Blinda Ragnheiður Gestsdóttir

Blinda er þriðja glæpasaga Ragnheiðar Gestsdóttur en í fyrra kom út Farangur sem naut mikilla vinsælda og þar áður Úr myrkrinu árið 2019.

Áður en Ragnheiður sneri sér að glæpasagnaskrifum var hún þekkt fyrir að skrifa og myndlýsa barna- og ungmennabækur. Ragnheiður er reyndur rithöfundur en fyrsta bók hennar, Ljósin lifna, kom út árið 1985.

Ragnheiður hlaut glæpasagnaverðlaunin Blóðdropann fyrir Farangur en þau eru veitt af Hinu íslenska glæpafélagi og er framlag Íslands til norrænu glæpasagnaverðlaunanna Glerlykilsins. Höfundi var því verðugt verkefni á höndum að fylgja verðlaunabókinni eftir.

Sjóntap og harmur að hefna

Blinda fjallar um Sólveigu, tæplega sextuga konu sem starfar sem arkitekt á eigin stofu. Hún er ekkja með tvö börn, unglingsstrákurinn Dagur býr með henni en dóttirin Vallý er uppkomin og flutt að heiman.

Sagan hefst á því að Sólveig fær þær fréttir frá lækninum sínum að hún sé á hraðri leið með að missa sjónina vegna arfgengs sjúkdóms. Sólveig lítur á sjóntapið sem ákveðna endastöð. Það hreinlega slokknar á lífsvilja hennar. Lesendur fá fljótt að vita að Sólveig hefur harma að hefna. Hún lætur það verða sitt síðasta verk að hefna fyrir glæp sem var framinn mörgum árum áður og hefur haft gríðarleg áhrif á líf hennar.

Sagan gerist á tímum covid, u.þ.b. í miðjum faraldri þar sem bólusetningar eru hafnar en allir eru enn mjög hræddir við að smitast og grímuskyldan er allsráðandi. Sagan er að mestu sögð frá sjónarhorni Sólveigar og að litlu leyti frá sjónarhorni Vallýjar dóttur hennar. Því fær lesandinn að kynnast þeim persónum best.

Sólveig hefur orðið fyrir mörgum áföllum og það er auðvelt fyrir lesanda að finna til með henni. Það er átakanlegt að skyggnast inn í hugarheim manneskju sem hefur gengið í gegnum svona mörg áföll tiltölulega snemma á fullorðinsævinni. Hún er afskaplega döpur og vill ekki þiggja hjálp. Hefur í raun gefist upp og finnst hún ekki hafa neitt val. Þrátt fyrir það lifir hún eðlilegu lífi út á við, eldar kvöldmat fyrir son sinn og fer með börnunum á kaffihús. Innra með sér er hún þó heltekin af hefndarþrá gagnvart manneskjunni sem framdi glæpinn sem hefur mótað líf hennar.

Átakanlegur hugarheimur

Þó lesanda langi stöðugt til að minna Sólveigu á hvað hún hefur mikið til að lifa fyrir, eru tilfinningar hennar skiljanlegar. Persónusköpunin var ágæt, sérstaklega hvað varðar Sólveigu og Vallýju, en mér þótti Dagur síst trúverðugur.

Atburðirnir í sögunni spila vel inn í samtímann þar sem komið er inn á bæði covid og metoo byltinguna. Þeir eru þokkalega trúverðugir fyrir utan ákveðið uppgjör sem á sér stað við sögulok. Það hefði þurft að vinna betur enda mjög þýðingarmikill partur af sögunni. Eins er ég hugsi yfir hvernig bókin muni eldast í ljósi þess hve veigamikið hlutverk covid spilar í sögunni.

Höfundur náði að byggja upp smá spennu með því að enda hvern kafla þannig að mig langaði að vita meira. Þrátt fyrir það er atburðarrásin of hæg fyrir glæpasögu. Sögunni lauk með lausum endum sem hefði þurft að ganga betur frá. Mér fannst ég skilin eftir í lausu lofti.

Blinda er hægur harmleikur með sterku tilfinningaróti aðalpersónunnar sem höfundi tekst að lýsa af mikilli næmni. Sem glæpasaga nær bókin þó ekki flugi. Atburðarrásin hefði þurft að vera spennuþrungnari og viðburðarríkari. Endirinn var of snubbóttur og vakti upp fleiri spurningar en hann svaraði.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...