Írskur húmor með alvarlegum undirtóni: Bækur Marian Keyes

Ástarsögur geta verið frábær lesning, þær eru oft auðlesnar og skemmtilegar en á sama tíma getur alvarlegur undirtónn verið í bókunum: fíkn, heimilisofbeldi, brothætt sambönd og fleira er tæklað samhliða rómantískri sögu. Hin írska Marian Keyes hefur verið sérstaklega lofuð fyrir sínar bækur sem eru á köflum sprenghlægilegar en takast einnig á við samfélagsleg vandamál.

Undirrituð hafði áður lesið nokkrar bækur eftir Marian Keyes en ákvað að endurnýja kynnin í fæðingarorlofinu. Ég hef ekki verið mikið fyrir hljóðbækur en hef neyðst til að aðlaga mig að forminu, enda fá bókmenntaform betri á meðan á brjóstagjöf eða göngutúrum stendur. Bækur Marian Keyes eru skemmtilega lesnar af írskum konum í útgáfunum á Storytel og því óhætt að mæla með bókum hennar hvort sem það er í hljóðbókarformi eða á prenti!

Marian Keyes sem fædd er árið 1963 hóf rithöfundaferilinn árið 1995 með bókinni Watermelon en það er einmitt sú bók sem varð fyrst fyrir valinu hjá mér í orlofinu. Kannski hafði það eitthvað með það að gera að bókin fjallar um tæplega þrítuga nýbakaða móður, Claire, sem lendir í algjörri martröð, maðurinn hennar skilur bókstaflega við hana á fæðingardeildinni í London. Hún hrökklast heim til fjölskyldunnar á Írlandi og reynir að byggja sig upp á ný: fyrst með áfengi (hún tekur fram að barnið er ekki á brjósti!) og svo með því að gefa ástinni annan séns. Bókin er sú fyrsta sem fjallar um Walsh fjölskylduna en í henni eru fimm systur og koma þær við sögu í fleiri bókum Keyes.

Ári eftir Watermelon gaf Keyes úr Lucy Sullivan Is Getting Married sem vakti mikla athygli en þá bók hef ég ekki enn lesið. Árið 1998 gaf Keyes hins vegar út Rachel’s Holiday sem mér þótti afar áhugaverð bók þegar ég las hana fyrir nokkrum árum. Bókin segir frá Rachel Walsh (einmitt það, systir Claire) sem býr í New York en á að fara í meðferð í Dublin á kostnað fjölskyldunnar sem hefur þungar áhyggjur af henni. Hún er til í meðferððina, enda hefur hún heyrt að þetta sé algjör lúxus að vera á meðferðarheimilinu, og álítur þetta kærkomið frí, svona mikil er afneitun hennar á raunveruleikanum. Keyes hóf rithöfundaferilinn eftir meðferð vegna áfengisvanda og því ljóst að hún er á heimavelli hér. Bókin sló í gegn enda mjög fyndin þrátt fyrir þungt viðfangsefni.

Sushi for Beginners eftir Keyes kom út árið 2000 og las ég hana fyrir allmörgum árum. Bókin segir frá þremur konum: Lisu Edwards, Ashling Kennedy og Clodagh Kelly í Dublin sem allar eru á barmi hamingjunar. Ég viðurkenni að ég man ekki mikið eftir söguþræðinum en man eftir að hafa skemmt mér við lesturinn.

 

Að lokum vil ég nefna bókina sem ég er að hlusta á um þessar mundir Anybody out there sem kom út árið 2007 og segir frá Önnu Walsh (jebb, enn önnur systir) sem býr í New York en er í Dublin að safna kröftum líkamlega eftir að hafa lent í einhverju áfalli. Lesandinn veit hvorki hvað gerðist, né hvar eiginmaður hennar Aidan er niðurkomin.

Mér fannst gaman að heyra enn og aftur af Walsh fjölskyldunni, enda kynnist maður persónunum betur við hverja bók og fannst efnistökin áhugaverð, vonandi heldur bókin áfram að vera skemmtileg, en ég er allavega mjög forvitin að vita hvað í ósköpunum gerðist.

Þetta eru bara nokkrar af þeim sextán bókum sem Marian Keyes hefur sent frá sér síðasta aldarfjórðung en höfundurinn er einhver sem allir sem lesa ástarsögur verða að kynna sér, írski húmorinn er aldrei langt undan og auðvelt að gleyma sér í Dublin með persónunum.

 

 

Lestu þetta næst

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...