Gífurleg stemning ríkti þegar ég gekk inn í Borgarleikhúsið föstudaginn 23. september, á frumsýningarkvöldi gamanleiksins Bara smástund! eftir Florian Zeller, en verkið er sett á svið í nýrri glimrandi þýðingu rithöfundarins Sverris Norlands. Lifandi harmonikkutónlist fyllti rýmið ásamt háværum skvaldri spenntra leikhúsgesta. Þegar komið var inn í sal var setið í hverju einasta sæti og áhorfendur biðu eftirvæntingarfullir eftir að fá að hlæja sig máttlausa.
Gefðu mér bara smástund
Leikritið hefst á innkomu hjónanna Michel og Nathalie. Þorsteinn Bachmann í hlutverki Michel, klæddur kóngabláum, örlítið of stórum, jakkafötum, veður inn á sviðið en Sólveig Arnarsdóttir fylgir honum í hlutverki Nathalie konu hans í fjólubláum silkislopp. Þau byrja um leið að fleygja fram hröðum textanum en það vantar svolítið upp á orkuna á sviðinu til að byrja með. Þau standa þarna tvö fyrir framan heilan sal sem bíður eftir að þau segi eða geri eitthvað fyndið. Það tekur (bara) smástund fyrir þau að ná upp orkunni og þá fara brandararnir loksins að lenda og hlátur heyrist á rangli í áhorfendaskaranum. Hlátrasköllin stigmögnuðust svo með hverri senunni.
Í upphafi leikrits er það Nathalie sem lýsir ofurdramatískt yfir að það sé svo margt sem liggi á henni og hún þurfi að tala um. Samskipti hjónanna eru kostuleg en þau eru bæði erkitýpur út í gegn. Zeller nýtir þessar rótgrónu erkitýpur til að skapa farsakenndar aðstæður og deila á þessar birtingarmyndir. Fjölskyldufaðirinn Michel gæti ekki verið sjálfselskari og er það skýrt undirstrikað með heiti plötunnar sem hann þráir svo heitt að hlusta á, Me, myself and I. Honum gæti ekki verið meira sama um konu sína og son, en í eina skiptið í leikritinu sem hann kemst í uppnám er það í tengslum við svik besta vinar hans.
„Samskipti hjónanna eru kostuleg en þau eru bæði erkitýpur út í gegn. Zeller nýtir þessar rótgrónu erkitýpur til að skapa farsakenndar aðstæður og deila á þessar birtingarmyndir.“
Það sem heldur öllu verkinu saman er grátlega einfalt atriði, Michel hefur loksins fundið vínylplötuna Me, Myself and I eftir Niel Youart sem hann hefur leitað áratugum saman í öllum plötubúðum Parísar. Hann þarf bara smástund til að hlusta á plötuna í ró og næði, en þá verður hann „hamingjusamur maður“. En það er alltaf eitthvað eða frekar einhver sem truflar hann.
Erkitýpur sem koma á óvart
Ég viðurkenni að ég var mjög spennt að sjá Vilhelm Neto á sviði Borgarleikhússins en skyndilega varð ég svolítið smeyk í sætinu mínu þegar hann kom inn á sviðið í hlutverki pólska píparans Léos og var látinn tala bjagaða íslensku til að undirstrika þessa hvimleiðu stereótýpu. Það stefndi allt í að hér væri verið að setja á svið fordómafulla birtingarmynd persónu en svo var sko aldeilis ekki. Óheppni píparinn Léo var ekki allur sem hann var séður og uppskar Villi Neto mikil hlátrasköll fyrir frammistöðu sína að en ég læt ekki meira í ljós varðandi það.
Sigurður Þór var stórkostlegur í hlutverki sonarins Sébastien eða Fucking Rat eins og hann vildi láta kalla sig. Margir hlóu sig máttlausa þegar hann kom inn á sviðið og öskraði til skiptis á foreldra sína. Í síðasta hluta leikritsins fer hann alveg hamförum á sviðinu þegar hann gjörsamlega missir það og það sést loksins í gegnum þetta svarta og harða yfirborð.
Jörundur Ragnarsson stóð sig vel sem óþolandi nágranninn Pavel, hann var alveg passlega pirrandi og tókst að láta áhorfendur hlæja með því að vera aldrei á sömu blaðsíðu og hinir, sífellt að endurtaka atburðarásina og fara gjörsamlega í taugarnar á Michel sem reyndi stöðugt að losna við hann úr íbúðinni.
