Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og gegnsætt tjald og teygir úr sér. Smám saman fikrar hún sig fram til áhorfenda, stikar um óróleg og kinkar kolli til þeirra sem ganga inn, leiksýningin ekki byrjuð – og þó. Unnur iðar öll í flæðandi kjól, meðan leðurjakki og bleikur hálsklútur skapa áferð og hugrenningartengsl til bókarkápu Saknaðarilms, nóvellunnar sem leikverkið er byggt á, ásamt nóvellunni Aprílsólarkulda. Báðar eftir Elísabetu Jökulsdóttur, en Unnur Ösp hefur hafið túlkun sína á Elísabetu enda skáldverkin bæði ævisöguleg. Loks ávarpar Unnur áhorfendur; er ekki bara best að byrja? Spyr hún ögn óörugg, og það er erfitt að neita því þó að vissara sé að allir undirbúi sig vel andlega fyrir það sem koma skal.

Samvinnandi þættir skapa sterka skynjun

Leikgerðin er í höndum Unnar sjálfrar og það er Björn Thors sem leikstýrir. Um búninga sér Filippía I. Elísdóttir og myndlistarkonan Elín Hansdóttir sér um leikmyndina sem er einföld en virkilega áhrifamikil þar sem litir og textíláferðir gera hana hlýlega og heimilislega en samt á sama tíma er allt einhvern veginn tómlegt og einmanalegt. Björn Bergsteinn Guðmundsson sér um lýsingu og er þar augljóslega í sterkri samvinnu við búningahönnuð en saman skapa þau mjög sterka skynjun og upplifun. Ólöf Arnalds og Skúli Sverrison sjá svo um tónlist í verkinu. Allir listrænir þættir vinna vel saman í að skapa viðkvæman en magnþrungin hughrif.

saknaðarilmur

Að segja hið ósagða

Unnur Ösp fer alla leið í túlkun sinni á Elísabetu, hún er fiðrildi sem er mikið niðri fyrir, óörugg en ákveðin á sama tíma en Elísabet hefur sýnt að hún er snillingur í að segja hið ósagða, að miðla því sem fyrri kynslóðir lögðu kappkosti við að fela. En það er einmitt einn angi af leikverkinu, kynslóðabilið og erfð áföll. Það má jafnvel segja að hún sé að brjóta eitthvað niður og Unnur Ösp og Björn fara með þá hugsun lengra með því að brjóta fjórða vegginn og rústa leikmyndinni. Ég gæti í raun ekki hugsað mér betri form fyrir þessar sögur en einmitt einleikur sem ávarpar blákalt.

Hrá smáatriði

Leikverkið er einlægt og hrátt en þrátt fyrir hráleikann er augljóst að hugsað hefur verið um hvert einasta smáatriði og Unnur og Björn ná að koma áhorfendum gjörsamlega að óvörum, jafnvel þeim sem hafa lesið frumverkin. Verkið byrjar hægt en magnast upp smám saman og túlkun Unnar verður dáleiðandi. Hún er gjörsamlega stórkostleg í hlutverkinu. Hvernig hún leikur á móti skinnpels og úlpu sem tákna elskhuga og móður persónunnar er virkilega vel útfært og áhrifamikið.

 Saknaðarilmur er einstakt og magnþrungið leikverk, fullt af stórum tilfinningum sem kveikja neista. Samspil og samvinna teymisins skilar sér í heillandi upplifun og Unnur Ösp á allt standandi lófaklapp skilið enda augljóst að hún hefur lagt allt sitt í túlkunina.

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...