
Yerma eftir Simon Stone í Þjóðleikhúsinu
Jólasýning Þjóðleikhússins 2024, Yerma, kemur svo sannarlega á óvart, ef áhorfendur hafa, líkt og ég, ekki lesið sér til um verkið fyrirfram. Ég hélt að hér væri um að ræða uppsetningu á verkinu eftir Lorca frá 1934 þar sem ófrjóir kindabændur á Spáni tækjust á við hversdaginn, svo mér brá heldur betur í brún þegar tjöldin voru dregin frá og ég hitti fyrir snemmmiðaldra hjón í úthverfi á Íslandi á okkar dögum að ræða um rakaðar píkur og klám.
Yerma nútímans
Þegar að hléinu kom og ég nældi mér í leikskrá komst ég að því að þessi Yerma er þýðing á samnefndu verki hins breska Simons Stone frá 2016, sem endurskrifaði gömlu góðu Yermu fyrir nútímann. Og þvílík endurskrif. Yerma nútímans er kona í sambandi, henni gengur vel í vinnunni, hún á allt og má allt, og ákveður í sameiningu með maka sínum að tími sé kominn á barneignir. Og þá fer allt að molna, því í ljós kemur að hjónaleysin geta ekki eignast barn. Fjölskyldubönd bresta og brotna, sambandið líður vítiskvalir og allt er undir í æsilegum eltingaleik við eitt af því fáa sem ekki er hægt að fá með eintómum vilja, peningum og forréttindum – frjóvgað egg í eigin legi.
Tilfinningasprengja
Oft þegar eldri verk eru sett á svið og hamrað er á því að þau eigi vel erindi við nútímann velti ég því fyrir mér hvers vegna var ekki ákveðið að færa verkið til dagsins í dag, og til Íslands. Í þessu verki er það gert og það á virkilega listilegan hátt. Ekki er nóg með að Stone hafi fangað baráttu nútímakonunnar við ófrjósemi, samfélagskröfur og erfiðleikanna sem því fylgja á magnaðan hátt, heldur hefur Júlía Margrét Einarsdóttir, þýðandi verksins, gert það svo fullkomlega rammíslenskt í þokkabót að það hálfa væri nóg. Hún hefur dásamlegt lag á tungumálinu svo að verkið rennur léttilega og vel, allar samræður eru bæði hnyttnar og grípandi og sannfærandi, sem er ekki eitthvað sem er auðvelt að ná fram í leikhúsi, og hvað þá á íslensku. Tilfinningamiðja verksins heldur svo áhorfendum límdum við sviðið, hráar tilfinningarnar, heiðarleikinn, ljótleikinn og nístandi fegurðin í sorginni skera inn að beini.
Leikarar verksins eru hver öðrum betri, og þá er Nína Dögg Filippusdóttir skínandi stjarna í hlutverki aðalpersónunnar, sem ber að vísu ekkert nafn í verkinu, en ég stend mig að því að kalla Yermu svona prívat. Enda er Yerma kvenmannsnafn dregið af spænska orðinu yermo sem þýðir að vera ófrjór. Kvikindisleg nafngjöf það. Björn Thors leikur kærasta, og síðar eiginmann hennar, hann Jón, og gerir það listavel. Samtöl þeirra sem parsins í miðju verksins eru svo raunsönn og fyndin, og hvernig sambandið þróast með tímanum er virkilega innblásið og sársaukafullt. Maður trúir því algerlega að þau séu par sem hefur verið saman lengi, sem elskar hvort annað og virðir, en getur samt alveg rifist og hneykslast á hvort öðru og grínast í og með. Ólafía Hrönn, Ilmur Kristjánsdóttir og Guðjón Davíð Karlsson leika stærri aukahlutverkin, móður og systur aðalpersónunnar og gamalt skot. Öll gera þau það af næmni, og mér finnst Guðjón sérstaklega góður sem gamall töffari með hjarta úr gulli. Samskipti hans við aðalpersónuna eru skrifuð og leikin sérstaklega vel og svo margt ósagt látið skína í gegn í því hvernig persónurnar tala saman.
Leikmynd fortíðar í nútímaverki
Verkinu er leikstýrt af Gísla Erni Garðarssyni og nær hann fram mjög góðum leik hjá sínu fólki. Einhverjar breytingar hafa orðið á verkinu frá því að það var fyrst sett upp, en önnur leikkona en Vala Kristín lék samstarfskonuna Dídí, og ekkert lifandi ungabarn kom fram á sviðinu, aðeins barnavagn, sem lék hlutverk sitt stórvel.
Ég er mjög hrifin af sviðsetningunni á verkinu, en notast er við gamaldags, raunveruleg sett og búninga. Mínímalisminn sem hefur oft á tíðum verið mjög ríkjandi á sviðinu er alveg horfinn, og áhorfandi þarf ekki að ímynda sér eitt eða neitt. Það er riggað upp íbúð og garði og tré, brúðkaupi og skrifstofu og öllum pakkanum. Þá eru búningaskipti hæfilega tíð, aðalpersónan er látin þróast og breytast á sannfærandi hátt sem er sýndur með klæðnaði hennar. Föt aukapersónanna eru einnig lifandi og segja sögu, þá sérstaklega finnst mér föt Ilmar sem systurinnar sýna hennar ástand og upplifun, og klæðnaður móðurinnar spilar stóran þátt í að sýna persónu hennar sem kalda og fjarlæga. Ég sat mjög framarlega, nálægt trommusettinu ógurlega, sem Gulli Briem spilar á af mikilli lagni. Eini gallinn er að maður er svo djúpt sokkinn í sýninguna að þegar trommurnar byrja á milli atriða getur manni brugðið rosalega. Ef einhver heyrði öskur af fjórða bekk þá var það ekki ég. Alls ekki.
Áhrifaríkur nútímaharmleikur
Á heildina litið er þetta virkilega gott verk sett fram á skemmtilegan og áhrifaríkan hátt, mér finnst það takast vel til sem er svo erfitt að negla, að setja verk upp í íslenskum samtíma án þess að það verði hjákátlegt. Þá er leikurinn það sem keyrir verkið í gegn og nær þessum mögnuðu áhrifum, og þrátt fyrir að það sé kannski ólíklegt að þær Ilmur og Nína Dögg, sem eru 46 og 50 ára í raun, séu að reyna að eignast sín fyrstu börn, þá leika þær hlutverkin fullkomlega, og ef áhorfandi er tilbúinn að ímynda sér að þær séu svolítið yngri þá er þetta fullkomið. Það væri vissulega gaman að sjá leikkonur á fertugsaldri takast á við hlutverkin, en á sama tíma erfitt að ímynda sér aðra en Nínu Dögg í þessari mögnuðu uppsetningu.