ljósbrot

Á dögunum var ég í leit að góðri ástarsögu, the Guardian var með fínustu samantekt þar sem bókin The Wedding People eftir Alison Espach hlaut mikið lof. Ég hafði hvorki heyrt um höfundinn, né bókina, en þar sem hún kostaði 99 pence á Kindle var engin spurning um að prófa hana og vá hvað ég sé ekki eftir því!

Þetta er þó alls ekki hefðbundin ástarsaga. Phoebe er fertug og er búin að gefast upp á lífinu: hjónabandinu hennar lauk með framhjáhaldi Matts en þeim tókst ekki að eignast börn saman, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í glasafrjóvgun, og það hefur ekkert orðið úr akademískum ferli þessarar fluggáfuðu konu. Hún hefur ekki tekið stjórnina í eigin lífi í mörg ár og ákveður loksins eftir tveggja ára innilokun vegna Covid að láta til skara skríða. Hún bókar lúxus svítu á fínu hóteli í Rhode Island og flýgur þangað frá Missouri án farangurs. Hún ætlar að binda enda á líf sitt. Það er bara eitt vandamál, hún er eini gesturinn á hótelinu sem tengist ekki rándýru brúðkaupi og þegar verðandi brúðurin, Lila, kemst að fyrirætlunum hennar bannar hún henni að eyðileggja stóra daginn sinn með sjálfsvígi. 

 

Mikill húmor

Það hljómar kannski skringilega að bók sem fjallar um konu á barmi sjálfsvígs geti verið ótrúlega fyndin en The Wedding People er bæði það og upplífgandi. Espach tekst ótrúlega vel að lýsa þunglyndi Phoebe og því að vera á botninum af virðingu á sama tíma og aðstæðurnar Phoebe eru mjög húmorískar. Það að fordekruð 28 ára verðandi brúður biðji hana að minnsta kosti um að fresta sjálfsvígi sínu eru jú afar fjarstæðukenndar aðstæður. Það þarf ekki beint höskuldarviðvörun við því að Phoebe ákveður að láta ekki verða af plönum sínum, og endar á að taka fullan þátt í þessu brúðkaupi. Um er að ræða heila viku af hátíðarhöldum og fullt af skrautlegum karakterum, á borð við móður brúðarinnar sem drekkur einungis á daginn og verðandi mágkonuna, Mörlu, sem er með endalaus leiðindi. Ástin bankar að sjálfsögðu upp á og á þessari viku lifir Phoebe lífinu meira lifandi en hún hefur gert síðustu áratugi.

Góð persónusköpun

Phoebe er vel sköpuð persóna, hún er augljóslega flugskörp en hefur aldrei fundið fjölina sína. Lesandinn fagnar því að sjálfsögðu að hún sé að uppgötva töfra lífsins á ný og heldur með henni allan tímann. Lila er líka vel skrifuð, í upphafi virðist hún gjörsamlega óþolandi en hægt og rólega kemur í ljós hvaða manneskju hún hefur að geyma. Lila leitar strax til Phoebe að ráðum, en að lokum er það ekki síður Lila sem bjargar Phoebe. Karlarnir í sögunni eru flestir sjarmerandi á sinn hátt en þó að ástin komi við sögu fannst mér bókin ekki síður vera vináttubók en ástarsaga.

Frábær afþreying

Ég varð niðursokkin í The Wedding People, bókin er óvenju grípandi og fannst mér hún ekki síðri skemmtun en afbragðs góð rómantísk kvikmynd og er auðvelt að ímynda sér að hún gæti einmitt ratað á hvíta tjaldið. Það eru einhverjar óvæntar vendingar en lesandinn finnur  að hann gengur að hefðbundinni rómantískri sögu þar sem hlutirnir hafa tilhneigingu til að fara vel. Ég get því ekki annað en tekið undir meðmæli The Guardian, bókin er afþreying af bestu gerð, falleg saga sem fer vel með allar persónurnar! 

 

 

 

Ef þú eða einhver sem þú þekkir er með sjálfsvígshugsanir eða sjálfskaðandi hegðun má alltaf hafa samband við Píeta-samtökin, á pieta.is og í síma 552-2218. Þá er hjálparsími Rauða krossins opinn allan sólarhringinn í síma 1717 og netspjall á heimasíðunni 1717.is.

Lestu þetta næst

Marglaga og mannlegur Laddi

Marglaga og mannlegur Laddi

Ég var mjög óviss þegar ég sá fyrstu auglýsingar birtast fyrir nýja sýningu um líf og störf Ladda...

Hratt, hratt…hægt

Hratt, hratt…hægt

Mér er það afar minnisstætt þegar ég fletti fyrst í gegnum Reese's Book Club í leit minni að góðri...

Ég er ofurhetja

Ég er ofurhetja

Kapteinn Frábær í Tjarnarbíó. Kapteinn Frábær er engin venjuleg hetja. Eða er hann kannski allra...

Tár, bros og trúðaskór

Tár, bros og trúðaskór

Innkaupapokinn í Borgarleikhúsinu Leikhópurinn Kriðpleir ræðst ekki á garðinn þar sem hann er...