Sólveig Guðmundsdóttir var flott í hlutverki Elsu en það kom mér á óvart að hin kvenpersónan í leikritinu hagaði sér nákvæmlega eins, semsagt fengu áhorfendur tvær eins birtingarmyndir af konum á meðan farið var yfir víðari völl karlamegin. Það var svolítið sorglegt að sjá en ó jæja.
Líf að hruni komið
Í síðasta hluta verksins á Bergur Þór innkomu sem Pierre og virðist hans eina hlutverk í leikritinu að láta lúberja sig og fá áhorfendur til að hlæja að óförum hans. Og það var vel hægt að hlæja að þeim, það er auðvitað ekki verið að róa mikið á dýptina hér en samt sem áður kom mér þetta örlítið á óvart. Þegar hingað er komið við sögu er mjög táknrænt að horfa á leikmyndina hrynja og sviðið fyllast af kaos á meðan bæði hjónaband og líf Michels er að fara til fjandans. Virkilega vel gert hjá leikmyndahöfundinum Helgu I. Stefánsdóttur og leikstjóranum Álfrúnu Helgu Örnólfsdóttur en uppbygging og ris leikritsins virka fantavel.
Búningarnir eru einstaklega fallegir að mínu mati, hver persóna fær sinn lit og eru þau flest alltaf í sama búningnum, fyrir utan Nathalie sem skiptir um klæði í hvert skipti sem hún gengur út af sviðinu. Ég hefði viljað að raunveruleg tónlist hefði spilað stærra hlutverk í uppsetningunni þar sem atburðarásin hverfist í raun í kringum að fá að hlusta á tónlist. Tónlist eða einhversslags hljóðheimur hefði jafnvel aðstoðað leikarana við að halda uppi orku á sviðinu en oftar en ekki voru tveir leikarar einir á sviðinu, það var örsjaldan að það voru þrír eða fleiri.
Hrakföll og hláturrokur
Bæði mér og manninum mínum tókst að skemmta okkur konunglega á þessari sýningu. Það voru þó augnablik þar sem orkan féll og hláturinn hætti að duna í salnum, en leikararnir náðu alltaf orkunni upp aftur. Þorsteinn stóð sig virkilega vel í hlutverki Michel og var það á herðum hans að halda uppi sýningunni nánast allan tímann. Annars fannst mér Sigurður Þór standa upp úr, hann var svo tilbúinn til að ganga alla leið sem Sébastien að innkomur hans voru alltaf stórfyndnar.
Bara smástund! er tilvalin skemmtun fyrir þau sem vilja gleyma sér eina kvöldstund og hlæja yfir hrakföllum sjálfselskra og yfirgengilegra persóna. Leiktexti Florian Zeller er snarpur og kómískur og honum tekst að lauma inn örsmárri samfélagsádeilu sem á enn við í dag þó að yfir heildina hafi leikritið það augljósa markmið að skemmta og vekja upp hlátturrokur áhorfenda.
Höfundur: Florian Zeller
Þýðing: Sverrir Norland
Leikstjórn: Álfrún Helga Örnólfsdóttir
Leikmynd: Helga I. Stefánsdóttir
Leikarar: Þorsteinn Bachmann, Sólveig Guðmundsdóttir, Bergur Þór Ingólfsson, Sigurður Þór Óskarsson, Vilhelm Neto og Jörundur Ragnarsson
Lestu meira
Þú ert Blú!
Ég er mætt á söngleikinn Vitfús Blú og vélmennin. Ljósin kvikna og þrjár verur stíga á mitt sviðið. Þetta eru örlagaskvísurnar sem segja og syngja söguna með ákveðni og stæl. Sagan fjallar um nýjan heim, árið er 3033 og vélkvendið Algríma Alheimsforseti ætlar sér að taka yfir heiminn. En samkvæmt fornum spádómi eru örlög mannkynsins í höndum hins unga Vitfúsar Blú. Hann er eins konar messías sem þarf að bjarga öllum, þrátt fyrir að vera frekar klaufskur og einfaldur. Það er augljóst að verkið og sýningin er unnin með miklu hjarta alveg frá fyrstu drögum, mikil orka streymir frá leikhópnum og leikgleði einkennir verkið.
Víðáttan er uppfull af tómi
Flagsól er nýjasta ljóðabók skáldsins og tónlistarkonunnar Melkorku Ólafsdóttur, sem áður hefur gefið út ljóðaheftin Unglingsljóð og Ástarljóð (2000 og 2004) og ljóðabókina Hérna eru fjöllin blá (2019). Einnig er hún meðlimur Svikaskálda og hefur, ásamt þeim, gefið út...