Ég eignaðist mitt fyrsta barn í byrjun janúar og reyndi að vera ekki með allt of miklar væntingar fyrir fæðingarorlofinu. Maður veit að sjálfsögðu ekkert hvað maður fær í hendurnar, barnið getur verið veikt, óvært, með kveisu, oft lasið og lengi má telja. Hún Rebekka Sif, vinkona mín og aðstoðarritstjóri hér á Lestrarklefanum var mér þó ákveðin fyrirmynd því hún hafði eignast barn á meðan ég var ólétt og sett mér gott fordæmi með sínum lestri í fæðingarorlofinu. Ég ákvað því að setja mér það markmið að ef aðstæður myndu leyfa ætlaði ég að lesa meira í orlofinu en horfa á sjónvarp, og viti menn þetta hefur tekist að mestu leyti. Þessi pistill er því ætlaður þeim sem vilja lesa í orlofinu sínu og eru þetta misgóð ráð frá mér til að láta það gerast. Ég tek skýrt fram að lestur er ekki enn eitt sem að á að fá samviskubit yfir að hafa ekki sinnt í fæðingarorlofi, það er alveg nóg að passa upp á krílið sitt og sjálfan sig!
1. Hljóðbækur
Ég hafði lítið hlustað á hljóðbækur áður en fæðingarorlofið hófst. Ég átti það til að missa þráðinn við að hlusta á bækur því ég var svo oft að gera eitthvað annað í leiðinni og fann að þessi leið til að njóta bóka átti ekkert allt of vel við mig. Þetta breyttist í fæðingarorlofinu. Ég byrjaði að hlusta á bækur þegar ég var að gefa lengi brjóst og þetta var góð leið til að njóta stundarinnar, ég var ekki að gera neitt á meðan og barnið truflaðist lítið. Ég hlustaði til að byrja með á smásögur eftir Agöthu vinkonu mína Christie og gat spólað til baka ef ég missti þráðinn. Þegar ég byrjaði að fara í langa göngutúra með nýburann sem hjálpuðu mikið við daglúrana en kröfðust þess að ég yrði eiginlega á stöðugri hreyfingu komu hljóðbækurnar líka sterkar inn. Þá hlustaði ég á glæpasögur Ragnars Jónassonar sem voru spennandi en ekki allt of ljótar (maður getur nú verið viðkvæmur á þessum tíma) og bækur Marian Keyes sem eru mjög fyndnar og ég skrifaði pistil um snemma í orlofinu. Finndu bara þá tegund af hljóðbók sem hentar þér. Þú vilt ekkert endilega hlusta á sömu bækur og þér finnst gaman að lesa á pappír.
2. Ekki gagnrýna þinn eiginn lestur!
Flestar konur sem ég þekki hafa viðurkennt að horfa á heilalaust sjónvarspefni í fæðingarorlofinu, t.d. Grey’s Anatomy, Desperate Housewives eða Law and Order SVU. Af hverju þarf maður að lesa háfleygar bækur á þessum tíma? Það er nákvæmlega engin ástæða fyrir því.
3. Finndu nýja seríu og tapaðu þér í henni
Ég byrjaði að lesa Sjö systur seríuna í fæðingarorlofinu og er núna að lesa fimmtu bókina. Þær eru allar yfir 600 bls á lengd en stórskemmtilegar og mjög auðvelt að tapa sér í þeim. Ég fór að skipuleggja baðferðir um leið og kærastinn minn kláraði vinnuna og fékk þá klukkutíma óáreitt til þess að svelgja í mig efnið. Seríur eru góð leið til að halda sér við í lestrinum!
Ef þig langar að hlæja yfir Sophie Kinsela, verða ástfangin með Jenny Colgan, eða týnast í heimi Dan Brown, gerðu það þá án samviskubits!
4. Rafbækur
Ef þú vilt lesa fyrir svefninn þegar barnið þitt er sofnað er baklýst Kindle mjög sniðug græja. Flestir svefnráðgjafar mæla með kolniðamyrkri fyrir barnið á nóttunni og meðan að þið deilið herbergi er þetta góð leið til að geta lesið. Þú þarft ekki að lesa mikið í einu en það er ósköp notalegt að lesa sig í svefn.
5. Endurlestu uppáhalds barnabækurnar þínar
Það er mælt með því að lesa bækur fyrir börn áður en þau fara í lúra og nætursvefn. Þau skilja ekki mikið ennþá en njóta þess að hlusta á foreldra sína og skoða myndir. Þetta þarf ekki að vera leiðinlegt fyrir þig, heldur einmitt skemmtilegt tækifæri til að endurnýja kynnin við gömlu barnabækurnar sem þú elskaðir. Ef þú ert heppin/n eins og ég þá geymdu foreldrar þínir einhverjar af bókunum þínum og þú getur skoðað þær.
6. Farðu á bókasafn
Bókasöfn eru dásamlegir staðir og meðal fárra staða í dag sem hægt er að fara á án þess að ætlast sé til þess að maður eyði pening. Oft bjóða bókasöfn upp á kaffi og því er tilvalið að labba með barn í lúr þangað, tylla sér og drekka kaffi á meðan maður les bækur og finnur jafnvel næstu bók til að lesa!
7. Lestu á meðan barnið sefur
Það er mjög freistandi að sinna heimilisverkum meðan barnið hvílir sig, sérstaklega ef maður veit að lúrinn er langur. Það er eins og það þurfi stanslaust að setja í þvottavél, taka til eða ganga frá úr uppþvottavélinni þegar maður er heima með barn. Ég næ sjaldan að fylgja ráðinu um að sofa meðan barnið leggur sig enda kippist ég alltaf til ef hlustunartækið pikkar upp eitthvert hljóð í kílómetra radíus. En til þess að hvílast á meðan barnið leggur sig hef ég verið mjög dugleg að leggjast upp í sófa með góða bók, a.m.k. fyrir einn lúr á dag. Það er gott að hvíla sig á meðan barnið sefur ef maður getur og húsverkin geta alveg beðið. Auka bónus við lestur á þessum tíma er að stundum dottar maður í fimm mínútur og endurnærist.
8. Stuttar bækur
Ef þú ert þreytt en þig langar til að lesa er upplagt að lesa styttri bók. Ljóðabækur eru oft stuttar og auðlesnar en skilja mikið eftir sig. Frábærar ljóðabækur um móðurhlutverkið eru t.d. Mamma þarf að sofa eftir Díönu Sjöfn Jóhannsdóttur og Þagnarbindindi eftir Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur. Smásögur eða nóvellur eru sömuleiðis frábærar á þessu tímabili lífsins.
9. Skemmtilegar bækur
Nátengt ráði númer tvö en mikilvægt að undirstrika engu að síður. Það á að vera gaman að lesa, sérstaklega þegar man hefur ekki mikinn tíma til lesturs. Fæðingarorlof er frábær tími til að lesa fyndnar minningabækur uppistandara, endurlesa Harry Potter eða leyfa sér að lesa bráðskemmtilegan sumarsmell. Þetta er ekki tíminn til að lesa það sem þér finnst leiðinlegt. Raunar er aldrei rétti tíminn fyrir það!
10. Lestu texta
Horfðu á einhverja frábæra skandinavíska seríu: Skam, Borgen, Broen, Exit – listinn er endalaus. Það telst alveg með að lesa texta og svo er man að æfa dönskuna á meðan. Bónus stig fyrir það!