Þegar maður er með nýjan lesanda á heimlinu vill maður ota að honum skemmtilegum bókum. Skemmtilegar bækur vekja lestraráhuga og forvitni. Góðar myndabækur eru tilvaldar í þetta.

Við mæðginin erum alveg dottin ofan í lestur á bókunum um Pétur og köttinn Brand eftir Sven Nordqvist sem Kvistur útgáfa gefur út í stórgóðri þýðingu Ástu Halldóru Ólafsdóttur. 

Bækurnar segja frá Pétri, rólyndum bónda í sænskri sveit, og kettinum hans Brandi. Það var heldur rólegt áður en Brandur kom til sögunnar, segir Pétur í einni bókinni. En þegar Brandur kom þá færðist heldur betur fjör á bæinn. Pétur og Brandur eiga hænur sem þeir hugsa um af mikilli natni og margar bókanna um Pétur og Brand snúast einmitt um hænurnar. Hænurnar eru í það minnsta aldrei fjarri í myndlýsingunum. 

Myndirnar segja margar sögur

Bækurnar um Pétur og köttinn Brand eru ekki auðveldustu myndabækurnar ef ætlunin er að láta barnið lesa sjálft. Þær eru skrifaðar á blæbrigðaríku og kjarngóðu tungumáli og eru jafnvel nokkuð þungar í lestri. Þegar við mæðginin lesum bækurnar saman er oftar en ekki spurt út í hitt eða þetta orðið. Eða hann hlustar bara og lærir með osmósunni sem börn búa yfir á þessum aldri. Hann getur þó illa lesið bókina sjálfur, enda er letrið heldur lítið og orðin löng. En þá koma myndirnar sterkar inn!

Myndirnar í bókunum um Pétur og köttinn Brand eru lifandi og fjölbreyttar. Á hverri síðu má finna smáatriði sem hægt er að rýna í, hreyfingu og litla brandara. Stundum er saga inni í myndunum sem gaman er að finna. Þannig má skoða hverja síðu lengi. Sex ára álitsgjafi Lestrarklefans segir myndirnar vera mjög fyndnar og sérstaklega tók hann eftir því að á sumum myndum eru hlutir í röngum hlutföllum. Þannig er á einni síðunni risastór fífill á bak við Pétur og Brand og agnarsmá kýr á annarri. Þetta finnst honum mjög fyndið og skemmtilegt og hann hefur lagt sig fram við að finna þessar myndir sem samræmast ekki raunveruleikanum í bókunum. Einnig finnst honum mjög skemmtilegt að Brandur og hin dýrin kunni að tala. 

Umfram allt fyndnar

Sjálf kann ég mjög vel við andann sem ríkir í bókunum. Pétur er rólyndiskall sem gengur hægt um og er alltaf með ráð við öllu og býr yfir óþrjótandi þolinmæði gagnvart uppátækjum Brands. Og hann er teiknaður þannig að maður finnur afslappað andrúmsloftið í kringum hann í gegnum teikningarnar. Brandur er svo mun fjörugari. Hann er sífellt brosandi með stór augu sem loga af forvitni, uppátækjum og lífsgleði. Hann er alltaf til í að hjálpa, þótt það takist stundum illa. Brandur og Pétur eru nefnilega svolitlir klaufar, sem álitsgjafanum finnst einmitt líka mjög fyndið. Það gengur stundum allt á afturfótunum hjá þeim félögum, en allt endar vel. 

Pétur er hinn þolinmóði uppalandi og Brandur er ofvirkt barn sem þráir sjálfstæði, en samt innan vissra marka. Ég efast um að ég geti lofað þessar bækur nægilega. Þær eru bráðskemmtilegar, fallegar og hlýjar. Og það sem skiptir öllu máli samkvæmt álitsgjafanum – fyndnar. 

Lestu þetta næst