Þegar mannkynið verður ódauðlegt

bronsharpan kristín björg

Fyrir fjöldamörgum mánuðum var mælt með bók við mig. Reyndar seríu. Ég var á höttunum eftir einhverju auðlesnu og grípandi. Eitthvað sem ég gæti sökkt mér niður í og fengi mig til að gleyma umheiminum. Þessi sería átti að uppfylla það, sagði sá sem bjó á bak við meðmælin.

Serían The Arch of the Schythe er þrjár bækur; Schythe, Thunderhead og The Toll. Bækurnar flokkast sem ungmennabækur (e. Young adult). Sagan gerist í fjarlægri framtíð, þegar mannkynið hefur sigrast á dauðanum með hjálp tækninnar. Í blóði þeirra eru nanóvélar sem lækna um leið, létta geð, koma í veg fyrir sársauka og halda manneskju hraustri. Ef svo óheppilega vill til að einhver deyi þá eru endurlífgunarstöðvar sem lífga við. Það er meira að segja hægt að snúa frá elli til æsku. Yfir öllu vomir algóð gervigreind, The Thunderhead, sem stýrir öllu á jörðinni, þar með talið veðrinu. Þetta er því útópía, eða dystópía – það fer algjörlega eftir því hvernig á það er litið.

Einn hængur er þó á öllu saman, því mannkynið hættir ekki að fjölga sér með barneignum. Nú deyr bara enginn lengur í viðbót. Hættan sem steðjar að mannkyni er offjölgun og hrun lífkerfa. Til að sporna gegn offjölgun eru manneskjur, Scythe, sem sjá um að grisja mannkynið á um það bil jafn miklum hraða og áður en allir urðu ódauðlegir. Hafirðu verið valin til að vera Schythe er nær ómögulegt að neita. Aðalsöguhetjurnar, Citra Terranova og Rowan Damisch, 15 ára í byrjun bókanna, eru valin af Schythe Faraday sem lærlingar. Og þar hefst saga sem heldur lesandanum í gegnum þrjár bækur.

Margslungin saga, ótal fléttur

Í gegnum bókina spyr Shusterman ótal siðferðilegra spurninga. Eins og til dæmis hvernig á að velja hver á að deyja? Hvernig er að drepa aðra manneskju? Hvað er að vera heiðvirður morðingi?  Það er auðvelt að gleyma sér í þessum heimi. Shusterman hefur skapað stóran og flókinn heim sem svipar mjög til okkar. Í honum er margt sem við könnumst við og þekkjum, allir eru bara líka ódauðlegir og starfsferlar eru nokkuð frábrugðnir. Shusterman svíkst hvergi undan lögumálum heimsins sem hann hefur skapað. Fléttan er fullmótuð og sannfærandi. Eigi eitthvað að gagnrýna þá er það pólunin í hinu vonda á móti hinu góða. En þar fyrir utan þá er vel hægt að stökkva til framtíðar í þessum bókum.

Atburðarrás bókanna er hröð og söguframvindan óútreiknanleg. Þegar maður hefur vanist einni hugsun, eða aðalpersónurnar sigrast á einni áskorun, má alltaf búast við að Shusterman snúi upp á allt upp á nýtt og dragi mann í allt aðra átt en maður bjóst við. Tungumál bókanna er einfalt svo það er virkilega auðvelt að sökkva sér ofan í þær og lesa þær hratt. Sjálf las ég þær í rafbókaformi sem gerir þær enn fljótlesnari.

Ég mæli með lestri á Arch of the Schythe hafirðu áhuga á vísindaskáldsögum og furðusögum. Kvikmyndarétturinn af bókunum hefur verið keyptur af Universal Studios, en lítið hefur heyrst af því hvernig tökur gangi. Líklega eru þær ekki enn hafnar, síðustu fréttir herma að enn sé verið að skrifa handritið að myndunum. Ég bíð spennt eftir myndinni.

 

Lestu þetta næst

Of flöt frásögn

Of flöt frásögn

Violeta er nýjasta skáldsaga Isabel Allende sem kom út á síðasta ári og stuttu síðar í íslenskri...

Blæðir þér?

Blæðir þér?

Í kvöld heiti ég Sara. Pabbi minn, sem kom með mér í leikhús, heitir líka Sara. Sama gildir um...

Er hægt að vera svona?

Er hægt að vera svona?

Nú í mars mánuði kom út hjá bókaútgáfunni Björt bókin Verity eftir Colleen Hoover í íslenskri...

Harry var einn í heiminum

Harry var einn í heiminum

Í janúar kom út ein stærsta ævisaga síðari tíma. Bókin seldist í bílförmum út um allan heim því...