Blinda Ragnheiður Gestsdóttir

Það var með töluverðri eftirvæntingu sem ég beið eftir nýjustu bók Arndísar Þórarinsdóttur. Hún hefur fyrir löngu skráð sig á listann yfir helstu barnabókahöfunda landsins með bókunum um Nærbuxnaverksmiðjuna, Blokkinni á heimsenda, sem hún skrifaði með Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur, og Bál tímans svo fátt eitt sé nefnt. Bækur Arndísar eru einlægar og oftar en ekki fyndnar. En í Kollhnís slær hún nýjan tón. Hér er það ekki kímnin sem ræður ríkjum.

Sagan segir af Álfi, tólf ára fimleikastrák úr Kópavoginum. Hann er góður vinur, frábær sonur og besti stóri bróðir í heimi. Alveg þangað til mamma og pabbi fá þá flugu í höfuðið að Eiki bróðir hans sé einhverfur og Álfur stelst til þess að heimsækja Hörpu frænku, landsfrægu fimleikahetjuna sem fór á Ólympíuleika með skammarlegum árangri og enginn í fjölskyldunni talar lengur við.

 

Afneitun og ótti

Arndís nýtir styrkleika sína til hins ítrasta í þessari bók. Styrkleikar hennar eru sannfærandi persónusköpun og djúp tenging við söguhetjurnar. Hún á mjög auðvelt með að skapa margvíðar og flóknar persónur og koma öllum þeirra tilfinningum til skila af mikilli dýpt. Hún skrifar á myndrænan hátt svo lesandi á mjög auðvelt með að sjá hluti ljóslifandi fyrir sér í huganum, þótt engar myndir séu í bókinni til að styðja við textann. Arndís tekur okkur í rússíbanareið tilfinninga og það er engin leið að hoppa af í miðri ferð. 

Álfur er áhyggjufullur drengur. Foreldrar hans ganga í gegnum mikið áfall þegar sálfræðingur hjá leikskólanum tilkynnir þeim að Eiki, litli bróðir Álfs sé einhverfur. Þegar áföll ganga yfir fjölskyldur þá verður því miður alltaf einhver útundan. Álfur vill heldur ekki vera til vansa. Svo finnst Álfi heldur ekkert vera að Eika! Hann er reiður út í foreldra sína að trúa því að eitthvað sé að Eika. Hann er jú bara Eiki! Álfur glímir því við margslungnar tilfinningar í gegnum alla bókina. En allan tímann stefnir hann að því að fara í fimleikabúðir í Brasilíu um sumarið. Svo þráðurinn í gegnum bókina er heill og lesandinn heldur með Álfi. 

En fyrst af öllu vill Álfur hjálpa Eika. Og einlæg ást hans á litla bróður sínum skín svo sterkt í gegnum allar síðurnar að ég mana hvern sem er til að lesa bókina án þess að verða snortinn. Það er átakanlegt að upplifa þennan tilfinningarússíbana með Álfi, en á sama tíma er það þroskandi spegill á tilfinningar svo margra barna sem ganga í gegnum áföll með sinni fjölskyldu eða ein.

Til hliðar við söguna af Eika og foreldrum Álfs er sagan af Hörpu frænku, sem enginn úr fjölskyldunni hefur talað við í mörg ár. Álfur veit ekki hvað varð til þess að frænka hans er sniðgengin, en í gegnum þeirra samskipti fer lesandann að gruna að það sé kannski ekki allt með felldu hjá Hörpu. Sem fullorðinn lesandi sér maður fljótt að hún glímir við mikla erfiðleika og mér þætti forvitnilegt að vita hvernig börn lesa úr aðstæðum hennar.

Að vera á einhverfurófinu

Álfur á erfitt með að sættast við greiningu Eika. Að hann sé stimplaður einhverfur. Að Eiki geti ekki gert allt sem hann hefði átt að geta í framtíðinni; orðið forseti, farið út í geiminn eða bara eignast vini. Arndís sýnir fjölskyldu í áfalli á svo sannann og hrikalega berskjaldandi hátt að það var stundum óþægilegt. Hafandi sjálf þurft að aðlaga væntingar til framtíðar barns og ganga í gegnum áfall, þá nær Arndís að lýsa raunveruleikanum óþægilega vel. Arndís nálgast alla umræðu um einhverfuna af virðingu, en hún veigrar sér ekki við að sýna fordómana sem búa í samfélaginu og okkur öllum. Það eru nefnilega fordómar og fáfræði sem fá Álf til að bregðast við eins og hann gerir, sem fá hann til að afneita greiningunni. Og þannig er Eika enginn greiði gerður. Því Eiki er alltaf Eiki, þótt hann sé á einhverfurófinu. 

Ég var algjörlega dolfallin yfir þessari bók. Dýptinni, næmninni og innlifuninni sem Arndís kemur til skila með textanum. Ég las hana á einum degi, náði varla andanum milli blaðsíðna og þjáðist í hljóði með Álfi, sem líður ó svo illa. En það er ljós við enda ganganna, rétt eins og við náum flest öll að vinna okkur í gegnum áföll okkar að lokum. Það tekur bara mislangann tíma. 

Kollhnís er meistaralega unnin hversdagssaga drengs sem spilar á allan tilfinningaskalann, er skrifuð af næmni og virðingu fyrir viðfangefninu. Þetta er hreinlega rosalega vönduð og góð barnabók sem ég vona að rati í hendur allra þeirra sem þurfa hana. Og hinna líka. 

 

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...