Að breyta heiminum

Bókabeitan gaf út bókina Að breyta heiminum eftir Ingibjörgu Valsdóttur fyrir stuttu. Bókin er fallega myndskreytt af Lilju Cardew og er hún ætluð 6-12 ára krökkum. Ég ákvað að grípa tækifærið eftir að ég fékk þessa bók í hendur og lesa hana með stelpunum mínum því þær eru akkúrat á því aldursbili. Við mæðgur höfum ekki lesið mikið saman í sumar, höfum verið mikið hvor í okkar horni að lesa en erum að taka okkur á og ætlum að lesa allavega eina bók saman í mánuði. Svo það var fínt að byrja á þessari bók. 

Bókin fjallar um Marko og Stellu litlu systur hans sem eru allt í einu stödd á skrítnum stað eins og segir aftan á bókinni. Marko veit ekkert hvar þau eru, hvaða furðulega fólk þetta er í kringum þau né hvernig staður þetta eiginlega er sem þau eru á. Honum líður þó eins og eitthvað slæmt hafi gerst en man ekki hvað. Hann veit ekki hvernig þau komust á þennan stað og síðustu minningar hans áður en hann fann sig þarna eru stopular. 

Eðlilega fer Marko að leita að leiðinni heim en einnig að systur sinni Stellu því hann finnur til mikillar ábyrgðartilfinningar gagnvart henni sem stóri bróðir. Hann kemst að því að hún er í góðri pössun á þessum nýja stað en hann sér líka að þarna eru hinar ýmsu furðuverur á borð við Rösk – vekjaraböku, Verkil og Beru. Þessar verur eru góðar þó skrítnar séu og vilja allt það besta fyrir Marko og Stellu á meðan dvöl þeirra stendur á þessum furðustað. 

Öðruvísi en góð bók fyrir okkur að lesa

Ég var ekki alveg viss með þessa bók þegar ég byrjaði að lesa hana fyrir stelpurnar. Þetta er svona nokkurskonar heimspekileg fantasía ef svo má að orði komast. Dæturnar hafa meira verið að vinna með bækur Gunnars Helgasonar, Bergrúnar Írisar og Bjarna Fritz – bækur sem gerast allar í raunheimum. Ekki svo mikið farið í lestur á bókum sem segja hlutina ekki beint út og gerast á einhverjum stað sem þær eiga kannski ekki eins auðvelt að tengja við. Ég var því sjálf spennt að sjá hvort þær myndu vera hrifnar af svona týpu af bók.

Þeim fannst bókin öðruvísi og skrítin fyrst en svo varð hún grípandi og þær voru ósáttar við að hún endaði. Furðuverurnar þótti þeim skemmtilegar og Marko hugrakkur. Það kviknuðu upp margar spurningar og pælingar um hvar foreldrar hans væru eiginlega. Hvort hann væri þarna því hann væri dáinn? Hvort hann hefði lent í stríði eða einhverju öðru? Mér þótti það áhugavert að það var það fyrsta sem stelpunum datt í hug. Að heima hjá honum væri stríð og foreldrarnir látnir eða systkinin látin. Það segir kannski talsvert um umræðuna og um heiminn sem við búum í í dag. 

Út fyrir kassann

Sjálfri fannst mér þetta falleg saga. Ást Markos til systur sinnar og foreldra er falleg og hugmyndin um þennan skrítna stað og tilgang hans líka. Heilt yfir fannst mér gaman að lesa bókina með stelpunum og ég átti áhugaverðar samræður við þær út frá bókinni sem við hefðum kannski ekki annars átt og eigum bara of sjaldan. Ég held samt að ef börn eru ekki vön að lesa „svona týpu“ af barnabókum þá sé gott að hún sé lesin með einhverjum eldri. Ekki því hún er eitthvað óviðeigandi eða erfið – alls ekki. Stundum þarf bara að aðstoða börn til að hugsa út fyrir kassann við bókalestur ef þau eru ekki vön því. Allavega mín börn. Svo er svo gaman að lesa bækur saman og fara inn í allskonar umræður út frá þeim. Þessi bók er bara rétt rúmar 90 blaðsíður en það tók okkur samt fjögur kvöld að lesa hana því á hverju kvöldi enduðum við í svo miklum umræðum út frá efni bókarinnar. Er það ekki með betri kostum bókar ef það gerist?

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....