Dredfúlíur og holupotvoríur!

bronsharpan kristín björg

Hávarður, Maríus og Bartek eru aftur komnir á stjá. Holuopotvoríurnar eru ekki til friðs í steypurörinu og nú þurfa þeir að láta þær hafa það. Eða alla vega komast í gegnum netið sem sett hefur verið rörið. 

Við kynntumst strákunum fyrst í bókinni Holupotvoríur alls staðar, eftir Hilmar Örn Óskarsson. Í fyrri bókini kynnast Maríus og Hávarður Bartek, sem er nýfluttur til Íslands frá Póllandi. Strákarnir þrír eru fullkomnir vinir, allir jafn kvikir og með ríkt ímyndunarafl og til í að lenda í ævintýrum. Þeir eru átta ára galsafullir strákar og mjög uppátækjasamir. Ég hafði eiginlega beðið eftir að fá fleiri ævintýri um strákana þrjá, enda eru þeir virkilega skemmtilegar persónur. 

Í Dredfúlíur flýið! er stutt í jólin, strákarnir ætla að skoða steypurörið aftur. Þeim að óvörum lenda þeir í eftirför! 

Ímyndunaraflið til bjargar

Það er einhver andi yfir bókunum um þremeningana. Hugarheimur strákanna er mjög lifandi og spennandi og þeir eiga auðvelt með að finna ævintýri í hverju horni. Til dæmis gömlum leðurjökkum, sem eru auðvitað ógeðslega kúl! Og geta látið mann fljúga!  Hilmar Örn á auðvelt með að skrifa bráðfyndinn og skemmtilegan texta sem fær bæði börn og fullorðna til að hlæja, samanber lýsingum hans á háttalegi drengjanna eftir að þeir höfðu klætt sig í leðurjakkana. Að auki var stórhlægilegt að lesa um ofurhraðann sem strákarnir geta notað, það þarf bara að pota í naflann í þrjár sekúndur og þá hleypur maður hraðar. Lýsingar eru lifandi og myndrænar og við bætast teikningar Blævar, sem fá mann til að liggja í hláturskasti. Hún hefur einstakt lag á að skapa bráðfyndnar myndir, með aukamerkingu.

Hilmar er mjög leikinn að lifa sig inn í persónur sínar. Þannig eru strákarnir þrír með sterkan persónuleika. Þeir eru þó keimlíkir, því allir eru þeir miklir grallarar. Athygli mína vakti líka málfar strákanna þriggja. Til dæmis er eitthvað “aðal” án þess að vera útskýrt nokkuð frekar. Þetta gerði það að verkum að maður lifði sig enn betur inn í heim strákanna.

Fjölmenningarsamfélagið Ísland

 Í fyrstu bókinni kynntust Hávarður og Maríus Bartek, sem var þá nýfluttur til Íslands frá Póllandi. Þá talaði Bartek enga íslensku, bara pólsku, sem kallaði fram frábærlega fyndin samskipti strákanna á milli. Á endanum reiddu þeir sig að mestu á teikningar, sem gáfu myndlýsingu bókarinnar enn meiri vigt. Lesandinn þurfti líka reglulega að fletta upp þýðingu á setningum aftast í bókinni, sem jók á skemmtunina. Í Dredfúlíur flýið! er Bartek búinn að læra íslensku, en talar hana ekki alveg eins og Maríus og Hávarður. Stundum samt betur eða notar tungumálið á annan hátt. En nú bætist Ófelía við hópinn, og hún talar bara ensku. Til allrar lukku talar Hávarður smá ensku.

Við lásum bókina saman, ég og fimm ára sonurinn, og skemmtum okkur svo vel við lesturinn. Hlógum mjög oft, prófuðum að pota í naflann, hermdum eftir holupotvoríum og dredfúlíum. Reyndar fannst okkur bókin svo skemmtileg að það vakti athygli út fyrir herbergið og rataði í hendurnar á næsta lesanda sem segir bókina strax fyndna á fyrstu síðu.  Svo hló hann sig í gegnum alla bókina.

Dredfúlíur flýið!  Fær toppeinkunn frá okkur mæðginum. 

Lestu þetta næst

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...