Blinda Ragnheiður Gestsdóttir

Systkinin Teddi og Nanna eru ákaflega samheldin refasystkin og búa saman í Stóru borg, þar sem öll dýrin á götunum þurfa að berjast um matinn. Þau sækja matinn í stóra ruslagáma fyrir utan kleinuhringjastað. En það eru ekki bara villt dýr sem sækja í ruslagámana, heldur líka heimiliskettir. Og af þeim er Bolla prinsessa sú versta. Í einum bardaganum vill svo óheppilega til að Teddi bítur skottið af Bollu prinsessu. Bolla prinsessa er höfuðpaur kattaglæpagengis. Hættan er því mikil. Teddi og Nanna verða því að flýja reiði Bollu prinsessu og hinna kattanna og stefnan er tekin í Rumpuskóg. 

Rumpuskógur er eftir Nadiu Shireen sem er þekkt í heimalandinu Bretlandi fyrir bráðfyndnar barnabækur sem hún skrifar sjálf og myndskreytir. Rumpuskógur, eða Grimwood, er fyrsta bókin í seríu bóka sem fjalla um systkini Tedda og Nönnu og ævintýri þeirra í Rumpuskógi. 

 

Hröð og lífleg

Shireen segir söguna af mikilli ákefð og með ríflegum skammti af húmor, sem byggir oftar en ekki á óförum annarra eins og er þekkt í breskri barnabókahefð. Teddi og Nanna eru hin klassísku systkini barnabóka nútímans, þar sem systirin er ákveðin og röggsöm og bróðirinn viðkvæmur og rólegur. Saman þurfa þau að aðlagast lífinu í Rumpuskógi, sem veitist Tedda mun auðveldara en Nönnu. Bókin er myndskreytt út í gegn. Hún lítur raunar út eins og refirnir hafi sjálfir handleikið bókina, því á jöðrum síðnanna má sjá fingraför og slettur. Að auki er hægt að fylgjast með sögunni í gegnum myndirnar. 

Rumpuskógur er bók sem svipar mjög til bóka Roald Dahl, þar sem hið illa er algjörlega illt en hið góða sigrar að lokum. Húmorinn er einfaldur og öfgakenndur, þar sem hausar fljúga af persónum og annað þvíumlíkt. Bókin er stundum þvælingsleg og tekur skarpar beygjur sem ég skyldi ekki alveg tilganginn með. En að sama skapi gerir það söguna ófyrirsjáanlega. Lesandinn veit í raun og veru ekki hvert Shireen mun taka hann, en mann grunar allan tíman að það fari allt vel að lokum. Þó það sé tvísýnt á köflum. 

Rumpuskógur er leikandi létt bók, uppfull af húmor og ófyrirsjáanlegum ævintýrum. Bókin er ríkulega myndskreytt með alls kyns uppbrotum og skemmtilegum myndum. Hentar fyrir lesendur á aldrinum 7-12 ára.

 

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...