekur hún fræðibækur um svartadauða og aðrar drepsóttir. Guðbjörg verður veik um kvöldið og missir meðvitund. Hún vaknar í myrkvuðu herbergi og er upp frá því kölluð Elizabeth. Sem er að sjálfsögðu allt saman mjög undarlegt og kolrangt nafn. Þetta gefur Auði að sjálfsögðu tækifæri til að hrúga út gommu af skotum á heilbrigðiskerfið, benda á alla vankanta þess og geggjunina við einkavæðingu þess. Til dæmis er maturinn hrikalegur!

 Það kemur svo í ljós að Guðbjörg er ekki lengur á tuttugustu og fyrstu öldinni, heldur er hún lent á fjórtándu öld í Englandi, nánar tiltekið 1348. Árið sem svartidauði gekk yfir landið. Hefst þá ævintýrið með fjöldamörgum tilvísunum út og suður, kaldhæðnum bröndurum og vangaveltum. Hvað gerir manneskja úr nútímanum þegar hún lendir á fjórtándu öld?

Grípandi lestur

Ég skemmti mér mjög vel við að lesa bókina Af einhverjum ástæðum óskaði ég þess af og til að ég væri í sumarbústað við lesturinn, það hefði verið fullkomið. Þetta er svona bók sem maður vill gleypa í sig í einum bita með rauðvínsglas við höndina (af ástæðum sem koma fram í bókinni, Elizabeth er heldur blaut). Auður hefur einstakt lag á að skrifa bráðfyndinn texta sem rígheldur lesandanum við efnið. Ég viðurkenni þó að þegar Guðbjörg var fyrst komin til fortíðar þótti mér hún helst til fattlaus um stöðu mála og uppgötvun hennar á aðstæðum sínum langdregin. En Auður bætti mér það upp og rúmlega það með hnyttnum og skemmtilegum athugasemdum um hreinlæti fyrr á tímum. Það er nefnilega ekkert auðvelt að sitja á þekkingu sinni þegar maður stendur frammi fyrir óþrifnaði fyrri alda. Auður nefnir hvergi Covid í bókinni, sem kom mér á óvart í ljósi ný afstaðins faraldurs (sem er svo kannski ekki búinn). Svarið kom fram í viðtali við Auði, en handritið að bókinni er víst skrifað fyrir nokkru síðan.

 

Hvað er drottinn að drolla? er bráðskemmtileg skáldsaga frá Auði Haralds sem hentar fullkomlega inn í sumarfríið. Bækur af þessari tegund koma ekki oft út eftir íslenska höfunda. Bókin er lauflétt lesning stútfull af húmor og skemmtun.

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...