Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn þar sem töfrar jólanna birtast í einlægri og hugljúfri túlkun í gegnum dans, ljósahönnun og dásamlega persónusköpun. Höfundur verksins er Inga Maren Rúnarsdóttir.

Litríkar persónur

Áhorfendur fylgjast með ungri stúlku sem er túlkuð af Söru Lind Guðnadóttur. Stúlkan er í gönguferð með sleðann sinn í snjónum. Umhverfið er heillandi og friðsælt, stjörnur blika á himnum og snjóbreiður leggjast yfir grenitré.  Á göngu sinni hittir hún tvo héra sem fara að leika við hana og dansa. Skyndilega er eins og eitthvað hættulegt steðji að þeim, jólakötturinn birtist og stúlkan og hérarnir verða smeyk og vör um sig. Jólakötturinn er til alls líklegur en hann virðist eiga einnig sína góðu hliðar. Dáleiðandi skata og glitrandi jólatré láta einnig sjá sig og áhorfendur fá upplifun af jólum sem eru séríslensk í bland við erlendar tónlistarperlur

Aukaviðbætur sem gleðja og auðga upplifun

Þegar komið er að innganginum að Nýja sviði Borgarleikhússins er börnunum boðið upp á að skrifa jólakort til ástvina. Jólakort sem sendir ósk um góða jóladrauma. Það er virkilega falleg og sniðug leið til að opna inn á leikverkið og gefa börnunum aukalag af upplifun. Þegar gengið er síðan inn í salinn tekur á móti áhorfendum töfrandi jólaheimur sem strax vekur undrun og ánægju. Ljósahönnun í höndum Pálma Jónssonar er vel útfærð og áhrifamikil. Í lok verksins var síðan boðið upp á stutt jólaball þar sem börnunum eru kenndir einkennandi dansar fyrir hverja persónu í verkinu. Þetta var mjög skemmtileg viðbót og braut upp ramma leikhússins svo að börnin upplifi það sem lifandi.

Íslenskir jóladraumar

Verkið er samið inn í íslenska sagnahefð og íslenska dægurmenningu en þarna koma fyrir ýmislegt sem vísar sérstaklega til íslenskra jóla. Mörg börnin þekkja persónurnar fyrir og önnur fá áminningu um íslenskar hefðir.  Það er síðan  fínlegur húmor í verkinu sem talar bæði til barna og fullorðinna og er það sérstaklega jólakötturinn sem er túlkaður af Shota Inoue sem færir mestu leikgleðina inn í verkið.

Búningarnir vel útfærðir og heillandi

Augljóst er að mikil hugsun og nákvæmni hefur verið lögð í bæði leikmynd og búningagerð en búningarnir eru hver öðrum fallegri. Þeir spila auðvitað verulega mikilvægt hlutverk í túlkun og persónusköpun í svona verki en það var augljóst að vandað var til verka og vil ég sérstaklega nefna búning og túlkun skötunnar sem að gat auðveldlega fært áhorfendum gæsahúðartilfinningu. Búningarnar og sviðsmynd eru í höndum Júlíönnu Láru Steingrímsdóttur.

                            Það er frábært að fá svona jólaverk fyrir börn sem að sker sig úr og kynnir börn fyrir annars konar leiktúlkun. En sérstaklega er það dýrmætt að fá verk sem að hentar foreldrum sem skilja kannski ekki fullkomlega íslensku en vilja samt fá að njóta leikhússins með börnum sínum. Túlkunin í gegnum dans og persónusköpun er sterk án texta og tals og grípur áhorfendur vel. Heimurinn er fullskapaður og vel til þess fallinn að ná að kveikja á ljúfum og notalegum tilfinningum hjá jafnvel hörðustu jólagagnrýnendum.

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...

Að syrgja er að elska

Að syrgja er að elska

Daníel Daníelsson er menntaður í sagnfræði og ritlist og hefur nú gefið út sitt annað skáldverk,...