Birtingarmyndir og ævintýri

Úlfur hefur lengi hlakkað til að fara í ævintýraferð með bestu vinkonu sinni Ylfu. Ævintýradagurinn er uppfullur af háska og spennu og svo má ekki gleyma öllu namminu! Úlfur hlakkar mjög mikið til að segja mömmum sínum frá öllum ævintýrunum að degi loknum. 

Úlfur og Ylfa – Ævingýradagurinn  er nokkuð hefðbundin saga um ímyndunaraflið og hverju er hægt að áorka með því. Í ævintýraferð þeirra vina breytist lítil tjörn í stórfljót og íslenskur mói í afrískar sléttur. Litlum molum um vinskap er líka laumað með í blönduna. 

Sagan er fjörug og jafnvel spennandi, en eins og áður segir nokkuð hefðbundin saga um ímyndunaraflið. Þessi bók sker sig þó úr með þeim birtingarmyndum á fjölskylduformi sem hún sýnir lesendum sínum.  

Hinseginleikinn

Höfundar bókarinnar eru Ingileif Friðriksdóttir og María Rut Kristinsdóttir sem standa að baki vefsíðunni Hinseginleikinn. Þær hafa áður gefið út barnabókina Vertu þú! sem fagnar fjölbreytileikanum í öllum sínum myndum. Það er ætlun þeirra með bókinni um Úlf og Ylfu að sýna fjölskyldulíf í fjölbreyttari myndum en venja er í íslenskum barnabókum og má ætla að bækurnar um vinina verði fleiri. Hér eru það mæður Úlfs sem er birtingarmynd hinseginleikans. Úlfur vaknar á heimili með tveimur mæðrum. Það er ekki aðalpunktur bókarinnar, heldur hin æsispennandi ævintýraferð. Enda er fjölskylda sem hans ein birtingarmynd af nútímafjölskyldum.

Það er mikivægt fyrir börn að geta speglað sig í barnabókum. Ekki síst þegar um óhefðbundnari fjölskyldur er að ræða. Fjölskyldur þar sem eru tvær mömmur eða tveir pabbar eða transforeldri birtast örsjaldan í barnabókum. Þegar það gerist er það fagnaðarefni fyrir það barn sem þá getur séð sína eigin fjölskyldu í bókinni. Það barn getur speglað sig í bókmenntum og heiminum og séð að það eru jú bara víst til fjölskyldur eins og þess. Og það er dýrmætt.

Djúpir litir og gleði

Ég kann vel við myndir Auðar Ýrar. Myndirnar eru litaðar djúpum og þægilegum litum og á hverri síðu er mikið að gerast. Íslensk náttúra í öllu sínu veldi kemst til skila til lesandans, ógnir hafsins og óravíðáttur sléttunar í Afríku. Myndirnar eru lifandi en yfir þeim er einhver andi sakleysis sem heillar mig sérstaklega. 

Ævintýrasagan sjálf er þó ekkert of spennandi. Jú, það er gaman að geta stjórnast af ímyndunaraflinu og geta upplifað ævintýri. En þetta er ekki endilega raunveruleiki sem mörg börn í dag búa við. Litla búðin á horninu er tæplega til lengur, en Úlfur og Ylfa heimsækja einmitt eldri karla sem reka búð á horninu (hér má velta fyrir sér hvort þeir séu sambýlismenn) en þess lags búðir eru bara heldur sjalfgæfar og eiga fremur heima í æskuminningum höfundanna. Þetta er óskaplega nostalgísk sýn á samfélagið sem við búum í. Sagan er svo öll sveipuð þessum ljóma fortíðarþrár þess tíma þegar börn hlupu um eftirlitslaus og hámuðu í sig nammi úti í guðsgrænni náttúrunni. Ég hefði verið sáttari við bókina hefði hún sýnt raunveruleika íslenskra barna betur. En þá hefði hún kannski orðið of löng?

Mikilvæg bók í safnið

En þrátt fyrir þessa vankanta þá eru birtingarmyndirnar sem koma fram í bókinni dýrmæt viðbót í heldur fátæklega flóru barnabóka sem sýna öðruvísi fjölskyldur, án þess að það sé aðalmálið í bókinni. Þetta er vandmeðfarið. En Ingileif, Maríu Rut og Auði Ýr tekst að ná takmarki sínu með ágætum. 

 

Lestu þetta næst

Lygar eða skemmtisögur?

Lygar eða skemmtisögur?

Í seríunni um Bekkinn minn eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur er íslenskur raunveruleiki eins og hann...

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...