Lestu þetta áður en þú skoðar instagram

Penni: Hugrún Björnsdóttir

Náði þessi fyrirsögn athygli þinni áður en þú fórst á samfélagsmiðil du-jour? Frábært!

Mig langar nefnilega að hjálpa þér að lesa meira. Ég veit að þú vilt það. Ég veit að bækurnar á náttborðinu þínu horfa á þig ásökunaraugum á hverju kvöldi þegar þú smellir aftur á “Next episode” á Netflix. En hvar eigum við að byrja?

Tímastjórnun.

Já, þú last rétt. Tímastjórnun. Leiðinlegt orð yfir það mikilvægasta sem þú gerir.

Ef við tökum ekki stjórn á tímanum okkar þá mun einhver annar gera það fyrir okkur. Við munum ekki ná markmiðum okkar. Og viljum við gera það í ljósi þess að tími okkar á þessari jörð er því miður takmarkaður?

Það er eðlilegt að fá áhuga á tímastjórnun við tímamót, eins og t.d. við fæðingu barns, stöðuhækkun í vinnunni o.s.frv. En í rauninni er tímastjórnun alltaf mikilvæg.

Þegar ég segi að tímastjórnun sé leiðinlegt orð þá meina ég að það virkar fælandi fyrir suma. Það er vélrænt og eilítið innantómt. Bækur um tímastjórnun og markmiðasetningu eru oft markaðssettar fyrir stjórnendur fyrirtækja. Því gæti hinum almenna borgara fundist viðfangsefnið óspennandi. En tímastjórnun er einfalt hugtak sem á erindi við alla.

Tímastjórnun snýst um að taka völdin yfir þann tíma sem maður hefur úr að moða og nýta hann vísvitandi í það sem maður kýs.

Tíminn sem við höfum úr að moða er mismikill yfir ævina. Þegar á manni hvílir mikil ábyrgð og miklar skyldur er minni frítími aflögu. En þeir sem hafa meiri tíma á sínum höndum þurfa líka á tímastjórnun að halda. Þó þú hafir meiri tíma aflögu gætirðu líka lent í þeirri gryfju að eyða honum í hangs.

Áreitið sem dynur á okkur í nútímasamfélagi er langt umfram það sem mannsheilinn þróaðist til að takast á við. En á sama tíma líður okkur eins og það sé lífsins ómögulegt að rísa upp úr feninu. Það er ekki að ástæðulausu. Fyrirtæki eins og t.d. samfélagsmiðlafyrirtækin og tölvuleikjafyrirtækin ráða til sín sérfræðinga í mannlegri hegðun til að þróa vörur sínar þannig að þær séu eins ávanabindandi og mögulegt er. Afkoma þessara fyrirtækja byggist á athygli okkar. Ef við hættum að beina athygli okkar að vörum þessara fyrirtækja þá deyja þau. Vandamálið er að þessir sérfræðingar nýta mannlega veikleika og þrár til að gera vörurnar ávanabindandi.

En þú vissir það er það ekki.

Viltu hafa tíma til að lesa fleiri bækur?

Ef svarið við þessari spurningu er já þá ertu á réttum stað. Þú ert með hið göfuga markmið að lesa fleiri bækur og ég fagna því. En hvernig förum við að því? Með því að lesa bækur um að hafa tíma til að lesa fleiri bækur.

Þarna náði ég þér!

Hér eru bækur sem ég mæli með til að ná stjórn á tíma þínum og setja markmið um það sem þú vilt gera, eins og að lesa fleiri bækur:

Getting Things Done (GTD)

Öndvegisrit á sviði tímastjórnunar. Ég aðhyllist þessa aðferð og nota skipulagsverkfærið todoist sem byggir á þessari aðferðafræði David Allen í mínu persónulega lífi.

Getting Things Done Workbook

Fyrir þá sem hafa ekki tíma til að lesa 300 blaðsíðna bók David Allen hér að ofan þá mæli ég með styttri hagnýtari útgáfunni.

Eat That Frog!

Í stuttu máli snýst Eat That Frog aðferðafræðin um að klára erfiðasta verkefni dagsins fyrst, þ.e. að borða froskinn strax því þá er það búið. Í bókinni er fjallað um fleiri góðar aðferðir eins og 80/20 regluna og ABCDE aðferðina. Bókin hefur líka komið út á íslensku undir titlinum Borðaðu froskinn.

Digital Minimalism

Ekki beinlínis tímastjórnunarbók en hér færir Cal Newport okkur afar sannfærandi leiðbeiningar um hvernig hægt er að eiga í heilbrigðara sambandi við tækin í lífi okkar til að skapa rými fyrir annað, eins og t.d. að lesa prentaðar bækur.

Lestu meira

Hinseginn leslisti 2022

Hinseginn leslisti 2022

When I Grow up I Want to be a List of Further Possibilities (2017) Chen Chen er kínversk-bandarískt, samkynhneigt ljóðskáld. Hann fæddist árið 1989 í Kína en flutti sem barn til Bandaríkjanna með foreldrum sínum. When I Grow up I Want to be a List of Further...