The Seven Sisters eftir Lucindu Riley er fyrsta bókin í sjö bóka seríu höfundarins um D’Aplièse systurnar. Bókin kom fyrst út á ensku árið 2014, en kom nýverið út í íslenskri þýðingu Valgerðar Bjarnadóttur. Bókaserían hefur slegið í gegn út um allan heim og sjónvarpsréttindi hafa verið seld og vonandi er sjónvarpssería í vændum. Frá því að íslenska þýðingin kom út í lok síðasta árs hafa bækurnar notið vaxandi vinsælda hér á landi og má líkja áhuganum á bókunum við áhugann á vinkonubókaseríu Elenu Ferrante fyrir nokkrum árum síðan; enda þekkja það flestir lesendur hversu skemmtilegt er að sökkva sér ofan í skemmtilega bókaseríu. Hér verður einblínt á fyrstu bókina, en við hjá Lestrarklefanum höldum svo áfram að lesa seríuna.

Heimakæra Maia

Í þessari fyrstu bók er sögusvið bókaseríunnar sett upp. Bókin segir eins og titillinn gefur til kynna frá systrum, en þær eru sex, ekki sjö, sem eru allar nefndar eftir stjörnum í stjörnuþyrpingunni Sjöstirninu. Það er margt sveipað dulúð í lífi systranna, meðal annars af hverju þær eru ekki sjö. Allar voru þær ættleiddar af hinum ríka Pa Salt og aldar upp í kastalanum Atlantis á bökkum Genfarvatns. Systurnar, sem eru milli tvítugs og þrítugs, sameinast allar sex í Atlantis eftir að þeim er tilkynnt að þeirra ástkæri faðir sé látinn. Hann hefur skilið eftir vísbendingar um uppruna þeirra allra en þær koma frá öllum heimshornum. Í þessari fyrstu bók segir frá hinni heimakæru Maiu, eina systirin sem settist að í Atlantis. Hún ákveður að kanna uppruna sinn og liggur leið hennar til Brasilíu. Inn í sögu hennar blandast saga Izabelu á þriðja áratug síðustu aldar, en hún tengist meðal annars byggingu Krists frelsara styttunnar í Ríó.

Skemmtileg formúla

Hver bók í seríunni fylgir einni systranna (í aldursröð) og einhverri persónu sem tengist uppruna þeirra og eru sagnahæfileikar Riley miklir. Þetta er að sjálfsögðu ansi ævintýralegt sögusvið en mér finnst formúlan sniðug og hafði gaman að því að lesa um Maiu í leit að sjálfri sér sem og sögu Izabelu, en það er sögulegi hluti skáldsögunnar þar sem ýmsar sögulegar persónur koma við sögu. Riley vann mikla rannsóknarvinnu og tekst vel að grípa tíðaranda þriðja áratugar síðustu aldar í París, sem og að mála skemmtilega mynd af Ríó og fær mann langa til að ferðast til Brasilíu.

Grípandi saga

Þrátt fyrir lengd bókarinnar var ég mjög fljót að lesa hana, hún greip mig alveg sem gerði það að verkum að ég keypti næstu tvær bækur í seríunni áður en ég kláraði þessa. Mér þótti saga Izabelu á vissan hátt áhugaverðari en Maiu, það er gefin ástæða fyrir því, en Maia hefur í raun ekki lifað lífinu lifandi og var að því leyti smá flöt sem persóna, að mínu áliti. Ég hafði engu að síður gaman að því að fylgja henni á ferðalagi hennar um Brasilíu.

Þó að lesandinn fræðist um uppruna Maiu standa margar spurningar eftir um systurnar og Pa Salt við lok bókarinnar, því er ég mjög spennt að halda áfram með seríuna og sjá hvernig Riley leysir lausa enda og hvert hún leiðir okkur næst.

Lestu þetta næst

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...

Þú ert Blú!

Þú ert Blú!

Ég er mætt á söngleikinn Vitfús Blú og vélmennin. Ljósin kvikna og þrjár verur stíga á mitt sviðið. Þetta eru örlagaskvísurnar sem segja og syngja söguna með ákveðni og stæl. Sagan fjallar um nýjan heim, árið er 3033 og vélkvendið Algríma Alheimsforseti ætlar sér að taka yfir heiminn. En samkvæmt fornum spádómi eru örlög mannkynsins í höndum hins unga Vitfúsar Blú. Hann er eins konar messías sem þarf að bjarga öllum, þrátt fyrir að vera frekar klaufskur og einfaldur. Það er augljóst að verkið og sýningin er unnin með miklu hjarta alveg frá fyrstu drögum, mikil orka streymir frá leikhópnum og leikgleði einkennir verkið.